Engin bumbusýning á brúðkaupsdaginn

Nýgift og hamingjusöm Christina Ricci og Mark Hampton.
Nýgift og hamingjusöm Christina Ricci og Mark Hampton. Skjáskot/Instagram

Bandaríska leikkonan Christina Ricci játaðist unnusta sínum, hárgreiðslumanninum Mark Hampton, um síðastliðna helgi. Giftingin er þó ekki eina hamingjuskýið sem turtildúfurnar svífa á því aðeins eru liðnir tveir mánuðir síðan þau opinberuðu að Ricci bæri barn þeirra undir belti. 

Parið tilkynnti brúðkaupið með því að deila myndum af sér á instagram þar sem rómantískt blómahaf var allt um kring. Einnig sást glitta í fallegan og einfaldan brúðarvöndinn á myndunum en hann prýddu meðal annars hvítar, bleikar og gular gerberur ásamt grænum greinum. „Herra og frú,“ ritaði Ricci við færsluna og uppskar fjöldann allan af hamingjuóskum í kjölfarið. 

Það kom þó verulega á óvart að engin bumbumynd skyldi birtast á sjálfan brúðkaupsdaginn en barnið í bumbunni kemur til með að skuldbinda þau ævilangt. 

Hér má sjá fyrstu bumbumyndina sem leikkonan birti af sér fyrir rúmum sex vikum.mbl.is