„Tvíburar eru tveggja manna verk“

Harpa Káradóttir Ljósmynd/Aðsend móðurhlutverkið tvíburar
Harpa Káradóttir Ljósmynd/Aðsend móðurhlutverkið tvíburar

Harpa Káradóttir, förðunarfræðingur og eigandi Make-Up Studio Hörpu Kára, eignaðist tvíbura í fyrra með kærasta sínum Guðmundi Böðvari Guðjónssyni. Áður en tvíburadrengirnir Kári og Kristján komu í heiminn átti Harpa dótturina Kötlu. Tvíburarnir komu á óvart og var meðgangan og fyrsta árið krefjandi en Harpa segir ómissandi að eiga góðan maka. 

Hvernig var þér við þegar þú áttaðir þig á því að þú ættir von á tvíburum?

„Veröldin fraus í nokkrar mínútur, ég mætti í snemmsónar gjörsamlega buguð af ógleði og þreytu, segi við lækninn er ég ekki pottþétt ennþá ólétt og fæ svarið jú heldur betur, til hamingju þú gengur með eineggja tvíbura. Þarna ligg ég á bekknum í algjöru áfalli og hugsa með mér Harpa Káradóttir hvernig ferðu að því að koma þér út í endalaust af erfiðum verkefnum. Þarna vorum við Gummi nýflutt inn í húsið okkar eftir sex mánaða langar og krefjandi framkvæmdir. Við getum ekki annað en hlegið þegar að við horfum til baka því þetta kom svo flatt upp á okkur, að búa til barn var ekki á plani, hvað þá tvö börn,“ segir Harpa. 

Harpa Káradóttir Ljósmynd/Aðsend móðurhlutverkið tvíburar
Harpa Káradóttir Ljósmynd/Aðsend móðurhlutverkið tvíburar

Þú átt eitt barn fyrir. Hvernig var þessi meðganga öðruvísi en sú fyrsta?

„Þetta var líklega um það bil fjórfalt erfiðari meðganga en fyrri meðganga. Ég var með mikla ógleði og endalaust þreytt fyrstu 16 vikurnar, svo fékk ég nokkrar sæmilegar vikur en á um 25. viku var ég eiginlega orðin kasólétt og virkilega þreytt. Ég keypti mér lazyboy-stól sem ég notaði mjög mikið og svaf einnig í honum því ég gat ekki sofið á bakinu. Ég fann snemma fyrir því hvað skrokkurinn á mér var ekkert sérstaklega gerður fyrir tvíburameðgöngu. Ég er lágvaxin (160 sentímetrar) og fékk mjög stóra kúlu.

Það allra erfiðasta við tvíburameðgönguna miðað við fyrri meðgöngu var þó þessi ótrúlega óvissa og ótti við hvort það væri lagi með börnin. Ég gekk með eineggja tvíbura, með þunn belgjaskil og þeir deildu fylgju. Tvíburi b var með naflastrenginn á óheppilegri stað en tvíburi a svo hann var vaxtarskertur alla meðgönguna. Þetta sást strax í snemmsónar. Ég var í miklu eftirliti upp á spítala og ég upplifði hálfpartinn þessa meðgöngu eins og ég værri í fullri vinnu við að ganga með þessi börn.“

Tvíburarnir með pabba sínum.
Tvíburarnir með pabba sínum.

Hvernig er að vera með tvö lítil ungbörn?

„Að vera með tvö lítil ungabörn er mjög krefjandi og mikil vinna allan sólarhringinn. Fyrsta árið komst í rauninni ekkert annað að heldur en að sinna tvíburunum. Þeir voru báðir magaveikir og sváfu lítið. Það að vera með tvö börn á brjósti er líka svakaleg vinna, ég náði aldrei að komast upp á lagið að gefa báðum í einu. Þeir fæddust á 36. viku og voru léttburar sem þýddi að á þriggja tíma fresti þurftum við að gefa þeim að drekka hvort sem það var dagur eða nótt. Fyrstu mánuðina þurftum við að vigta þá fyrir hverja gjöf, gefa þeim brjóst, vigta þá svo aftur og gefa þeim ábót á pela. Síðan átti ég að pumpa mig í korter eftir hverja gjöf til þess að reyna að auka mjólkina hjá mér. Þetta gerði það að verkum að maður var heppinn ef maður náði að sofa í einn og hálfan tíma í einu þangað til það var komið að næstu gjöf, vinnan við brjóstagjöfina kom mér líklega mest á óvart.“

Hvernig gekk fæðingin?

„Eftir 36 vikna meðgöngu voru tvíburarnir teknir með keisara, ég var búin að reyna að væla út keisara megnið af meðgöngunni og fékk loksins jákvætt svar tveimur dögum áður þar sem tvíburi b var í þverlegu ofarlega og tvíburi a sitjandi. Aðgerðin gekk eins og í sögu, allir sem komu að keisaranum voru yndislegir og ég fann fyrir miklu öryggi og leið ótrúlega vel allan tímann. Gummi sat við hliðina á mér alla aðgerðina og talaði mig í gegnum þessar mínútur sem ég lá á skurðstofunni. Það var að sjálfsögðu mikill léttir að heyra barnalækninn segja að það væri í góðu lagi með báða drengina. Að fá tvö börn í fangið er ótrúleg tilfinning, næstum yfirnáttúruleg.“

Kári og Kristján með mömmu í vinnunni.
Kári og Kristján með mömmu í vinnunni.

Finnst þér þú fá einhverjar spurningar oftar núna en þegar þú eignaðist eitt barn?

„Ég upplifði aðeins meiri áhuga og spurningar hjá fólki varðandi tvíburana, fólk var líka kannski bara forvitið og það heyrðist ekki mikið frá mér fyrstu mánuðina þannig að ég held að almennt hafi fólk viljað vita af hverjum við svöruðum svona lítið í síma og annað slíkt. Ég er enn að vinna upp samband við margar vinkonur því það var lítið um frítíma á mínum bæ.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þið urðuð fimm?

„Lífið breyttist mjög mikið, ég var fyrst með endalausan móral út af dóttur minni sem var fimm og hálfs þegar að tvíburarnir fæddust því auðvitað er gríðarlega mikil breyting sem á sér stað í lífi barns sem fer úr því að vera einkabarn yfir í að eiga allt í einu tvö lítil systkini sem þarf að sinna allan sólarhringinn. Mamma mín kom þar sterk inn og hjálpaði mér mjög mikið hvað varðar Kötlu dóttur mína. Með stækkandi fjölskyldu höfum við líka haldið okkur mjög mikið heima því maður var alltaf að reyna að búa til rútínu varðandi börnin svo það er mikil breyting fyrir okkur.

Síðasta ár var eiginlega þannig að ef ég hitti annað fólk þá þurfti það að koma heim til mín því ég var ekki mikið að fara ein í heimsóknir til dæmis. En 14 mánuðum síðar erum við búin að finna ágætis takt heima fyrir og okkur Gumma hefur tekist að eiga okkar gæðastundir í eldhúskróknum heima þegar að börnin eru sofnuð og höfum verið mjög samstíga allan tímann, tvíburar eru tveggja manna verk og Gummi hefur verið 100% með mér í þessu frá fyrsta degi. Við erum enn að díla við mjög lítinn svefn en það er alveg magnað hvað maður kemst samt áfram á sáralitlum svefni.“

Tvíburarnir komu í keisaraskurði á 36. viku.
Tvíburarnir komu í keisaraskurði á 36. viku.

Ertu byrjuð að vinna? 

„Já ég er byrjuð að vinna. Það gerði heilmikið fyrir mig þegar að strákarnir komust til dagmömmu og ég gat byrjað að vinna aftur. Ég var farin að sakna vinnunnar töluvert en ég vissi að hún Natalie sem var skólastjóri í Make-Up Studio á meðan að ég var í burtu væri að hugsa vel um fyrirtækið á meðan. Ég hefði líklega ekki getað farið í fæðingarorlof án hennar. Eftir eitt ár í joggingallanum heima upplifði ég mig eins og ég væri að líkjast sjálfri mér aftur þegar að ég byrjaði að vinna. Ég er heppin, ég elska vinnuna mína og fæ mikið út úr henni svo ég kem yfirleitt hress og kát heim tilbúin að þau verk sem bíða mín heima. Ég kem til baka með hausinn fullan af hugmyndum og hlakka mikið til að bjóða fólki upp á þau förðunarnámskeið sem verða í boði í Make-Up Studio.“

Fyrsta árið hefur verið fjörugt á heimilinu í Fossvoginum.
Fyrsta árið hefur verið fjörugt á heimilinu í Fossvoginum.

Reyni þið á einhvern hátt að passa það að stóra systir og sambandið fái sína athygli? 

„Já við reynum að gera okkar besta, suma daga gengur það upp, aðra ekki. Við reynum að búa til gæðastundir með dóttur minni þegar að strákarnir sofna á kvöldin en annars höfum við reynt venja hana líka við það að njóta þess að vera öll saman sem fjölskylda. Hvað varðar okkur Gumma þá er ekki mikið um foreldrafrí eins og staðan er núna en við kunnum að gera gott úr litlu og reynum að eiga alltaf klukkutíma á kvöldin fyrir okkur. Þá hittumst við yfirleitt í eldhúskróknum, stundum með vínglas, stundum ekki, horfum á hvort annað eða sjónvarpið og spjöllum um lífið og tilveruna.“

Hvað er best við að vera mamma?

„Það er líklega fátt sem kennir manni meira um lífið og tilveruna heldur en að verða foreldri. Börnin manns gefa manni svo allt öðruvísi hamingju og maður verður svo þakklátur fyrir litlu hlutina í lífinu,“ segir Harpa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert