Markmiðið er að valdefla foreldra ungbarna

Hafdís Guðnadóttir með börnum sínum tveimur, Bríeti Sól og Jóni …
Hafdís Guðnadóttir með börnum sínum tveimur, Bríeti Sól og Jóni Sölva.

Þetta kom þannig til að þegar ég var í fæðingarorlofi með yngra barnið mitt þá var ég í miklu veseni með svefninn hjá syni mínum. Hann vaknaði mjög oft á nóttunni og mig sárvantaði upplýsingar um hvernig ég gæti hjálpað honum að sofa betur,“ segir Hafdís Guðnadóttir ljósmóðir, en hún lauk nýlega námi í svefnráðgjöf ungra barna og hefur stofnað fyrirtæki í kringum þjónustuna sem heitir Sofa Borða Elska.

„Ég vissi vel að börn á aldri sonar míns, sem þá var nokkurra mánaða gamall, ættu að geta sofið lengur en tvo tíma í einu, svo ég fór að sanka að mér upplýsingum um ráð og lausnir. Þegar ég fór að ræða þetta við vini og vinkonur í kringum mig sem voru líka með ungabörn, þá reyndust flestir vera með einhver vandamál í tengslum við svefn barnanna. Þar sem ég veit að það er margra mánaða biðlisti á Landspítalanum að komast þar að með börn í svefnráðgjöf, þá ákvað ég að gera eitthvað í þessu sjálf. Ég sótti mér faggildingu í svefnráðgjöf hjá erlendu fyrirtæki á netinu og ég útskrifaðist núna í september. Ég er byrjuð að veita upplýsingar og fróðleik um svefn barna á Instagram-síðunni Sofa Borða Elska, sem ég opnaði í liðinni viku. Þar hef ég líka verið með umræðu í storie og þar fæ ég stundum spurningar sem ég svara. Ég er að vinna í að búa til netnámskeið og þegar þau koma út þá verður hægt að kaupa þau á heimasíðunni minni. Ég er núna fyrst og fremst að kynna þetta fyrir fólki svo það sjái mína hugmyndafræði og nálgun. Ég er þakklát fyrir viðtökurnar sem eru framar öllum vonum, það er mikill áhugi og greinilega mikil þörf.“

Góðar upplýsingar skipta máli fyrir foreldra

Hafdís segir að foreldrar ungbarna upplifi oft að þeir hafi gert eitthvað rangt sem foreldrar, að svefnvandi barnanna sé að einhverju leyti þeim að kenna.

„Þannig er það auðvitað ekki, foreldrar reyna alltaf að gera sitt besta og það sem er best fyrir barnið þeirra. Það er í raun ekki hægt að gera neitt rangt, en ég get veitt leiðbeiningar um hvað hægt er að gera til að hjálpa barninu að sofa betur,“ segir Hafdís sem eðli málsins samkvæmt, sem starfandi ljósmóðir, hefur mikinn áhuga á ungabörnum, barneignaferlinu og öllu sem því viðkemur.

„Mín reynsla sem ljósmóðir að sinna foreldrum í gegnum barneignaferli, er að það sem foreldrar þurfa einna mest á að halda eru upplýsingar. Foreldra í meðgönguvernd þyrstir í að vita hvað þeir geti gert til að allt gangi sem best með barnið. Þetta á líka við um fæðinguna, það hefur sýnt sig að góð upplýsingagjöf skilar sér í auknum líkum á jákvæðari fæðingarreynslu, sem heldur svo áfram á ungbarnaskeiðinu. Að hafa góðar upplýsingar er valdeflandi fyrir foreldra. Markmið mitt með fyrirtækinu mínu, Sofa Borða Elska, er að valdefla foreldra með því að gefa þeim þær upplýsingar sem þeir þurfa til að geta viðhaft heilbrigðar svefnvenjur og hjálpað barni sínu að sofa betur.“

Svefnleysi hefur mikil áhrif á líðan allra

Svefnvandi ungabarns bitnar eðli málsins samkvæmt á öllum í fjölskyldunni, barni, móður, föður og systkinum, ef einhver eru, því allir verða jú þreyttir þegar svefn verður kannski margrofinn við grátandi barn á nóttunni. Það skiptir því miklu máli fyrir alla að barnið sofi sem best.

,,Það er margrannsakað að svefnleysi hefur mikil áhrif á andlega líðan og líkamlega. Það er alltaf að koma betur í ljós að svefn er grunnur alls heilbrigðis. Ef fólk sefur ekki þá funkerar það ekki.“

Hafdís segir að það þurfi að skoða hvert og eitt tilfelli til að komast að því hvað valdi svefnóreglu hjá ungabarni, því það getur verið svo margt sem veldur því að barn sefur illa.

„Sérstaklega á fyrstu mánuðunum, en frá þriggja til fjögurra mánaða aldri er dægursveiflan orðin nógu þroskuð til að hægt sé að búa til svefnrútínu. Ofþreyta barns er oft ástæðan, þau ná ekki að hvílast og framleiða þá stresshormón sem valda því að þau eiga erfitt með að sofna og sofa lausar. Þetta verður vítahringur sem gott er að vinda ofan af með því til dæmis að hafa viðeigandi langa vökuglugga milli lúra og láta þau ekki vaka of lengi fyrir nóttina. Stundum getur ástæða þess, að börn eru óhuggandi á kvöldin, verið ofþreyta,“ segir Hafdís og bætir við að ýmis ráð séu til að róa ungbarn, sum þeirra eru gömul og góð, eins og til dæmis að vefja barn reifum.

„Ýmsum ráðum er hægt að beita til að ýta undir góðan svefn á fyrstu mánuðum í lífi barns. Með því að vefja barn reifum þá endursköpum við umhverfið sem þau voru í þegar þau voru í móðurkviði. Reifun gefur þeim þannig öryggi og vellíðan, þeim finnst notalegt að vera reifuð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert