Dóttur Kardashian þykir ljótt heima hjá sér

Kim Kardashian West og dóttir hennar North.
Kim Kardashian West og dóttir hennar North. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Hin átta ára gamla North West, dóttir athafnakonunnar Kim Kardashian og tónlistarmannsins Kanyes Wests, er litríkur karakter. Í nýjasta mömmu-játninga-spjallinu (Mom Confessions) hjá Ellen DeGeneres sagði Kim Kardashian frá því hversu hvumsa North væri yfir naumhyggjulegum híbýlastíl móður sinnar.

„Hún segir við mig: Það er svo ljótt hérna inni. Húsið þitt er svo ljótt. Það er allt hvítt hérna og svo tómlegt. Ég meina, hver býr bara svona?“ uppljóstraði Kim Kardashian um sögð orð átta ára dóttur sinnar. Viðurkenndi Kardashian að dóttirin gæti stundum gengið fram af móður sinni. Page Six greindi frá.

Nær mömmu sinni stundum upp

„Þetta er svolítið ónærgætið því mér líkar húsið mitt svo vel eins og það er,“ sagði hún jafnframt. North hefur í ófá skipti sagt foreldrum sínum til syndanna og er bersýnilega staðföst í skoðunum. Hefur Kardashian talað um að það sé eitt þeirra persónueinkenna sem henni líkar hvað best hjá dóttur sinni. Hún sé ákveðin og viti hvað hún vilji. 

Samkvæmt nýjum dómsgögnum sem lögð voru fram á dögunum og kveða á um skilnaðarferli þeirra Kardashian og Wests mun Kardashian að öllum líkindum fá að halda húsinu. 

Þær fregnir munu líklega ekki koma brosi á andlit dóttur þeirra, sem þá þarf að búa í tómlegu og naumhyggjulegu húsinu enn um sinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert