Nafnið Archie nær nýjum vinsældum

Harry og Meghan með nýfæddan son sinn, Archie, árið 2019.
Harry og Meghan með nýfæddan son sinn, Archie, árið 2019. AFP

Nafnið Archie var í fyrsta skipti á lista yfir tíu vinsælustu barnanöfn drengja á Bretlandi á síðasta ári. Nafnið var það níunda vinsælasta. Hertogahjónin af Sussex, Harry og Meghan, gáfu frumburði sínum nafnið árið 2019. The Guardian greinir frá.

Nafnið Oliver var vinsælasta drengjanafnið áttunda árið í röð. Fleiri nöfn en Archie eru á siglingu á listum yfir vinsælustu nöfnin, þar á meðal Otis og Maeve, en það eru einmitt nöfn aðalpersóna Netflixþáttanna vinsælu, Sex Education. 

Hagstofa Bretlands (e. Office for National Statistics) opinberaði listana í vikunni. Olivia var vinsælasta eiginnafn stúlkna fimmta árið í röð og næst komu nöfnin Amelia, Isla, Ava og Mia.

Nafnið George er næstvinsælasta nafnið á meðal drengja, en nafnið varð mjög vinsælt eftir að hertogahjónin af Cambridge, Vilhjálmur og Katrín, gáfu elsta syni sínum nafnið. Arthur, Noah og Mohammed koma svo á eftir George. 

Athygli vekur að nafnið Wilfred hefur ekki aukist að vinsældum eftir að Boris Johnson og eiginkona hans Carrie völdu nafnið handa syni sínum. Fór það úr 142. sæti niður í það 145. 

Þótt hin konunglegu nöfn Archie og George hafi orðið vinsælli með árunum eru ekki öll konungleg nöfn jafn vinsæl. Þá féll nafnið Charles, sem á íslensku myndi þýðast Karl, af topp-tíu-listanum í fyrsta skipti síðan 2005. Er það nú það tólfta vinsælasta á Bretlandi. Nafnið Harry féll um þrjú sæti.

Nafnið Lilibet komst svo ekki á listann, en Harry og Meghan völdu það nafn handa dóttur sinni í sumar.

Vinsælustu stúlknanöfnin í Bretlandi 2020

 1. Olivia
 2. Amelia
 3. Isla
 4. Ava
 5. Mia
 6. Ivy
 7. Lily
 8. Isabella
 9. Rosie
 10. Sophia

Vinsælustu drengjanöfnin í Bretlandi 2020

 1. Oliver
 2. George
 3. Arthur
 4. Noah
 5. Muammed
 6. Leo
 7. Oscar
 8. Harry
 9. Archie
 10. Jack
mbl.is