Elskar að vera móðurbróðir

Jake Gyllenhaal elskar systurdætur sínar.
Jake Gyllenhaal elskar systurdætur sínar. AFP

Leikarinn Jake Gyllenhaal segir að dætur systur hans, Maggie Gyllenhaal, séu tvær mögnuðustu manneskjur í heimi. Hann elskar að vera móðurbróðir þeirra og hefur fengið að eyða meiri tíma með þeim síðustu ár. 

„Þær koma af löngum kvenlegg með mögnuðum konum, og þær eru jafnvel enn magnaðri en konurnar sem komu á undan þeim,“ sagði Gyllenhaal um frænkur sínar í viðtali við The Sunday Times og vísar þar til systur sinnar, leikkonunnar, og móður þeirra Naomi Foner sem er höfundur og leikstjóri. 

Dætur systur hans eru Ramona, 14 ára, og Gloria Ray sem er níu ára. 

Gyllenhaal náði ekki að eyða miklum tíma með systurdætrum sínum þegar þær voru litlar og hitti þær bara í matarboðum. Nú þegar þær eru orðnar aðeins stálpaðri og minna að gera hjá leikaranum hefur hann eytt miklum tíma með þeim. 

„Þær eru farnar að koma til mín þegar systir mín og mágur þurfa pásu, og það er svo frábært að hafa tíma til að segja „hey, eyðum fimm dögum saman“,“ sagði Gyllenhaal. 

Hann segir yndislegt að fá að fylgjast með þeim þroskast og dafna. „Því þær eru svo langt frá því að vera svakalegur pakki. Og þær hanga ekki bara í símanum. Pabbi þeirra er búinn að kenna þeim mikið um náttúruna og landið, það er honum mikilvægt. Þannig að þeim finnst tré áhugaverðari en símar, sem er sjaldgæft,“ sagði Gyllenhaal. 

Faðir stúlknanna er eiginmaður Maggie Gyllenhaal, Peter Sarsgaard, en þau gengu í hjónaband árið 2009 eftir sjö ára samband.

mbl.is