Mikil óvissa að eignast barn í faraldrinum

Mæðgurnar Rósa og Rakel Móey í sumar.
Mæðgurnar Rósa og Rakel Móey í sumar.

Rósa Ásgeirsdóttir, leikkona og tónskáld, hefur verið hluti af Leikhópnum Lottu síðan árið 2008. Hún eignaðist sitt fyrsta barn í ágúst í fyrra þegar dóttirin Rakel Móey kom í heiminn. Hún kom til hennar á fullkomnum tíma en um leið tók það á að vera ólétt og eignast barn í heimsfaraldri. 

„Lífið breytti heldur betur um stefnu og fór úr því að hugsa bara um sjálfa mig yfir í að hugsa um barn og reyna að muna eftir sjálfri mér, en lífið breyttist svo sannarlega til hins betra. Það opnaðist einhvernvegin önnur dyr inn í því ævintýri sem lífið er þar sem ég er að upplifa mikið meira en ég vissi að væri til. Stærri heimur, nýjar tilfinningar og ný sýn á svo margt. Þetta hlutverk er stöðugur lærdómur, breytti mér úr fiðrildi og kom mér aðeins niður á jörðina. Ég var algjör „skyndi“ manneskja, vön að geta gert hvað sem er hvenær sem er og ákvað sjaldan eða aldrei neitt með fyrirvara. Núna forgangsraða ég öðruvísi og skipulegg fram í tímann,“ segir Rósa um hvernig lífið breyttist eftir að hún varð móðir. 

Var það langþráður draum­ur að upp­lifa móður­hlut­verkið?

„Nei, en þegar ég var svona 16 ára þá ætlaði ég klárlega að verða móðir einhvern tímann þegar ég yrði eldri. Svo einhvern veginn varð ég aldrei nógu mikið eldri. Ég hef alltaf verið frekar upptekin og ekki séð sjálfa mig fyrir mér í þessu hlutverki. Svo fæ ég þetta hlutverk mjög óvænt þar sem þetta var ekki planað og þetta er án efa þakklátasta hlutverk sem ég hef fengið. Það kom líka á besta mögulega tíma. Ég var akkúrat að ljúka tónsmíðanámi frá Listaháskólanum.“

Rakel Móey í sundi með mömmu sinni.
Rakel Móey í sundi með mömmu sinni.

Hefur eitthvað verið meira krefjandi en annað síðan að barnið kom í heiminn?

„Kannski aðallega fyrstu mánuðirnir og á meðan ég var að læra inn á þetta fallega hlutverk. Að vera á vaktinni allan sólarhringinn með blæðandi geirvörtur í svitabaði og öllum þeim fylgikvillum sem fæðing hefur í för með sér og á sama tíma að reyna að fúnkera var krefjandi tímabil. Svo er það nú bara þannig að þegar ég held að ég sé komin með þetta þá kemur þroskakippur og ég er ekki lengur með þetta og þarf að finna nýjar lausnir eða leiðir.“

Hvernig var meðgangan?

„Ég fann fyrir ógleði í svona sex vikur og minnist þess með hrolli þegar ég lá upp í rúmi með saltstangir og Gatorate að skrifa lokaritgerðina mína í LHÍ og gat ekki hreyft mig. Þegar ógleðin var afstaðin þá hefði ég sennilega gleymt því að ég væri ólétt ef það hefði ekki verið kúla stækkandi framan á mér. Þvottahúsferðirnar niður í kjallara urðu þó færri þegar líða tók á og undir það síðasta var ég farin að svitna á efri vörinni bara við tilhugsunina að þurfa að standa upp til að pissa á næturnar. Mér leið annars mjög vel, var í námi og vinnu og útskrifaðist úr tónsmíðanáminu gengin 35 vikur.

Það erfiðasta á meðgöngunni var óvissan vegna covid. Fyrsta bylgjan skellur á þegar ég er komin tvo mánuði á leið og eðlilega vissi enginn neitt og allir að reyna að gera sitt besta. Ég missti vinnuna í kjölfar covid og þar af leiðandi rétt til fæðingarorlofs, takmarkanir skullu á heilsugæslu og sjúkrahús og spurningar eins og: „Má barnsfaðir minn koma með í sónar? Verð ég ein í fæðingunni? Hvað ef ég smitast? Hefur það áhrif á barnið?“ Þetta er svona brotabrot af þeim hugsunum sem flugu í gegnum hausinn daglega, ég var að fara að fæða barn í fyrsta skipti og hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara að ganga í gegnum. Í stað þess að njóta lífsins síðustu viknanna og heimsækja fólkið mitt fyrir norðan, fara á kaffihús og fleira sem ég hafði séð fyrir mér þá hékk ég úti á svölum allt sumarið í sjálfskipaðri sóttkví á milli þess sem ég þvoði barnaföt, þreif hreina íbúðina aftur og aftur og fékk ýmsar flugur í hausinn eins og að rækta chiliplöntur sem óvart urðu 42 og tóku á endanum yfir alla íbúðina.“

Hvernig gekk fæðingin?

„Ég vakna um morguninn við að ég er að missa vatnið gengin 41 viku og fjóra daga. Stelpan er óskorðuð svo það er kallaður til sjúkrabíll. Stigagangurinn er það þröngur að ekki var hægt að koma upp með sjúkrabörur svo ég þurfti að labba á fjórum fótum með hausinn á undan niður teppalagðan stigaganginn á brókinni og endaði með brunasár á hnjánum. Þar uppgötvaðist að börurnar voru bilaðar svo það var kallaður til annar sjúkrabíll. Það var reyndar lán í óláni því ég þurfti að vera á fjórum fótum upp á börunum og með fjórar sjúkraflutningamanneskjur að bera mig niður útitröppurnar, nágrönnunum til mikillar skemmtunar sennilega.“

„Þegar ég kom upp á spítala var stelpan alls ekki tilbúin að koma í heiminn. Það mátti ekki senda mig heim með hana óskorðaða í engu legvatni svo ég var sett af stað rúmum fjórum tímum síðar. Hríðarnar byrjuðu af hörku og verkirnir urðu miklir. Ég afþakkaði drauminn um baðkarið og fór beint í glaðloftið og mænudeyfinguna, sem var reyndar sett upp tvisvar þar sem það uppgötvaðist síðar að hún hefði ekki heppnast í fyrstu atrennu. Þetta ástand stóð svo yfir í góðan 1 og 1/2 sólarhring með ég veit ekki hvað mörgum vaktaskiptum af ljósmæðrum sem voru hver annarri yndislegri, þar til stelpan var orðin örmagna og hún sótt með bráðakeisara. Búmm, flúorljósin kveikt, rómansinn búinn og ég var á mettíma mætt inn í miðja senu í einhverjum læknaspennuþætti með þvílíku fagfólki sem á stórt hrós skilið. Við tók svo sængurlegan sem var alls ekki eins og ég hafði séð fyrir mér þar sem harðar takmarkanir voru í gildi og barnsfaðir minn mátti heimsækja okkur í klukkutíma á dag. Þarna lá ég ein með glænýtt líf í höndunum, heftaðan skurð á maganum, þvaglegg og skiptandi á bleyjum á okkur báðum til skiptis með takmarkaða hreyfigetu. Í þessa rúma þrjá sólarhringa svaf ég ekkert og var orðin úrvinda, en á sama tíma þykir mér einna vænst um að hafa fengið að upplifa þetta allsaman. Svolítið svona eins og grátbrosleg gamanmynd sem ég get hlegið af í dag.“

Rósa þurfti að bíða lengi eftir dóttur sinni uppi á …
Rósa þurfti að bíða lengi eftir dóttur sinni uppi á spítala.

Nýtir þú reynsluna úr Lottu á einhvern hátt í uppeldinu eða hefur kannski móðurhlutverkið áhrif á vinnuna?

„Móðurhlutverkið hefur haft einhver áhrif á vinnu já. Ég hef þurft að hafna vinnu vegna þess að tímasetningin hentaði mér illa verandi með barn, en reynslan sem slík mun pottþétt skila sér að einhverju leyti inn í uppeldið. Það var mjög fallegt móment þegar Rakel Móey sá lambagrímuna mína sem lá til þerris á ofninum í vikunni, benti á hana og sagði mamma.
Ég viðurkenni alveg að ég bregð oft á leik hérna heima og tek upp hina ýmsu karaktera. Í kvöldrútínunni segi ég henni svo styttri Lottu-útgáfuna af sögunni um Rauðhettu og úlfinn á meðan hún liggur grafkyrr og hlustar athugul á söguna. Ég hlakka til að halda áfram að kynna hana fyrir allri Lottu ævintýra flórunni sem og að gera mitt allra besta til að veita henni jákvætt og virðingarríkt uppeldi.“

Rósa heldur úti heimasíðunni rosaasgeirsdottir.com. Þar heldur hún utan um verkefnin sín og er alltaf opin fyrir nýju samstarfi.

Á sængurlegudeildinni.
Á sængurlegudeildinni.
mbl.is