Fékk yfir sig holskeflu óhroða

Tan France er nýbakaður faðir. Hann og eiginmaður hans eignuðust …
Tan France er nýbakaður faðir. Hann og eiginmaður hans eignuðust barn með aðstoð staðgöngumóður.

Tan France segist hafa fengið yfir sig holskeflu óhroða eftir að hann tók þátt í herferð um pelagjöf í samstarfi við þurrmjólkurfyrirtækið Bobbie. Þar lagði hann áherslu á að fólk þyrfti að styðja hvers konar fæðugjöf og ekki ætti að setja eina leið ofar annarri.

„Það á ekki að láta þeim líða annars flokks sem geta ekki gefið brjóst og þurfa að reiða sig á þurrmjólk,“ sagði France. „Engum ætti að líða illa yfir að gefa barni sínu þurrmjólk. Það sem skiptir máli er að barnið fái næringu.“

France segist hafa fengið hátt í 17 þúsund skilaboð og flest þeirra hafi verið hatursfull. Margir hafi misskilið skilaboð hans. „Allir voru gagnteknir af heift.“

„Staðgöngumóðirin okkar gat ekki gefið okkur brjóstamjólk og við vildum ekki fara þá leið að fá brjóstamjólk úr þar til gerðum banka. Við athuguðum vel kosti og galla þess og komumst að því að það var ekki fýsilegur kostur fyrir okkur,“ segir France, sem er nýbakaður faðir.

„Staða mín er sérstök að því leyti að margir hafa skoðun á því hvernig ég eignast barn og hvernig ég mun næra það. Ég vil þó taka skýrt fram að ég trúi því að brjóstamjólk sé besti kosturinn. Ef ég gæti gefið barninu mínu brjóstamjólk myndi ég gera það. En ég get það ekki og það er óþarfi að gera lítið úr mér fyrir þá staðreynd.

Ég held að þetta fólk hafi misskilið hvað ég var að segja með þátttöku minni í herferðinni. Ég var ekki að gera lítið úr brjóstagjöf heldur einungis að segja að ekki megi gera lítið úr þeim sem geta ekki gefið börnum sínum brjóstamjólk eða velja að gera það ekki.

Hatrið var mikið. Það angraði mig ekki því það voru margar konur sem komu fram þjakaðar af samviskubiti og leituðu stuðnings. Í raun spratt fram mikil ást og mikill stuðningur meðal margra kvenna í athugasemdakerfinu þar sem þær hvöttu hver aðra áfram. Heimurinn getur stundum verið fallegur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert