Fann ástina á Sóltúni og nú eru þau þrjú

Sara Messíana ásamt Andreu dóttur sinni.
Sara Messíana ásamt Andreu dóttur sinni.

Sara Messíana M. Sveinsdóttir er 25 ára meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún er uppalin og búsett í Vesturbænum ásamt unnusta sínum Bjarna Geir Gunnarssyni. Þau eru foreldrar Andreu Kristínar sem er 14 mánaða. 

Hvernig er að vera mamma í meistaranámi í lögfræði?

„Álagið er vissulega mikið en með virkilega góðu skipulagi þá er þetta klárlega gerlegt. Ef ég á að vera hreinskilin þá hefur mér sjaldan gengið jafn vel. Við Bjarni unnusti minn erum að auki heppin með mömmur sem tóku Andreu í pössun þegar prófatíð skall á. Það gerði gæfumuninn.“

Hvernig kynntust þið foreldrarnir?

„Við Bjarni Geir höfum verið saman í rúm fjögur ár en kynntumst árið 2017 á Sóltúni hjúkrunarheimili. Við vorum bæði að vinna þar við aðhlynningu, ég á 1. hæð og hann á 3. hæð. Við vorum bæði stödd á heilsueflingarfundi, sem fór fram í matsalnum. Þrátt fyrir að hafa ekki setið á sama borði man hvorugt okkar hvað fór fram á fundinum sjálfum. Þarna var ég handviss um að þessi strákur myndi með einum eða öðrum hætti koma inn í líf mitt. Svo erum við hér í dag einu barni ríkari. Bjarni er sjálfur í meistaranámi í sjúkraþjálfun við læknadeild Háskóla Íslands.“

Hvernig gekk meðgangan?

„Eins og í sögu. Vegna veirunnar þurfti ég einnig að þreyta nokkur heimapróf sem tóku átta klukkustundir, en það fór eðlilega ekki vel í kasólétta konu. Þegar faraldurinn var lítill á landinu naut ég þess mikið að fara í hjólatíma eða undirbúa heimilið fyrir komu dótturinnar í heiminn.“

Hvernig var fæðingin?

„Fæðing barnsins var sléttri viku eftir útskrift. Hún tók sinn tíma. Vegna legvatnsleka þurfti ég að fara í gangsetningu og í framhaldinu óskaði ég eftir mænudeyfingu. Hún virkaði í skamma stund en fór síðan. Ég fékk aðra mænudeyfingu eða lagfæringu á hinni sem virkaði ekki heldur. Það var alveg ástæða fyrir því þar sem útvíkkunin var þá komin í 8-9. Eftir 40 mínútur var barnið svo komið í heiminn, ekki nema 11 merkur, 50 sentímetra og 2.860 grömm. Á þessari stundu breyttist lífið til hins betra og nýr kafli hófst hjá okkur.“

Ljósmynd tekin á fæðingardeildinni hinn 4. júlí í fyrra.
Ljósmynd tekin á fæðingardeildinni hinn 4. júlí í fyrra.

Hvernig er móðurhlutverkið?

„Að vera mamma er besta en á sama tíma erfiðasta hlutverk í heimi. Ég get allavega sagt að það hafi breytt mér. Að verða mamma er nokkuð sem mig hefur dreymt um frá því ég man eftir mér. Við það að eignast barn horfir maður öðruvísi á lífið sjálft, maður fer að upplifa hluti í gegnum barnið sitt, sem er svo skemmtilegt. Allt við þetta ferli er svo magnað og gjöfult en á sama tíma geta næturnar auðvitað verið langar og erfiðar.“

Hvernig pabbi er maðurinn þinn?

„Hann er ótrúlega góður pabbi. Hann tæklar þetta hlutverk nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér. Bjarni sér ekki sólina fyrir Andreu og eiga þau alveg einstakt samband. Hann vaknar aðra hverja nótt til þess að sinna hennar þörfum og vaknar stundum með henni og leyfir mér að sofa. Hann byrjaði í raun að vera pabbi um leið og óléttan kom í ljós. Hann fór nánast alltaf með mér að græja barnadót og tók meiri þátt í hreiðurgerðinni en ég gerði.“

Bjarni Geir Gunnarsson og Sara Messíana M. Sveinsdóttir daginn sem …
Bjarni Geir Gunnarsson og Sara Messíana M. Sveinsdóttir daginn sem Andrea Kristín fékk nafnið sitt.

Hvað er það skemmtilegasta við að vera mamma?

„Langskemmtilegast er að fylgjast með barninu sínu mótast í ákveðinn karakter.“

Hvað er það erfiðasta?

„Erfiðast finnst mér þegar barninu mínu líður illa, til dæmis í veikindum og það er ekkert sem hægt er að gera annað en að vera til staðar og knúsa. Sár grátur stingur beint í hjartað.“

Eruð þið ungu mæðurnar í landinu að gera hlutina öðruvísi en mömmur ykkar?

„Mér dettur í hug „baby-led weaning“, minni feimni að gefa brjóst á almannafæri og í kringum fólk og aukin umræða um brjósta- og pelagjöf.

„Baby-led weaning“ er ákveðin þjálfun fyrir barnið frá sirka sex mánaða aldri að læra að borða sjálfstætt og þá með fingrum í stað þess að vera matað með skeið. Ég hef ekki fylgt þessu 100% en hef svona haft þetta til hliðsjónar.

Svo varðandi brjóstagjöfina þá finnst mér með aukinni umræðu ekki vera eins mikil skömm hjá mömmum sem af einhverjum ástæðum geta ekki gefið brjóst eða kjósa að gera það ekki. Sjálf gaf ég dóttur minni pela án þess að fá því ráðið sjálf, en ég hefði ekki viljað hafa það á neinn annan hátt. Við tengdumst álíka mikið og á þeim stundum sem ég gaf henni brjóst þessi fáu skipti í byrjun. Það er ekkert síðra að gefa barninu sínu formúlu í pela. Það fylgja þessu margir kostir líka en þetta er kjörið tækifæri fyrir hitt foreldrið að stíga inn í og vera með.“

Sængurfatnaður frá Kongens Sløjd heillar Söru Messíönu mikið.
Sængurfatnaður frá Kongens Sløjd heillar Söru Messíönu mikið.

Áttu góð ráð fyrir aðrar ungar stúlkur sem huga að barneignum?

„Já. Þrátt fyrir ungan aldur veit mamma alltaf hvað er barni fyrir bestu. Fylgið hjartanu og ekki láta skoðanir utanaðkomandi hafa of mikil áhrif. Þið þurfið heldur ekki allt nýtt og það besta fyrir barnið, það er alveg jafn gott að fá lánað og kaupa notað.“

Hvaða barnafatnaði heillast þú mest af?

„Ég kaupi mikið fatnað í Barnaloppunni og mæli hiklaust með því. Annars fer það eftir flíkinni og notagildinu. Útifötin finnst mér best frá WHEAT, ullarfötin frá Joha eru í miklu uppáhaldi og hversdagsfatnaður ýmist frá Zöru, Jamie Kay eða WHEAT. Newbie finnst mér líka agalega sæt.“

Andrea Kristín er fjórtán mánaða um þessar mundir.
Andrea Kristín er fjórtán mánaða um þessar mundir.

Hvað með kerrur og dót?

„Ég ákvað þegar ég var fimm ára að eiga Silver Cross, alveg eins og mamma. Ég heillaðist mikið af Silver Cross Wave-vagninum sem varð síðan fyrir valinu. Sængurfatnaður frá Kongens Sløjd heillar mikið og svo er ég einstaklega hrifin af leikföngum frá Little Dutch. Andrea leikur sér svo sem með allt og þá helst eru tuskudýr í uppáhaldi.“

Andrea litla er hrifin af leikföngum frá Little Dutch.
Andrea litla er hrifin af leikföngum frá Little Dutch.
Silver Cross Wave barnabagninn er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni.
Silver Cross Wave barnabagninn er í uppáhaldi hjá fjölskyldunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »