Ekki sjálfsagt að hafa heilsu og ala upp litla gorma

Heiðar Kristinn Rúnarsson og Halldóra Arnardóttir eignuðust tvö börn með …
Heiðar Kristinn Rúnarsson og Halldóra Arnardóttir eignuðust tvö börn með stuttu millibili.

Það er mikið fjör á heimili nýbökuðu hjónanna Halldóru Arnardóttur og Heiðars Kristins Rúnarssonar en þau eignuðust tvö börn á 15 mánuðum. Eldra barnið er að verða þriggja ára og segir Halldóra dásamlegt að sjá systkinaástina blómstra en Halldóra lærði á seinni meðgöngunni að heilsan er ekki sjálfsögð. 

„Lífið gjörbreyttist þegar ég varð móðir. Ég fór að finna fyrir hræðslu um að eitthvað myndi gerast fyrir okkur foreldrana eða barnið. En síðan liðu vikurnar og þessi hræðsla minnkaði. Það var ótrúlega skrítin tilfinning sem fylgdi því fyrir mig að verða móðir því ég upplifði mikla ábyrgð að barninu liði vel og fór barnið í sæti númer eitt, tvö og þrjú. Tíminn flaug í burtu og hafði maður engan tíma fyrir sjálfan sig. Ótrúlega klisjulegt að segja það en hjartað stækkaði alveg helling,“ segir Halldóra um hvernig móðurhlutverkið breytti henni. 

Stúlkan var bara lítið barn

Halldóra var flugfreyja hjá WOW Air þegar hún gekk með dóttur sína auk þess sem hún kenndi hóptíma hjá World Class. Henni leið vel á meðgöngunni en var sett af stað fyrir tímann. 

„Í tólf vikna sónar kom í ljós að fylgjan var fyrirstæð og ég var bókuð aftur í sónar á viku 34 til þess að sjá hvort fylgjan myndi færa sig upp,“ segir Halldóra. Fylgjan var búin að færast aðeins sem kom í veg fyrir að hún þurfti að fara í keisaraskurð. Hún fór hins vegar í vaxtarsónar og þar kom í ljós að dóttir hennar væri mjög lítil. 

„Ég var sett af stað komin tæpar 38 vikur á leið og fæddist stúlka rúm 2000 grömm. Fylgjan var send í rannsókn til Svíþjóðar og niðurstaðan var sú að ekkert væri að fylgjunni, bara lítið barn. Mér leið vel allan tímann á þessari meðgöngu líkamlega og kenndi ég hóptíma þangað til á viku 35 en þegar ég fékk þær fréttir að hún væri svona lítil þá fann ég fyrir hræðslu og vanmætti.“

Seinni meðgangan var krefjandi

Halldóru leið ekki eins vel á seinni meðgöngunni og glímdi hún við töluverð veikindi. Þegar hún var gengin rúmar 17 vikur fékk hún háan hita og slæma sýkingu í annað brjóstið. Sagan endurtók sig nokkrum sinnum. 

„Ég var lögð inn á spítala og var ég í sex daga rannsókn. Niðurstaðan var sýking í brjósti en ekki vitað orsök. Fjórum vikum seinna gerðist það nákvæmlega sama, ég fékk hita og sýkingu í brjóstið og var lögð inn á spítala fyrir ítarlegri rannsóknir. Ég var send í ómun, röntgen, blóðrannsóknir, krabbameinsskoðun og margt fleira en ekkert fannst. Þarna var ég sett á sýklalyf sem ég fékk bráðaofnæmi fyrir en ég var ekki með ofnæmi fyrir meðgönguna. Þarna hélt ég áfram að kenna og hreyfa mig ásamt því að bæta við meðgöngujóga hjá henni Auði inn. Það hjálpaði mér að halda mér á hreyfingu og reyna vera eins mikið með eins árs gamalli dóttur okkar en tilhugsunin að vita ekki hvað væri að var erfið.

Aftur, fjórum vikum seinna blossaði upp sýking í brjósti. Sagan endurtók sig, endalausar rannsóknir og önnur sýklalyf prófuð sem ég fékk einnig bráðaofnæmi fyrir. Á þessum tíma var yndislegur fæðingalæknir á kvennadeildinni sem tók mig að sér og byrjaði ég að mæta í tíma hjá henni, þá kom í ljós að ég var með bælt ónæmiskerfi. Eitt kvöld þegar ég var gengin 35 vikur á leið var hringt í mig frá kvennadeild og mér sagt að koma strax til þeirra. Þá hafði greinst í sýni að ég væri með GAS-bera. (GAS er sjaldgæf tegund af streptókokkasýkingu.) Það voru ekki til sýklalyf sem mátti gefa mér þannig ég var lögð inn og höfð undir eftirliti. Enn og aftur þakkar maður fyrir hvað kvennadeildin hélt vel utan um mig. Þegar ég var komin 37 vikur á leið með drenginn minn þá fæ ég fyrstu mótgjöfina mína til að reyna byggja upp ónæmiskerfið og bókað var gangsetning á viku 38 þar sem hann var að falla úr vaxtarkúrfu. Ég átti erfitt með að tala um þessi veikindi á meðgöngunni og faldi þau fyrir flestum.“

Halldóra segir fæðingarnar hafa verið auðveldari en meðgöngurnar.
Halldóra segir fæðingarnar hafa verið auðveldari en meðgöngurnar.

Væri til í að fæða tíu börn 

„Mínar meðgöngur voru erfiðar en fæðingarnar dásamlegar og ég gæti hugsað mér að fæða tíu börn en ekki ganga með þau. Ég var sett af stað með bæði börnin og þar sem ég var í áhættumeðgöngu í bæði skiptin þá þurfti ég að vera á kvennadeild á meðan ég tók töflurnar.

Fyrsta gangsetning tók þrjá daga og þurfti að sprengja belginn þar sem töflurnar virkuðu ekki á mig. Ég fann fyrsta verk um 16:00 og stúlkan fæðist 19:24. Með drenginn þá var ég einnig sett af stað með töflum og tók þær í sólarhring þá var belgurinn sprengdur. Alveg eins og með stúlkuna þá var hann kominn þrem tímum eftir fyrsta verk hjá mér. Fæðingarnar voru svipaðar þar sem verkirnir stóðu ekki yfir í langan tíma og rembingur aðeins í hálftíma í bæði skiptin. Ég fann hvað ég náði að skemmta mér betur í seinni fæðingunni þar sem ég notaði mikið öndunina, jógaboltann, ilmolíur í spreybrúsa og gaddaboltann til þess að hjálpa mér.“

Stanslaust stuð á heimilinu

Hvernig er að eiga börn með svona stuttu millibili?

„Fjör. Það er stanslaust stuð á heimilinu og aldrei lognmolla. Það er rússíbani að eiga tvö ákveðin lítil börn, allt frá því að það eru grátur og öskur í það að vera hlátur og spjall. Það var mjög erfitt til að byrja með þegar hann var á brjósti, við vorum að mauka fyrir dóttur okkar og síðan þurftum við að borða þannig það var þriggja rétta í öll mál. Stúlkan fór ekki á leikskóla fyrr en drengurinn var fimm mánaða þannig það var mjög krefjandi tími en þá gátu allir fengið að kynnast vel. Það er erfitt að eiga börn með stuttu millibili, mikið rifist um athygli foreldra, lítið um svefn, margar bleyjur, tanntökur en á sama tíma þegar maður sér systkinaástina á milli þeirra þá bráðnar maður og gleymir öllu hinu.“

Varstu búin að búa þig undir að það væri erfitt að eiga börn með stuttu millibili? 

„Ég var ekki búin að undirbúa mig neitt þar sem seinni meðgangan snérist svo mikið um að finna út hvað væri að hrjá mig. Það sem mér fannst erfiðast til að byrja með var hvernig ég gæti sýnt eldra barninu athygli þegar yngra barnið var fast á brjóstinu. En ég gaf mér alltaf tíma til að eiga stundir ein með henni og síðan tíma þegar ég var ein með honum. Mér finnst það hafa hjálpað þeim að vera ekki endalaust að reyna berjast um athyglina. Ég hafði ekki hugmynd hvað þetta gæti tekið mikið á mann en síðan hafði ég ekki heldur hugmynd um hvað maður gæti elskað heitt og gleymt erfileikum fljótt.“

Það er mikil systkinaást á milli systkinina.
Það er mikil systkinaást á milli systkinina.

Svarar ekki eftir klukkan níu á kvöldin

Hvernig skipuleggur þú þig?

„Ég reyni eftir minni bestu getu að halda í það sem hentar heimilinu og mér líður vel með. Ég tek hreyfingu dagsins á morgnanna til þess að geta notið mín eftir vinnu með systkinunum. Sem dæmi erum við ekki mikið að flækja matseðla vikunnar og höldum við í það sem er fljótlegt, næringarríkt og þægilegt. Það er oft þar sem leikskólataskan er gerð fimm mínútum fyrir leikskóla á mánudögum en það virkar en ég má alveg bæta mig í því að vera skipulagðari.“

Finnur þú fyrir pressu frá samfélagsmiðlum í uppeldinu? 

„Nei ég hef ekki fundið fyrir því. En ég held einnig að ég gef mér ekki mikinn tíma í að skoða alla miðla þar sem ég tek alltaf svefninn fram yfir. Ég hef áttað mig á því að ég þarf minn svefn til þess að stunda mína líkamsrækt, vinna mína vinnu og sjá um þessi dásamlegu börn. En það er stundum sem ég sé skemmtilega fróðleiksmola um foreldrahlutverkið á samfélagsmiðlum sem mér finnst skemmtilegt að sjá. Ég þarf minn svefn og vita mínar vinkonur að ég svara ekki skilaboðum eftir klukkan 21:00 á kvöldin,“ segir Halldóra. 

„Ég hef engin ráð nema reyna njóta hvers dags því tíminn líður svo hratt. Á seinni meðgöngunni lærði ég að þakka fyrir hversdagsleikann því það er ekki sjálfsagt að hafa góða heilsu og að fá að ala upp þessa litlu gorma,“ segir Halldóra í lokin spurð út í ráð handa konum sem eru að stíga sín fyrstu skref í móðurhlutverkinu. 

mbl.is