Blue Ivy stelur senunni í nýrri auglýsingu

Partur af fjölskyldunni leikur í nýrri auglýsingaherðferð Tiffany & Co. …
Partur af fjölskyldunni leikur í nýrri auglýsingaherðferð Tiffany & Co. Tvíburarnir Rumi og Sir eru fjarri góðu gamni að þessu sinni. Skjáskot/Youtube

Hin níu ára gamla Blue Ivy Carter, dóttir Hollywoodhjónanna Beyoncé og Jay-Z, stal svo sannarlega senunni þegar hún kom fram í nýrri auglýsingu frá fylgihluta- og skartgriparisanum Tiffany & Co. 

Auglýsingin, sem ber yfirskriftina „Date Night“ eða stefnumót, gerist í rauninni inni í bíl þar sem Beyoncé og Jay-Z láta vel hvort að öðru. Rómantíkin á milli þeirra er áþreifanleg og skartið sem þau bera óaðfinnanlegt. Þá láta þau klingja í glösum fullum af kampavíni og mata hvort annað á pítsusneiðum á milli þess sem Beyoncé sést slíta blöð af gulu blómi til þess að fá staðfestingu á því hvort eiginmaðurinn elski sig í raun og veru. „Hann elskar mig, hann elskar mig ekki ...“ sagði hún fyrir hvert blað sem hún sleit af blóminu.  

Innkoma dótturinnar setur skemmtilegan svip á auglýsinguna þegar hún birtist óvænt fyrir aftan bifreiðina á harðahlaupum og truflar kossaflens foreldranna. Sest hún inn í bíl til foreldra sinna ásamt krúttlegum brúnum heimilishundinum. 

Öll fjölskyldan, að hundinum undanskildum, bar skart, gleraugu eða aðra fylgihluti frá Tiffany & Co í auglýsingunni og leit vel út, hver á sinn hátt. Er það líklega ein af fjölmörgum ástæðum auglýsingarinnar, að allir eigi að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í verslunum Tiffany og Co, óháð aldri og kyni.

Auglýsinguna má sjá hér að neðan.


   

mbl.is