Óttaðist að eiga ekki afturkvæmt í íþróttina eftir barnsburð

Júlían J. K. Jóhannsson og Ellen Ýr Jónsdóttir eiga von …
Júlían J. K. Jóhannsson og Ellen Ýr Jónsdóttir eiga von á sínu öðru barni. Þarna eru þau með son sinn Berg J. K. Júlíansson sem er í dag 18 mánaða.

Kraftlyftingakonan Ellen Ýr Jónsdóttir segir að til að byrja með hafi það verið ótrúlega erfið tilhugsun að ákveða að eignast barn og þurfa að stíga til hliðar tímabundið í lyftingunum. Þá hræddist hún líka að eiga ekki afturkvæmt í íþróttina eftir barnsburð en með réttu hugarfari og æfingum hefur hún svo sannarlega sýnt að konur geta komið aftur til baka í sína íþrótt eftir meðgöngu og fæðingu. 

Ellen og eiginmaður hennar, kraftlyftingamaðurinn Júlían J.K. Jóhannson, eiga nú von á sínu öðru barni, lítilli stúlku sem fæðast á í byrjun næsta árs. Fyrir eiga þau soninn Berg J.K. Júlíansson sem er 18 mánaða. 

„Það var mjög óvænt en ánægjulegt að komast að því að annað barn væri á leiðinni, þar sem ég byrjaði í nýrri vinnu eftir að ég lauk fæðingarorlofi í desember 2020 og ætlaði að keppa töluvert á þessu ári og í byrjun næsta árs,“ segir Ellen í vitðali við mbl.is.

Ellen hefur keppt á Íslandsmeistaramótum gengin nokkrar vikur á leið …
Ellen hefur keppt á Íslandsmeistaramótum gengin nokkrar vikur á leið í tvígang.

„Ég komst að því að ég væri ófrísk að Bergi vikuna fyrir Íslandsmeistaramótið í réttstöðulyftu 2019, þar sem ég keppti og hreppti 2. sætið í mínum þyngdarflokki þrátt fyrir gífurlega morgunógleði. Sagan endurtók sig svo nánast alveg nákvæmlega eins í þetta skiptið. Ég tók óléttupróf nokkrum dögum fyrir Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum nú í byrjun júní, keppti og stóð mig frábærlega, sérstaklega í ljósi þess að ég þurfti að hlaupa inn á klósett og kasta upp á milli tilrauna á mótinu. Hafnaði í 2. sæti í mínum þyngdarflokki, bætti mig í bekkpressu og lyfti þar loksins 100 kg á keppnispalli og er mjög ánægð með það, sérstaklega í ljósi aðstæðna,“ segir Ellen. 

Ellen segist finna mun á því að ganga með annað barn en fyrsta. Henni finnst tíminn líða miklu hraðar og eins finnst henni hún vita betur hvað hún sé að fara út í, hvað sé eðlilegt á meðgöngu og hvað ekki. „Það er skemmtilegur plús að ég á frekar margar vinkonur sem eru settar á svipuðum tíma og ég, það er ótrúlega dýrmætt að verða samferða í þessu,“ segir Ellen. 

Ellen á marga titla að baki í kraflyftingum og hefur …
Ellen á marga titla að baki í kraflyftingum og hefur verið fremst íslenskra kvenna á fjölda móta í gegnum árin. Það var henni því erfitt að taka ákvörðun um að setja lyftingarnar í forgangsröðunina til þess að eignast barn.

Hágrét með Annie Mist

Ellen á marga titla að baki í kraflyftingum og hefur verið fremst íslenskra kvenna á fjölda móta í gegnum árin. Það var henni því erfitt að taka ákvörðun um að setja lyftingarnar í forgangsröðunina til þess að eignast barn. 

„Mér fannst það ótrúlega erfið tilhugsun í fyrstu. Mér fannst níu mánuðir langur tími og var mjög hrædd um að eiga ekki afturkvæmt í íþróttina af einhverju viti eftir að ég væri búin að eiga. Það er svo sannarlega ekki tilfellið. Svo eru ótrúlega margar nautsterkar konur í íþróttum sem hafa jafnvel komið sterkari inn í sitt sport aftur eftir meðgöngu, ég viðurkenni að ég fór að hágráta með Annie Mist þegar hún kláraði heimsleikana nú í sumar,“ segir Ellen. 

Annie Mist Þórisdóttir, afrekskona í crossfit, keppti á Heimsleikunum í crossfit í lok júlí síðastliðins og fór heim með bronsverðlaun. Þá voru aðeins 11 mánuðir síðan Annie fæddi sitt fyrsta barn. 

„Það er svo sannarlega hægt að halda áfram að vera sterk og ótrúlega mögnuð og jákvæð fyrirmynd þrátt fyrir að þurfa að taka smá pásu frá æfingum og keppni til þess að koma barni í heiminn og jafna sig eftir það,“ segir Ellen.

Litla stúlkan er væntanleg í byrjun næsta árs.
Litla stúlkan er væntanleg í byrjun næsta árs.

Skemmtilegra að æfa en áður

Á báðum meðgöngum hefur Ellen þurft að aðlaga æfingar sínar líkamanum og gera útgáfur af stóru lyftunum, réttstöðulyftu, bekkpressu og hnébeygju sem henta betur á meðgöngu. „Ég fékk mjög slæma grindargliðnun á síðustu meðgöngu og gafst eiginlega upp á sjöunda mánuði við að reyna að æfa vegna verkja. Ég er byrjuð að finna vel fyrir grindinni á þessari meðgöngu þrátt fyrir að vera aðeins hálfnuð, en sjúkraþjálfun í bland við æfingar gerir kraftaverk. Mesta breytingin í æfingum hjá mér felst í því að breyta því hvernig ég anda á meðan ég lyfti, eins skringilega og það hljómar! Ég passa extra vel að hlusta á líkamann og fer eftir prógrammi sem er sérsniðið fyrir óléttar konur sem eru vanar því að lyfta og keppa í lyftingum,“ segir Ellen. 

Bergur kemur stundum með foreldrunum í lyftingasalinn.
Bergur kemur stundum með foreldrunum í lyftingasalinn.

Æfingarnar hafa gengið vel á meðgöngunni og því sló hún til og keppti á Íslandsmeistaramótinu í klassískri bekkpressu fyrir nokkrum vikum, þá gengin 18 vikur, og hreppti silfrið í sínum flokki. „Það var mjög skemmtilegt, en ég fann alveg að þetta varð að vera síðasta mótið mitt áður er barnið fæðist.“

Eftir fæðingu og lokun líkamsræktarstöðva í heimsfaraldrinum var Ellen mjög spennt að komast aftur í lyftingasalinn. Stöðin hennar var opnuð 12 vikum eftir að Bergur litli kom í heiminn og taldi hún sig tilbúna að lyfta aftur eftir nokkrar vikur af göngutúrum og heimaæfingum. 

„Ég er svo ýkt týpa að ég mætti á fyrstu æfingu eftir barnsburð og tók 110 kíló í hnébeygju, 60 kíló í bekkpressu og 110 kíló í réttstöðulyftu. Ég gerði mér þá grein fyrir því að ég er engan veginn hæf til þess að þjálfa mig sjálf á skynsamlegan hátt. Ég hafði samband við þjálfarann minn og við byrjuðum bara algjörlega frá grunni. Ég var að vinna með léttari vigtir en ég hafði nokkurn tíma gert og var satt að segja alveg að missa vitið úr leiðindum. En þetta skilaði sér svo sannarlega í árangri, heilbrigðara hugarfari og ég kann betur að meta það sem líkami minn getur gert. Það var mikill lærdómur fyrir mig í því að skilja egóið og hugsanir um gömul persónuleg met eftir fyrir utan lyftingasalinn. Fyrir vikið þykir mér enn skemmtilegra að æfa núna og hugarfarið er miklu heilbrigðara en það var áður,“ segir Ellen. 

Ellen og Júlían kynntust í lyftingasalnum og eyða miklum tíma þar saman. Því voru það viðbrigði fyrir þau að hafa ekki allan heimsins tíma til að æfa saman eftir að drengurinn þeirra kom í heiminn. Með góðu skipulagi hefur þeim þó tekist að halda góðri æfingarútínu og í dag er það lúxus fyrir þau að komast saman á æfingu.

Ellen og Júlían ásamt syni sínum.
Ellen og Júlían ásamt syni sínum.

Helmassaðir grindarbotnsvöðvar til vandræða í fæðingu

Ellen segir að fæðing Bergs hafi gengið mjög vel framan af en svo hafi þurft sogklukku til að hjálpa honum með síðustu millimetrana í heiminn. „Það er pínulítið neikvæður fylgifiskur þess að vera sterk og lyfta svona þungt, að grindarbotnsvöðvarnir eru líka helmassaðir,“ segir Ellen. 

Ellen elskar að vera mamma og segir að það hafi komið henni á óvart hversu tilbúin hún var til þess að aðlaga allt líf sitt þörfum litlu manneskjunnar. 

„Það kom mér líka á óvart hvað það er hægt að elska einhvern ótrúlega mikið og skilyrðislaust. Ég er líka stundum alveg gapandi hissa á því hvað mér finnst gaman að vera mamma. Eins dáist ég að Júlían á hverjum degi og hvernig hann sinnir foreldrahlutverkinu er nokkuð sem ég vil taka mér til fyrirmyndar. Ég valdi mér góðan mann til þess að stofna fjölskyldu með,“ segir Ellen. 

Ellen valdi sér góðan mann til að stofna fjölskyldu með.
Ellen valdi sér góðan mann til að stofna fjölskyldu með.

Þegar hún gekk með sitt fyrsta barn fann Ellen fyrir mikilli pressu frá samfélagsmiðlum um að gera hlutina á ákveðinn hátt. Þá ollu samfélagsmiðlar og bumbuhópar henni kvíða um tíma. „Mér fannst allt þurfa að vera tilbúið fyrir komu barnsins, búið að prjóna og pakka í spítalatösku eftir löngum lista frá áhrifavaldi, sem var líka að gera þetta í fyrsta sinn og vissi jafn lítið og ég sjálf. Ég finn aðeins minna fyrir þessu á þessari meðgöngu, enda veit ég meira hvað ég er að fara út í og erfiðara að selja manni hvað sem er,“ segir Ellen. 

Hún gefur nýbökuðum mæðrum og verðandi mæðrum það ráð að hlusta á sjálfar sig og að horfa með gagnrýnum augum á samfélagsmiðlamömmu- og bumbuhópa. „Það veit enginn hvað er best fyrir þig og þína fjölskyldu betur en þú sjálf og maki,“ segir Ellen.

mbl.is