Sonurinn erfir ekki auðæfin

Sonur Anderson Coopers mun ekki erfa háar fjárhæðir.
Sonur Anderson Coopers mun ekki erfa háar fjárhæðir. Ljósmynd/Instagram Anderson Cooper

Sjónvarpsmaðurinn Anderson Cooper ætlar ekki að arfleiða son sinn Wyatt að auðæfum sínum. Cooper erfði 1,5 milljónir bandaríkjadala eftir móður sína Gloriu Vanderbilt þegar hún lést árið 2019. 

„Ég trúi ekki á það að arfleiða háar upphæðir,“ sagði sjónvarpsmaðurinn í hlaðvarpinu Morning Meeting sem Ashley Baker og Michael Hainey stýra. 

„Ég veit ekki hvað ég mun eiga. Ég hef ekki það mikinn áhuga á peningum, en ég stefni ekki á að skilja eftir einhvern fjársjóð handa syni mínum. Ég held mig við það sem foreldrar mínir sögðu: „Ég greiði fyrir háskóla, og síðan þarftu að spjara þig,““ sagði Cooper en auðæfi hans eru nú metin á um 200 milljónir bandaríkjadala. 

Cooper eignaðist soninn Wyatt í apríl á síðasta ári með staðgöngumóður. 

Cooper taldi að hann myndi ekki erfa háar fjárhæðir eftir móður sína og sagði í viðtali árið 2014 að móðir hans hefði gert honum grein fyrir því að hann ætti ekki neinn sjóð í hennar bókum. Fimm árum seinna endaði hann á að erfa háar fjárhæðir en bróðir hans, Leopold Stokowski, erfði íbúð móður þeirra.

mbl.is