Himinn og haf að eignast barn um tvítugt og 33 ára

Stefania Rut Hansdóttir og Steinunn Diljà Högnadóttir
Stefania Rut Hansdóttir og Steinunn Diljà Högnadóttir Eggert Jóhannesson

Stefanía Rut Hansdóttir varð ólétt að sínu fyrsta barni 19 ára en í dag er hún fjögurra barna móðir. Hún upplifði mikla pressu þegar hún varð móðir í fyrsta sinn. Þrátt fyrir krefjandi verkefni sem fylgdu móðurhlutverkinu fann hún hvernig hún fékk skýra sín á lífið þegar frumburðurinn kom í heiminn. Í dag veit hún að það þarf ekki að eiga allt eða vera með allt á hreinu til þess að sinna ástríku uppeldi.

„Pressan sem fylgir því að eiga börn í nútímasamfélagi er rosaleg, það sést yfirleitt á fötum barnanna hver á peninga og hver ekki. Mér fannst ég til dæmis eiga að geta það sama og kona við fertugt með barn á sama aldri og ég – eiga húsið, vinnuna og vita hver ég væri,“ segir Stefanía um fyrstu árin í móðurhlutverkinu. Fyrstu ár Stefaníu voru henni að innblæstri og nýverið ákvað hún að stofna fataleigu fyrir smábörn með Steinunni Diljá Högnadóttur undir nafninu Koffortið fljúgandi. Leigan er byggð á hugmyndum deilihagkerfisins þar sem endurnýting og umhverfisvernd er höfð að leiðarljósi.

Stefanía Rut Hansdóttir og Steinunn Diljà Högnadóttir stofnuðu barnafataleiguna Koffortið …
Stefanía Rut Hansdóttir og Steinunn Diljà Högnadóttir stofnuðu barnafataleiguna Koffortið fljúgandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var mjög ung

„Það var eins og ég hefði séð allt í móðu áður, hefði síðan fengið gleraugu og séð allt í nýju ljósi. Allt í einu er þarna ljóslifandi barn sem svaf og drakk eftir hentisemi. Allt í einu fór þessi litla mannvera að skipta meira máli en allt annað. Mér fór að líða öðruvísi og ég leit út öðruvísi. Ég var náttúrulega bara 19 ára þegar ég varð ófrísk að mínu fyrsta barni og þá voru ekkert margir í mínum árgangi að drita niður börnum þannig að ég upplifði mig svolítið eina á þessum tíma í þessu barnastússi,“ segir Stefanía um hvernig það var að eignast fyrsta barnið.

Hún segir jafnaldra sínir ekki hafa áttað sig á því hvað fólst í því að að eiga barn og litið á það að hún væri í fríi á meðan hún var í fæðingarorlofi. „Ég varð ótrúlega einmanna stundum en samt aldrei ein. Það segir manni enginn frá því. Það eru líka allir rosalega duglegir að koma í heimsókn rétt eftir að barnið fæðist og síðan ekkert meir. Börnin verða svona eins og fylgihlutir fyrir vini og vandamenn til þess að eiga mynd af ungviðinu í fanginu á þeim. Fólk á mínum aldri hætti líka að bjóða manni hingað og þangað eins og það væri fyrirfram búið að ákveða að maður kæmist ekki núna af því að maður átti barn.“

Stefanía á í dag fjögur börn og segir himinn og haf að eignast barn um tvítug og 33 ára. „Þegar ég horfi til baka þá finnst mér eins og ég hafi verið barn að eiga barn. Maður þroskast töluvert þegar maður dýfir höfðinu fyrst í uppalendahlutverkið,” segir hún. Til að byrja með fékk hún mikið af óumbeðnum ráðleggingum um hvernig hún ætti að sinna móðurhlutverkinu vegna þess hversu ung hún var. „Mér fannst það svolítið yfirþyrmandi með fyrsta barn og svolítið valtað yfir mann af því að ég var svo ung. Það virtist alveg eðlilegt að allir í ættinni myndu sjá barnið fyrstu vikuna og biðröð var upp á fæðingardeild þó svo maður væri ekki búin að fara í sturtu eftir átökin og var eiginlega bara í smá sjokki. Allir eru svo spenntir að sjá barnið en síðan sést mikið af þessu liði ekki meir, fjölskylda sem vinir.“

Stefanía var brennd eftir fyrri reynslu þegar hún eignaðist sitt annað barn og vildi helst að allir héldu sér fjarri henni. „Mér leið ofboðslega illa andlega alla meðgönguna og eftir fæðingu líka. Þriðja djásnið fæddist heima í rólegheitum og ég var einhvern veginn alveg tilbúin. Fjórði mætir síðan með læti núna í mars en er rólegastur af þeim öllum.”

Steinunn og Stefanía vilja hjálpa barnafólki.
Steinunn og Stefanía vilja hjálpa barnafólki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýbakaðar mæður eiga ekki að vita allt

Stefanía segir að uppeldi sé aldrei auðvelt en það sem hún hefur lært á öllum þessum árum er að gera raunhæfar kröfur til barna. Hún bendir einnig á að ef börn myndu alltaf gera það sem þeim væri sagt væri ekki talað um uppeldi.

„Uppeldi byrjar strax við fæðingu, að annast barn og vernda og veita síðan leiðsögn en uppeldisfærni er ekki meðfæddur eiginleiki. Það er eitthvað sem kemur með reynslu og þekkingu. Til allra nýbakaðra mæðra, það er ekki ætlast til að þið vitið hvað þið eruð að gera og það er ekkert að því að biðja um aðstoð eða leiðsögn í uppalendahlutverkinu. Það þýðir ekki að þið séuð slæmar eða ómögulegar mæður heldur þvert á móti. Samfélagið er bara orðið svo mikið þannig að það er einhver skömm fólgin í því að biðja um aðstoð og alls ekki auðvelt að leita sér tilheyrandi aðstoðar þegar þörf er á. Mér finnst það frábært og merki um hugrekki frekar en eitthvað annað. Ef ég hefði bara vitað að það væri enginn skömm að líða stundum illa í móðurhlutverkinu og sakna þess stundum að vera án barna þá hefði ég sennilega leitað mér hjálpar á sínum tíma þegar allt var yfirþyrmandi,“ segir Stefanía. 

Stefania Rut Hansdóttir og Steinunn Diljà Högnadóttir
Stefania Rut Hansdóttir og Steinunn Diljà Högnadóttir Eggert Jóhannesson

Stefanía segist ekki vita hvar hún væri án barnanna sinna. „Ég er akkúrat þar sem ég á að vera í lífinu. Ég vissi ekki að það væri hægt að elska einhvern, einhverja í mínu tilfelli, skilyrðislaust fyrr en ég varð móðir sjálf. Maður umbreytist og líður eins og maður sé nett klikkaður á köflum en það fylgir þessu víst. Ég er nokkuð örugg í því sem ég er að gera varðandi börnin mín í dag og gæti ekki verið meira sama um óumbeðin ráð þegar það kemur að uppeldinu. Inn um eitt og út um hitt.”

Ömurleg þróun

Stefanía segist ekki finna fyrir pressu frá samfélagsmiðlum í móðurhlutverkinu. Ef hún væri hins vegar að eignast sitt fyrsta barn í dag tvítug myndi hún hins vegar klárlega svara játandi.

„Mér fyndist erfitt að segja við sjálfa mig og trúa því að ég væri að gera mitt besta og að það væri alveg nóg á meðan að við ættum þak yfir höfuðið, mat á borðinu og fullt hús af kærleika. Mér finnst þetta ömurleg þróun ef ég á að segja eins og er. Það er mikið af glansmyndum til á samfélagsmiðlum, húsin, fötin, bílarnir og allt þetta. Það er búið að klína filter á suma hluti og oft látið líta út eins og foreldrahlutverkið sé aukavinna. Það er náttúrulega líka bara ákveðinn hópur fólks sem virðist alveg keppast að því að sýna hvað þau eiga en fylgjendahópurinn er oft voðalega viðkvæmir og ómótaðir einstaklingar sem að spegla sig í þeim. Það er alls ekki samanburðarhæft að bera sig saman við hjón í fullri vinnu og þegar maður er einn í námi með aukavinnu. Það þurfa heldur ekkert allir að vita hvað þú ert að gera, með hverjum, hvar og alltaf,“ segir Stefanía.

Steinunn Diljá Högnadóttir ásamt yngra barni sínu.
Steinunn Diljá Högnadóttir ásamt yngra barni sínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spara tíma og peninga

Stefanía er nýflutt heim frá Danmörku. Hún segir Íslendinga geta lært margt af frændum sínum Dönum. „Þeir gera þetta flest aðeins öðruvísi en við, byrja á því að mennta sig og koma sér fyrir í lífinu enda er það aðeins auðveldara peningalega séð að mennta sig úti. Startið fyrir barnafjölskyldur úti er allt annað en hérna. Síðan er það rosalega persónubundið hvað fólki finnst vera nægjusemi. Sumir kaupa notaða hluti í stað þess að kaupa nýja hluti, endurnýta, á meðan aðrir slökkva aldrei kaupþorstann. Það virðist vera mikil neysluhyggja á Íslandi og það virðist ekki skipta máli hvort það sé notað eða nýtt. Fólk kaupir þá bara fleiri notaðar flíkur í staðinn. Mér finnst notaðir hlutir æðislegir og hef heyrt að það sé eins og að labba inn í dánarbú heima hjá mér sem er ótrúlega fyndið. Við erum aldrei ánægð sem að ég held að sé stærsti munurinn á okkur og Dönum, við sættum okkur ekki við svo margt. Það er erfitt að vera nægjusamur þegar manni langar alltaf í eitthvað. Þess að auki að þá er gífurleg pressa á barnafjölskyldum landsins og útgjöldin virðast hvergi ætla að nema staðar. Ég held að ef Ísland væri fjölskylduvænna samfélag að þá væri margt auðveldara fyrir barnafjölskyldur. Við ættum alveg að geta gert betur sem einstaklingar og sem samfélag,“ segir Steinunn.

Viðskiptahugmynd Stefaníu og Steinunnar smellpassar inn í hugsunarháttinn sem Stefanía kynntist í Danmörku. Í stað þess að eiga allt eða eyða dýrmætum fjölskyldutíma í búðum er hreinlega hægt að leigja fötin hjá þeim og skipta þeim þegar þau eru orðin of lítil. „Það er dýrt að eiga börn, fötin eru dýr og allir fylgihlutir líka. Okkur fannst þetta vera svona brúin á milli þessa að kaupa notað eða nýtt og þess vegna auðveldara fyrir alla að kaupa sér eitt sett í hverri stærð sem kostar aðeins meira og getur þá geymt það en ekki heila fatahrúgu af minningum og ekki tíma að henda,” segir Stefanía og bendir auðvitað á umhverfissjónarmiðin.

Stefanía og Steinunn hlakkar til að kynna Íslendinga fyrir þessari nýju hugmynd sem Koffortið fljúgandi gengur út á, að leigja frekar en að eiga. Þannig segja má bæði spara peninga og tíma að þeirra sögn. „Eyðum tíma í það sem skiptir máli og það eru börnin okkar og minningarnar sem við sköpum með þeim. Þau muna ekki eftir því hvaða föt þau áttu eða hversu mikið dót heldur muna þau eftir tímanum okkar saman. Setjum fókusinn á það sem skiptir máli og það eru þessar gæðastundir sem koma ekki aftur. Munum að njóta, lífið er núna,” segir þær.

mbl.is