Hissa á ákvörðun dómara

Denise Richards furðar sig á þeirri ákvörðun dómara að Charlie …
Denise Richards furðar sig á þeirri ákvörðun dómara að Charlie Sheen þurfi ekki lengur að greiða henni meðlag.

Leikkonan Denise Richards er hissa á þeirri ákvörðun dómara að barnsfaðir hennar og fyrrverandi eiginmaður Charlie Sheen þurfi ekki að greiða henni meðlag. Dómari byggði ákvörðun sína á að Sami, eldri dóttir þeirra hjóna, byggi nú hjá Sheen og því þyrfti hann ekki að greiða Richards meðlag. 

Sheen lagði beiðnina fram við dómara en málið var tekið fyrir hjá dómara í síðustu viku. Sheen var viðstaddur en Richards gat ekki verið viðstödd vegna vinnu. 

Heimildamaður People segir að Sheen hafi farið á bak við Richards til að komast undan því að greiða henni meðlagsgreiðslur. Enn fremur sagði hann að Lola, yngri dóttir þeirra, byggi hjá báðum foreldrum og dveldi aðeins hjá föður sínum þegar móðir hennar væri ekki heima. 

„Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Denise, en hún er heldur ekki hissa. Charlie er að nota stelpurnar gegn móður þeirra, sem er skelfilegt,“ sagði heimildamaðurinn. 

mbl.is