Sögð vilja eignast barn saman

Kourtney Kardashian og Travis Barker.
Kourtney Kardashian og Travis Barker.

Stjörnuparið Kourtney Kardashian og Travis Barker trúlofuðu sig fyrir nokkrum dögum. Þau eru sögð íhuga að stækka fjölskylduna en fyrir á Kardashian þrjú börn og Barker tvö. Kardashian er orðin 42 ára en hún hefur ekki áhyggjur af aldrinum. 

„Þau munu án efa eignast barn saman, það er bara spurning um hvenær og hvernig,“ segir heimildarmaður Us Weekly um ástfangna parið. „Helst myndi Kourtney vilja náttúrulega fæðingu. Hún er örugg um að hún eigi ekki í vandræðum með það af því hún hefur verið heppin með að geta eignast barn á náttúrulegan hátt og hefur hugsað vel um sig.“ Kardashian er hins vegar 42 ára og ef hún getur ekki eignast barn eru þau sögð ætla að íhuga aðra kosti. 

Heimildarmaðurinn segir að Kardashian líti á tónlistarmanninn sem yndislegan föður en hann á tvö börn, 18 ára og 15 ára. „Hann hefur líka verið svo góður við börnin hennar sem hún á með Scott,“ sagði heimildarmaðurinn. Raunveruleikastjarnan á þrjú börn með barnsföður sínum Scott Disick sem eru ellefu, níu og sex ára. 

mbl.is