Dóttirin kom á fullkomnum tíma

Mæðgurnar Margrét Regína og Kolfinna Ósk á fótboltavellinum.
Mæðgurnar Margrét Regína og Kolfinna Ósk á fótboltavellinum. Ljósmynd/Aðsend

Dóttir Margrétar Regínu Grétarsdóttur og Arons Gauta Óskarssonar kom í heiminn með hraði um miðjan nóvember í fyrra. Margrét segir að þrátt fyrir svefnlitlar nætur hafi síðastliðið ár með Kolfinnu Ósk verið vel þess virði og einstaklega skemmtilegt. 

„Maður fullorðnast á núll einni. Allt í einu þurfti maður að fórna ýmsu og bera ábyrgð á ungbarni sem engar leiðbeiningar fylgdu. Sem gerir þetta þó líka að skemmtilegasta hlutverkinu,“ segir Margrét um hvernig móðurhlutverkið breytti henni. 

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú ættir von á barni?

„Það kom virkilega á óvart! Fyrstu viðbrögðin voru óvissa. Á þessum tímapunkti vorum við bæði á fullu í okkar íþróttum og í meistaranámi. Barn var hins vegar ekkert óvelkomið. Ef ég hugsa til baka þá var þetta kannski bara hentugasti tíminn eftir allt saman. Covid-bylgjurnar komu hver á eftir annarri svo ég var ekki að missa af neinu.“

Margrét Regína, Aron Gauti og Kolfinna Ósk.
Margrét Regína, Aron Gauti og Kolfinna Ósk. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gekk meðgangan?

„Meðgangan gekk vel. Ég slapp nokkuð vel með ógleðina, þó svo að hafa þurft að hlaupa oftar en einu sinni út úr matvörubúð. Ég æfði fótbolta fram að 16. viku, stundaði meðgöngujóga hjá Auði, tók styrktaræfingar og var mikið í fjallgöngum fram á síðasta spölinn. Það má segja að ég hafi alltaf þurft að hafa eitthvað fyrir stafni og oftar en ekki var það í formi einhvers konar hreyfingar, þannig leið mér best.“

Margrét Regína í göngu með dóttur sína. Þær gegnu líka …
Margrét Regína í göngu með dóttur sína. Þær gegnu líka saman þegar Kolfinna Ósk var í móðurkviði. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gekk þér að komast í form aftur og fara spila fótbolta aftur?

„Það gekk vonum framar. Ég byrjaði að mæta aðeins á fótboltaæfingar þremur mánuðum eftir að Kolfinna Ósk fæddist. Samhliða því gerði ég styrktaræfingar þar sem líkaminn var að fara í gegnum svo stórt og mikið ferli. Ég fann að vísu fyrir því hvað líkaminn hafði rýrnað. Með tímanum small þetta allt saman aftur.“

Hvernig gekk fæðingin?

„Fæðingin gekk lygilega vel. Það var sunnudagur og ég gengin 39 vikur og tvo daga og ekkert bólaði á barninu að ég hélt. Svo klukkan 18.00 byrja verkirnir og ég fer í bað heima, við erum síðan komin upp á deild klukkan 19.30 og Kolfinna Ósk er bara mætt í heiminn klukkan 19.56 í sigurkufli. Hreint út sagt draumafæðing.“

Margrét Regína segir fæðing Kolfinnu Óskar hafa verið draumafæðingu.
Margrét Regína segir fæðing Kolfinnu Óskar hafa verið draumafæðingu. Ljósmynd/Aðsend

Hvað hefur verið krefjandi við að eiga barn?

„Svefnlitlar nætur, alls kyns ágreiningur á heimilinu og kannski smá tímaskortur. En það verður síðan allt þess virði.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Ætli ég láti ekki ganga áfram það sem góð vinkona mín sagði mér þegar ég var ólétt: „Erfiðu tímarnir eru bara tímabil sem líða á endanum hjá.“ Annars bara að muna að njóta hverrar stundar, krílin stækka alltof hratt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert