„Ég eignaðist börnin mín og ég breyttist“

Leikkonan Drew Barrymore er tveggja barna móðir.
Leikkonan Drew Barrymore er tveggja barna móðir. AFP

Leikkonan Drew Barrymore var barnastjarna og fór ung í neyslu. Hún segir í hlaðvarpsþættinum Armchair Expert, að því er fram kemur á vef Yahoo, að barneignir hafi breytt öllu. Eftir að hún varð mamma breyttist hugarfar hennar og hún átti auðveldara með að fyrirgefa. 

Barrymore á tvær dætur með fyrrverandi eiginmanni sínum, Will Kopelman, sem eru fæddar 2012 og 2014. Hún lýsir því að hún hafi verið algjörlega stjórnlaus þegar hún var yngri. Allt snerist um hana en margt breyttist þegar hún hitti börnin sín. Hún lýsir lífi sínu áður fyrr sem tilraun á því hversu langt hún kæmist. „Ég myndi ekki breyta neinu. En það var bara; ég eignaðist börnin mín og ég breyttist.“

Hún missti líka áhuga á því að sinna leikkonustarfinu þegar hún varð móðir og fann til meiri ábyrgðar. Leikkonan segir leikara vakna áður en börnin vakna og koma heim eftir að þau sofna. Langir tökudagar eru ófjölskylduvænir og komu í veg fyrir að hún gæti varið tíma með fjölskyldunni. „Ég vildi ekki vera einhver annar. Ég vildi ekki þykjast vera einhver annar. Ég vildi ekki skoða líf annarra og verða það fólk,“ sagði Barrymore sem áttaði sig síðan á að hún vildi bara vera mamma. 

Eftir að Barrymore varð móðir batnaði samband hennar við foreldra hennar, sérstaklega móður hennar. „Ég fyrirgaf hvorki mér né mömmu mjög lengi, aðallega sjálfri mér,“ sagði Barrymore. Hún segir það versta við það þegar foreldrar standa sig ekki að þá hati þau ekki foreldra sína heldur sig sjálf, það sé verst.

Drew Barrymore.
Drew Barrymore. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert