„Það þarf þrautseigju til að takast á við lífið“

Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari var að klára feðraorlofið sitt og …
Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari var að klára feðraorlofið sitt og er að koma sér af stað í vinnu aftur. mbl.is/Unnur Karen

Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikari og tónlistarmaður, er viss um að ofbeldi og eitruð samskipti eigi rætur sínar að rekja til samfélagsins frekar en einstaklinganna. Hann segir heilbrigt uppeldi þar sem virðing og fræðsla er í brennidepli geta skipt öllu máli fyrir komandi kynslóðir. 

Árið 2016 tók ég þátt í uppsetningu Ratatam á sviðsverkinu SUSS! sem var unnið upp úr 70 viðtölum við þolendur og gerendur í heimilisofbeldismálum. Verkið var unnið í samstarfi við flestar stofnanir og félagasamtök sem starfa í málaflokknum og maður fékk mikla og góða innsýn inn í þennan heim. Um þessar mundir er ég svo að vinna heimildarinnslög fyrir nokkur foreldrafélög á höfuðborgarsvæðinu um geðheilbrigði barna og unglinga og skjánotkun. Þannig að þótt ég sé ekki með sérfræðimenntun í þessum málum þá er ég faðir sem brenn fyrir málefnum sem börn vefjast oft inn í,“ segir Guðmundur Ingi leikari og tónlistamaður sem var að klára feðraorlof og er að fara að koma sér af stað í vinnu aftur.

Það eru fullt af spennandi verkefnum sem bíða hans. Leikstjórn á verkinu Blóðuga kanínan eftir Elísabetu Jökulsdóttur sem frumsýnt verður í Tjarnabíó í byrjun næsta árs sem og aðalhlutverkið í kanadísku myndinni All Eyes on Me sem tökur hefjast í þessum mánuði á.

Í ljósi umræðna að undanförnu um eitraða karlmennsku, hver er þín sýn á heilbrigt umhverfi fyrir börn að alast upp í?

„Markmiðið finnst mér að ætti alltaf að vera að ala upp börn með heilbrigða sjálfsmynd. Börn sem hvíla vel í sér og eru í sátt við umhverfi sitt og þekkja styrkleika sína og veikleika. Það er ekki einfalt mál og því miður langt frá því að vera nóg að standa sína plikt sem foreldri. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.“

Samfélagsmiðlanotkun barna og unglinga veldur depurð

Guðmundur Ingi er mjög hrifinn af því sem Inga Dóra Sigfúsdóttir og hennar fólk hafa verið að gera hjá Planet Youth.

„Þær aðferðir hafa gerbreytt landslaginu á Íslandi varðandi drykkju og vímuefnaneyslu unglinga á frekar skömmum tíma og þau eru núna að vinna í yfir 40 samfélögum og borgum í fimm heimsálfum. Samkvæmt rannsóknum þeirra og reynslu skiptir fátt meira máli, fyrir svona utan það að standa sig sem foreldri og fyrirmynd, en að vera í góðum tengslum við allt nærumhverfi barnanna þinna. Þekkja vini þeirra, foreldra vina þeirra fylgjast með þeim í tómstundastarfi og reyna að búa til nærumhverfi þar sem foreldrar í vinahópnum sameinast um þær reglur og mörk sem gilda fyrir hópinn allan. Þegar börn finna fyrir aga og utanumhald frá öllu nærumhverfinu þrífast þau best og þá eru minnstar líkur á að þau villist af leið. Ég held að þetta sé sérlega mikilvægt nú á tímum til að mynda varðandi aðgang að skjá og neti. Það eru að koma út nýjar rannsóknir sem benda til og sanna á stundum að óhófleg skjánotkun hefur varanleg áhrif á gráa efnið í heilanum, samfélagsmiðlanotkun barna og unglinga veldur depurð og sjálfsmyndarsjúkdómum, sérlega hjá stúlkum. Íslenskir drengir byrja að meðaltali 11 ára að horfa á klám og íslenskir menntaskóladrengir eiga Evrópumet í klámáhorfi. Allt þetta hefur varanleg og afar skaðleg áhrif á stóran hluta barna okkar og unglinga og er nokkuð sem við verðum að taka alvarlega ef við viljum í alvöru sjá breytingar í samskiptamynstri kynjanna til frambúðar. Þá held ég að það sem Inga Dóra og hennar fólk tala um sem „positive monitoring“ eða jákvæða eftirfylgni sé mjög mikilvægt. Ég reyni að setja mig inn í það sem eldri strákurinn minn er að horfa á á YouTube og ég spila með honum tölvuleiki til að skilja hvað hann er að fást við og á hverju hann hefur áhuga. Þá á ég auðveldra með að setja honum mörk og útskýra fyrir honum af hverju sumt á netinu og í tölvuleikjum er honum skaðlegt og hvað er í lagi. Það minnkar líka líkurnar á að hann fari að fela hluti fyrir mér og vera óheiðarlegur. Umburðarlyndi, kærleikur, forvitni og reglur og agi sem börnin skilja er málið. Hitt sem rannsóknir og vinna Ingu Dóru og félaga hafa leitt í ljós er að virk samvera er málið. Börn og unglingar þurfa á virkri samveru með foreldrum sínum að halda fram til tvítugs. Við reynum að eyða sem mestum tíma saman og gera eitthvað uppbyggilegt.“

Guðmundur Ingi er náinn sonum sínum sem eru eins árs …
Guðmundur Ingi er náinn sonum sínum sem eru eins árs og tíu ára. Unnur Karen

Heilbrigð skömm mikilvæg

Mörk og markaleysi hafa verið í umræðunni og hlutverk foreldra að þessu leyti. Hvað finnst þér mikilvægt að við mömmur og pabbar gerum tengt börnum okkar?

„Það allra mikilvægasta er að fara fram með góðu fordæmi. Það er sannað að börn hlusta ekki á það sem foreldrar þeirra, forráðamenn og fyrirmyndir segja, þau taka eftir því sem við gerum og læra mest af því. Í daglegu lífi geri ég mitt allra besta til að vera heiðarlegur við strákana mína og sýna þeim með góðu fordæmi hvernig ég tel best að lifa lífi og koma fram við annað fólk. Þá reynum við konan mín að viðurkenna alltaf yfirsjónir okkar og galla undanbragðalaust og biðjast afsökunar þegar okkur verður á gagnvart drengjunum. Við teljum það mikilvægt, til að kenna strákunum okkar að við erum öll mannleg og gerum mistök. Eins að sömu reglur gildi fyrir alla. Það fer ekki vel með börn að upplifa að það gildi sérreglur fyrir fullorðna. Einnig tek ég það mjög alvarlega að búa ekki til svokallaða hvíta skömm í börnum. Börn hafa ekki sama „filter“ og við fullorðna fólkið. Þau taka alla þá skömm sem þau ekki skilja inn á sig. Það er eðlilegt að skammast sín fyrir það sem maður gerir af sér, ef maður gerir mistök, er feiminn og svo framvegis. Það er kölluð rauð skömm og er heilbrigt. En ef skömmin fer dýpra getur hún breyst í svokallaða hvíta skömm sem getur búið um sig í börnum og haft djúpstæð áhrif á persónuleika þeirra. Besta leiðin til að forðast þetta er að passa að þau skammist sín aðeins fyrir það sem þau eiga og í sanngjörnu magni. Börn geta tekið inn á sig skömm foreldra sinna og taka oft inn á sig þá líðan foreldra sinna sem þau skilja ekki og halda að þau séu að gera eitthvað rangt. Því tel ég mjög mikilvægt að vera algerlega skýr með það hvað börn eiga að skammast sín fyrir og hvað ekki. Mér finnst besta leiðin til þess vera að setja þeim skýr mörk og hafa afleiðingar við hæfi fyrir yfirsjónir, passa upp á að vera heiðarlegur með eigin líðan og biðjast alltaf afsökunar þegar mér verður á. Ég held að ef maður er samkvæmur sjálfum sér með þetta geti börn búið sér til heilbrigð innri og ytri mörk og læri að virða mörk annarra í samskiptum.“

Um 43% stráka í 10 bekk skoða klám oftar en einu sinni í viku

Nú ertu karlmaður og átt börn sjálfur. Hvað kennirðu þeim um samskipti kynjanna?

„Ég geri mitt allra besta til að umgangast alla sem ég hitti eða á samskipti við af kærleika og af virðingu.

Að sýna virðingu í verki og að tala ekki illa um fólk fyrir framan börn. Það held ég að sé mest um vert. Ég og konan mín stígum hiklaust inn í umærður eða drama í vinahóp sonar okkar þegar okkur finnst það þurfa og leiðréttum munnsöfnuð sem er á einhvern hátt niðrandi eða jaðarsetjandi hvort heldur sem er af kynbundnum orsökum eða öðru. Við höfum tekið mjög djúpa umræðu um virðingu fyrir hinum kynjunum, jafnvel þótt áherslur og áhugamál þeirra séu mjög ólík okkar eigin. Þótt strákurinn minn sé bara 10 ára erum við búin að taka við hann mjög beinskeytta umræðu um klám. Íslenskir drengir byrja að meðaltali 11 ára að horfa á klám svo það er ekki seinna vænna. Klám er samkvæmt rannsóknum hugbreytandi efni, sem getur, á sama hátt og fíkniefni, haft varanleg skaðleg áhrif á heilastarfsemi neytenda og orðið til þess að þeir geti aldrei átt í eðlilegum heilbrigðum innilegum og kynferðislegum samskiptum. Mér finnst klámneysla barna og unglinga og „normalisering“ þess vera með alvarlegustu lýðheilsuvandamálum samfélagsins. Um 43% stráka í 10. bekk skoða klám oftar en einu sinni í viku. 54% stúlkna í 10. bekk hafa verið beðnar að senda af sér ögrandi myndir og 32% hafa sent af sér slíka mynd áður en þær klára grunnskóla. Þetta er ekki í lagi og við sem samfélag þurfum að bregðast við þessu strax. Við ræðum við strákinn okkar mjög opinskátt um birtingarmyndir kynjanna í bíómyndum, tölvuleikjum, í sjónvarpi, bókmenntum og á netinu. Við reynum að gera honum ljóst með skýrum hætti muninn á uppspuna, auglýsingum og stereótýpískum og úreltum kynjunum í þessum miðlum.“

Það vissu allir hvað var í gangi

Kemur þér á óvart umræðan um knattspyrnumennina okkar?

„Nei. Þessi umræða kemur ekkert á óvart. Eitt er hegðun knattspyrnumanna og hitt eru viðbrögð KSÍ. Byrjum á knattspyrnumönnum. Ég hef enga persónulega tengingu við þessi mál og þekki þau ekki neitt nema af því sem ég hef lesið í fjölmiðlum og langar ekki að fara með þessa umræðu í einstök mál eða persónur. Ég fordæmi að sjálfsögðu alla ofbeldishegðun og við verðum að geta tekið umræðuna í stóra samhenginu ef við ætlum að þoka þessum málum í rétta átt til frambúðar. Meint hegðun þessara landsliðsmanna okkar er því miður ekki einsdæmi á heimsvísu. Þetta hegðunarmynstur er víða og er hluti af gamaldags gildismati sem þar til nýlega þótti jafnvel eðlilegt.

Stærsti ótti mannskepnunnar er óttinn við höfnun og að tilheyra ekki. Hann er stærri og djúpstæðari en óttinn við dauðann. Fólk sem óttast höfnun og útskúfun er tilbúið að gera næstum hvað sem er til að verða hluti af því samfélagi sem það óttast að verða útskúfað úr, hvort sem það er fjölskylda, vinahópur, þorp eða þjóðfélag. Frá unga aldri hefur okkur verið innrætt af markaðsöflum og amerískum bíómyndum að besta leiðin til að koma í veg fyrir að okkur verði hafnað sé að verða dýrkuð og dáð; verða ómótstæðileg. Í þessu „ameríkanísaða“ gildismati eru drengir, sem flestir eru með flókin „daddy issues“, lafhræddir um að samfélagið hafni þeim eins og pabbi. Þeir eru tilbúnir að leggja hvað sem er á sig til að verða ríkir, frægir fótboltamenn, leikarar, rokkstjörnur, auðjöfrar, stæltir og ómótstæðilegir. Ef þeim tekst þetta verða þeir dýrkaðir og dáðir og umkringdir kvenfólki sem þeir geta valið úr. Þá mega þeir taka það sem þeir vilja og enginn hreyfir mótmælum. Í þessu gamla gildismati var helsta leið kvenna, sem ekki voru afburðahæfileikaríkar á sínu sviði, að sama markmiði að bera af í fegurð og vera sérlega kynferðislega aðlaðandi fyrir þessa afburðamenn (e. trophy wives). Á þetta sturlaða samfélag hinna frægu, fallegu, ríku og hæfileikaríku horfði svo almenningur öfundaraugum. Dáðist að úr fjarska og börn og unglingar hengdu upp plaköt af þessu fólki og óskuðu sér að verða eins og þau. Bætum við þetta normalíseringu á klámi og fáránlegum útlitskröfum. Loks setjum við í þennan snargeggjaða kokteil af særðum sálum í leit að öruggum stað frá höfnun viðtekið marka- og hömluleysi með áfengis- og vímuefnaneyslu! Hvernig á þetta að fara vel?

Í alþjóðlegri karlaknattspyrnu ertu með menn sem hafa yfirleitt verið dýrkaðir og dáðir frá því að þeir voru guttar. Þeir eru orðnir margfaldir milljónamæringar fyrir tvítugt og yfir þá rignir gylliboðum frá kvenkyns aðdáendum stanslaust. Bilið á milli þess að vera þjóðhetja eða skúrkur sem fær morðhótanir getur verið stöngin inn, eða stöngin út. Þetta er búbbla. Þetta er firring. Langlangflestir koma merkilega heilir út úr þessu en einhverjir höndla þetta ekki jafn vel. En þetta er ekkert öðruvísi í leiklist, stjórnmálum, hermennsku, fjármálaheiminum, svo eitthvað sé nefnt. Lífinu í frægð og frama, í háspennuheimi, hefur alltaf fylgt neysla og kynferðislegt markaleysi. Ég er ekki að verja gjörðir þeirra sem hafa brotið af sér eða smætta þau brot sem hafa átt sér stað. En við verðum að átta okkur á því að þetta er samfélagslegt mein, sem verður ekki upprætt með því einu að taka niður frægustu hákarlana sem brjóta af sér. Eins og Tarana Burke, stofnandi #Metoo, sagði í viðtali, þá var #Metoo ekki stofnað til þess að taka niður vondu hákarlana, heldur til að ljá fórnarlömbum rödd og vinna að langtímabreytingum á því samfélagi sem leyfir svona hlutum að viðgangast. Það eru margar sögur af ofbeldi og óviðeigandi kynferðislegri hegðun þeirra sem valdið hafa eftir að koma. Og þær sögur þurfa að heyrast. Þær þurfa ekki endilega allar á forsíður blaðanna eða á Twitter. Sumir þurfa kannsi bara að deila sögu sinni með einhverjum sem þeir treysta svo ég vitni aftur í Tarönu Burke. Mestu skiptir að að ráðast að rót vandans, sem að mínu viti er uppeldis- og samfélagslegur.

Þegar KSÍ fór að klóra í bakkann var þaoð fyrsta sem kom upp í huga minn prósaljóð sem handritshöfundurinn Scott Rosenberg sendi frá sér þegar upp komst um Harvey Weinstein þar sem hann margendurtekur: „Everybody fucking knew!“

Weinstein var maðurinn sem lét hlutina gerast í kringum sig. Hann safnaði saman hæfileikafólki og breytti landslaginu í bandarískri kvikmyndagerð. Gaf handritshöfundum sem hafði verið hafnað annars staðar tækifæri, sem og leikurum, leikstjórum og svo framvegis. En allir vissu að Harvey Weinstein hafði undarlegar þarfir og hvatir. Fólk talaði um það á kaffistofunni og í partíum. Það vissi kannski ekki nákvæmlega hvað hann var að gera en allir vissu að það var „kinkí“ og hann gat verið hættulegur. En enginn gerði neitt og enginn sagði neitt, því enginn þorði að hrófla við honum af ótta við að missa spón úr aski sínum. Fólk var honum yfirhöfuð svo þakklátt fyrir öll tækifærin. Fannst það jafnvel eiga allt sitt undir honum.

„Strákarnir okkar“ sameinuðu ekki aðeins þjóðina eftir hrun. Þeir breyttu landslaginu í íslenskum fótbolta. Peningaupphæðirnar sem flæddu inn til KSÍ fyrir að A-karlalandsliðinu tókst að tryggja sig inn á tvö stórmót í röð eru eitthvað sem enginn hafði séð áður og allt í einu var KSÍ í myljandi „bisness“. KSÍ átti allt sitt undir þessu drengjum. Ísland býr ekki við þann lúxus að eiga stóran hóp knattspyrnumanna í fremstu röð og þess vegna valt allt á þessum litla og þétta hópi ungra manna sem höfðu, fyrir guðs náð, hæfileika til að sparka í bolta. Allt valt á góðum úrslitum og að þeir ættu góðan dag. Enginn vildi hrófla við þeim og þjóðin dýrkaði þá. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvað KSÍ, eða einstaklingar í áhrifastöðum þar, vissu eða vissu ekki, en það er alveg ljóst að í svona umhverfi eru kjöraðstæður fyrir þöggun í nafni málstaðarins. Þetta er ekki sértækt vandamál hjá KSÍ. Svona meðvirkni með gerendum í áhrifastöðum hefur viðgengist svo langt aftur sem heimildir ná. Þetta er hluti af „kúltúr“ sem við þurfum að breyta.“

Rannsóknir sýna líffræðilegan mun á stelpum og strákum

Hvernig getum við alið upp drengi okkar og stúlkur í meiri sátt og samlyndi að þínu mati?

„Við þurfum að taka ábyrgð á klámneyslu og samfélagsmiðlanotkun barna og unglinga. Þangað sækja þau staðalímyndir og upplýsingar um hvernig á að eiga samskipti sem eru þeim stórskaðleg, ávanabindandi og hafa jafnvel varanleg áhrif á heilastarfsemi. Og við þurfum að fara fram með góðu fordæmi. Samkvæmt breskri rannsókn eru um 66% fullorðinna þar í landi haldin skjáfíkn. Þessu verðum við að taka ábyrgð á. Að mínu mati verðum við að fara að heiðra þann augljósa mun sem er á kynjunum í grunninn og leyfa stelpum og strákum að blómstra hvorum á sinn háttinn. Ég er ekki að segja að allar stelpur séu eins og strákar eins. Og ég er algerlega á því að það hafi hver og einn rétt til að skilgreina sig og sína kynhneigð að eigin vild. En það breytir því ekki að í grunninn eru þarfir og langanir þessara hópa mjög ólíkar. Á þeim er líffræðilegur munur. Eins og er erum við að steypa alla í sama mót, í sama skólakerfið og gera sömu kröfur á alla. Það veldur því að öllum líður illa og taka það að einhverju leyti út hvert á öðru.

Ég vil vitna í Hermund Sigmundsson prófessor og hans rannsóknir. Strákum líður flestum mun verr en stúlkum í skóla. Strákar eru að meðaltali með 10 sinnum meira testósterón í blóðinu en stúlkur, fyrir kynþroska. Það þýðir einfaldlega að þeir þurfa mun meiri hreyfingu, meiri líkamlega útrás, hafa minna þol til að gera hluti sem þeim þykja leiðinlegir en geta náð ofureinbeitingu við það sem þeim finnst skemmtilegt. Þessir strákar eru settir í stól við borð í skólastofum með stúlkum á sama aldri og einum kennara. Þeir eru óþolinmóðir og eiga erfitt með einbeitingu, taka fókusinn frá stúlkunum og trufla jafnvel kennslu. Stelpurnar verða fúlar út í þá fyrir að vera erfiðir. Þeir verða fúlir út í þær á móti og kennarinn pirraður. Strákunum líður illa af því að það er alltaf verið að skamma þá og fara í uppreisn til að verja sjálfsmynd sína. Stúlkur hafa, alla jafna, samkvæmt rannsóknum, meira þol til að gera hluti sem þeim þykja leiðinlegir, eins og lærdóm, en það þýðir ekki að þeim líði vel. Þetta er vonlaust kerfi sem hefur aldrei virkað verr en núna þegar flóttaleið beggja kynja er að fara beint í símann sinn. Það er vonlaust að skikka stelpur og stráka til að láta sér sömu hlutina lynda. Ég myndi telja mun vænlegra að kenna þeim að bera virðingu fyrir þeim mun sem er á kynjunum. Í gegnum það geta þau farið að bera meiri virðingu fyrir sér sjálfum.

Að hver og einn er sérstakur. Að temja sér að vera með opinn huga, sýna umburðarlyndi og kærleika, bera almenna virðingu fyrir öðru fólki og koma fram við aðra eins og þau vilja að aðrir komi fram við þau. Læra að hlusta.

Þessi útlitsdýrkun, dýrkun á völdum, peningum, frama og þeir kynferðislegu tilburðir sem þeim eru kenndir á netinu, bíómyndum og sjónvarpi munu ekki skila þeim hamingju. Þar verðum við að stíga inn í og rétta þau af.“

Við skuldum þeim að taka aðeins til í sálarranninum okkar

Guðmundur reynir að kenna eigin börnum að vera ekki með fordóma.

„Að kynnast fólki og treysta eigin innsæi, frekar en að treysta á sleggjudóma annarra. Allir eiga skilið annað tækifæri.

Ég reyni að kenna syni mínum dugnað og þrautseigju. Það lærði maður í sveitinni. Það finnst mér vera eitt stærsta viðfangsefnið í dag. Í þessu umhverfi sem börn alast upp í dag, í þessum tölvuleikjum sem dæmi, þá fá þau oft verðlaunin svo fljótt (e. instant gratification).

Því getur verið erfitt að fá þau til að nenna að leggja eitthvað á sig til að ná árangri. Að æfa sig á gítar á hverjum degi til að ná að spila eitthvert lag vel eftir marga mánuði. Til að æfa sig aukalega í hálftíma á dag í fótbolta til að komast úr c-liðinu upp í b-liðið. Þetta er svo erfitt miðað við það umhverfi sem er boðið upp á í mörgum af þessum tölvuleikjum.

Haraldur Erlendsson geðlæknir sagði mér að þrautseigjuþróf segðu miklu meira til um það hversu vel börnum vegnaði í lífinu en gáfnapróf. Það þarf þrautseigju til að takast á við lífið. Ég vil kenna mínum hana.“

Hvað reynir þú að stoppa heima hjá þér?

„Ég reyni að vinna gegn því neikvæða sem tíðkaðist í því umhverfi sem ég og mín kynslóð ólst upp við. Ég held að allar kynslóðir reyni það. Ég berst gegn því að á mínu heimili sé fíknihegðun. Ég berst gegn meðvirkni og þöggun. Ég reyni að tala af dýpt um tilfinningar, viðurkenna mistök og passa upp á að allar reglur á heimilinu séu gegnsæjar, auðskildar fyrir son minn og að eitt gangi yfir alla.

Ég stunda sjálfsvinnu til að reyna að smita ekki næstu kynslóð af mínum eigin krankleikum.“

Hvað getur þú sagt mér um Heiði Aðalsteinsdóttur konuna þína og samstarf ykkar við uppeldi barnanna?

„Ég held að hún hefði skilað af sér svipuðum svörum. Konan mín er frábær. Alger snillingur. Mjög gefandi og ástrík móðir og skemmtilegasta kona sem ég þekki. Hún er landslagsarkitekt og vinnur hjá Orkuveitu Reykjavíkur í afar spennandi verkefnum. Við erum mjög samstiga. Við erum bæði fædd og uppalin í sveit og erum saman á þessari vegferð. Við höfum tamið okkur hreinskilni í okkar samkiptum og erum mjög náin. Forfeður okkar gengu í gegnum ómæld áföll, sorgir og erfiðleika til að koma okkur sem þjóð á þann stað þar sem við erum í dag. Úr örbirgð í allsnægtir. Við skuldum þeim það að taka aðeins til í sálarranninum og reyna að skila af okkur kynslóð sem er fær um að taka þetta þjóðfélag upp á næsta stig. Þar sem valdhroki, ótti við höfnun og misskipting heyra sögunni til.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert