„Það fylgir engin handbók með börnum“

Kristó ásamt dætrum sínum tveimur.
Kristó ásamt dætrum sínum tveimur. Ljósmynd/Aðsend

Kristófer Jensson, söngvari hljómsveitarinnar Lights On The Highway, á von á sínu fjórða barni með eiginkonu sinni, Guðlaugu Arnþrúði Guðmundsdóttur, eða Öddu, eins og hún er oftast kölluð. Lýsir hann sér sem ströngu en sanngjörnu foreldri sem leggur mikið upp úr því að vera vinur barna sinna. Kristófer segist ekki ætla að eignast fleiri en fjögur börn, sú barnafjölda tala sé hans hámark.

„Við hjónin eigum þrjú börn í dag. Þau heita Kristel Eva, 14 ára, Katla Maren, 6 ára, Arnar Darri, 2 ára, og svo eigum við von á því fjórða í lok mars," segir Kristófer. „Ég held að fjögur börn séu alveg nóg. Ég er hættur eftir þetta,“ segir hann brosandi.

Hvort finnst þér betra að fá að vita kyn barnsins áður en það fæðist eða ekki?

„Mér finnst í raun gaman að hafa prófað bæði. Við vissum kynið með elsta og yngsta barnið okkar, en ekki með miðjuna. Það skiptir samt ekki öllu hvort maður viti kynið eða ekki, það sem maður er þakklátastur fyrir er að eiga heilbrigð börn, allt annað er aukaatriði. Við ætlum að fá að vita kyn barnsins okkar núna, meðal annars af því að börnin okkar eru sjúklega spennt að fá að vita það. Þau fá að ráða í þetta skiptið.“

Glaðleg fjölskylda. Von er á öðru kríli í mars á …
Glaðleg fjölskylda. Von er á öðru kríli í mars á næsta ári. Ljósmynd/Aðsend

Kristófer segir það mikilvægt að nálgast börn sem misjafna einstaklinga en ekki út frá kynferði þeirra. Hafa þau Kristófer og Adda lagt allt sitt kapp á að beita sömu uppeldisaðferðum á börn sín, óháð kyni þeirra.

„Í okkar tilfelli teljum það ekki rétt að ala dætur okkar upp á annan hátt en son okkar og höfum við alltaf lagt upp með það við okkar börn að allir eigi að vera jafnir, alveg sama við hverju það kemur. Mér þykir kyn barnsins heldur ekki koma málinu við. Hins vegar held ég að það sé stór munur á því hvað virkar á milli einstaklinga. Börnin okkar eru ólík sem dagur og nótt, þó svo að margt sé líkt með elstu dóttur minni og syni mínum. Þá er einmitt gott að hafa reynslu af svipuðum karakterum, alveg sama hvert kynið er. Ég tel það líka einmitt mikilvægt að foreldrar tali saman um uppeldisaðferðir og séu sammála um nálgun.“

Aðhyllist þú einhverjar ákveðnar uppeldisaðferðir?

„Ég aðhyllist ekkert endilega einhverja eina stefnu frekar en aðrar. Ég vann á leikskóla fyrir nokkuð mörgum árum síðan og þar var Reggio Emilia stefnan við líði. Það var í raun löngu áður en ég fór að eignast börn sjálfur en maður tekur alltaf eitthvað með sér í gegn um það sem maður fæst við í lífinu. Það er margt gott í þeirri stefnu eins og til dæmis að þar er mikið lagt upp úr því að örva skilningarvitin, gefa börnunum vettvang til að tjá sig og upplifa hlutina með því að fást við þá sjálf og að þau hafi eitthvert val á viðfangsefninu,“ útskýrir Kristófer.

Kristófer með syni sinum, Arnari Darra, við sjóinn.
Kristófer með syni sinum, Arnari Darra, við sjóinn. Ljósmynd/Aðsend

„Það er líka margt gott við RIE, mér finnst allt sem hvetur til sköpunar og tjáningar í hvaða formi sem það er vera af hinu góða fyrir börn. Að sjálfsögðu þykir mér tónlist vera mjög mikilvæg líka því þar kemur aftur að túlkun, tjáningu, sjálfsöryggi og tilfinningaþroska. Og auðvitað það að læra að hlusta með eyrunum og hjartanu.“

Mikilvægt að vera vinur og bandamaður barna sinna

„Fyrir mér er það algjört lykilatriði. Það skiptir svo gríðarlega miklu máli að börnin treysti manni, sérstaklega þegar þau fara að verða eldri og fara að takast á við alvöru áskoranir í lífinu og þurfa að geta leitað til manns. Þau þurfa helst að finna að þau geti rætt alla hluti við foreldra sína, treysti þeim og finna að þau eigi bandamenn þar. Það er samt oft erfitt að finna þennan milliveg þegar maður þarf líka að leiðbeina þeim og taka óvinsælar ákvarðanir fyrir þau,“ bendir Kristófer á. „Ef þú spyrð 14 ára dóttur mína mundi hún pottþétt segja mig strangt foreldri en ég held að ég geti verið bæði strangur og sanngjarn. Það er alltaf þessi millivegur sem þarf að finna. Maður vill jú, alltaf börnunum sínum fyrir bestu,“ segir Kristófer jafnframt.

„Það sem ég hef samt áttað mig á með mín börn er að það fylgir engin handbók með þeim, þannig að oft þarf maður að tína til það sem manni þykir réttast héðan og þaðan. Lykilatriðið er að vera samstíga sem foreldrar og hafa kjark að leita sér ráða. Ég held að það sé óneitanlega líka þannig að ég er alltaf að þroskast sem foreldri. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og takast á við nýjar áskoranir.“

„Það hefur alls ekki alltaf verið auðvelt að samstilla vinnu, námi, áhugamálum, heimilishaldi og öllu þessu við barnauppeldið í gegnum tíðina. Fyrir það fyrsta er ég ótrúlega heppinn með maka og við höfum haft ómetanlegan stuðning frá foreldrum okkar og fjölskyldu - það er ekki sjálfgefið. Þetta er oft mikið púsluspil og hefst bara með góðri samvinnu og skipulagningu. Við skulum samt segja alveg eins og er að það er ekki ég sem er Excel snillingurinn á heimilinu,“ segir Kristófer og eignar þar með eiginkonu sinni þann titil.

Brátt verða þessi sætu systkin einum fleiri.
Brátt verða þessi sætu systkin einum fleiri. Ljósmynd/Aðsend

Lumar þú á einhverjum fimm hagnýtum uppeldisráðum?

1. Hlustaðu á börnin þín, þau þurfa að fá að tjá sig og hafa skoðanir og hugmyndir. Það er ótrúleg speki sem getur komið frá börnum á öllum aldri. Hlutir sem þér finnast kannski vera smámunir geta líka verið risavaxnir í litlum kolli og öfugt.

2. Gefðu þér tíma til þess að hjálpa þeim að þroska með sér áhugamál og sýndu því athygli og virðingu sem þau fást við. Börnin þín hafa ekki endilega sömu áhugamál og þú. Leyfum þeim að prófa velja sjálf.

3. Stattu við það sem þú segir við barnið þitt. Ef það er eitthvað ekki hægt, ekki segja það þá.

4. Mundu að hrósa fyrir það sem vel er gert. Það skiptir alltaf máli.

5. Anda inn – Anda út .. (Held að þetta sé reyndar besta ráðið).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert