Ætlaði ekki að eignast börn

Amal og George Clooney.
Amal og George Clooney. AFP

Kvikmyndastjarnan George Clooney á tvíbura með eiginkonu sinni, mannréttindalögfræðingnum Amal Clooney. Þau voru búin að vera gift í eitt ár þegar þau ákváðu að reyna að eignast barn. Hollywoodstjarnan, sem sá ekki fyrir sér að eignast eitt barn, sá alls ekki fyrir sér að verða faðir tveggja barna. 

„Sjáðu til, ég vildi ekki kvænast. Ég vildi ekki eignast börn. Og síðan gekk þessi ótrúlega manneskja inn í líf mitt og ég féll kylliflatur fyrir henni. Ég vissi um leið og ég hitti hana að allt yrði öðruvísi,“ sagði Clooney um líf sitt með eiginkonu sinni í hlaðvarpsþættinum WTF with Marc Maron að því fram kemur á vef People

Clooney sagði einnig frá því hvenær hjónin tóku ákvörðun um að verða foreldrar. „Við vorum búin að vera gift í um það bil ár og vorum heima hjá vinum okkar. Þau áttu barn sem var hávært og dónalegt og ég var bara guð minn góður. Við fórum út í göngutúr og hún hafði aldrei hugsað um það áður, í alvöru,“ sagði kvikmyndastjarnan um tímann rétt áður en þau ákváðu að eignast barn. 

„Við erum ótrúlega heppin að hafa fundið hvort annað,“ sagði Clooney eftir að eiginkona hans sagði að þau væru heppin. „Það er eins og við eigum að deila þessari hamingju með öðru fólki,“ sagði hún þá. Þau hugsuðu um þetta í mínútu og svo sagði Clooney: „Ég meina ef þú ert til í þetta.“ Eiginkona hans svaraði: „Ég held að við ættum að reyna.“

George Clooney og Amal Clooney.
George Clooney og Amal Clooney. AFP

Kvikmyndastjarnan sagði að þessi stund hefði verið mjög tilfinningarík enda sá hann ekki fyrir sér að verða faðir, hvað þá faðir tveggja barna. „Ég vissi ekki að ég myndi eignast tvíbura,“ sagði hann. Í fyrstu sagði læknirinn að þau ættu von á strák en benti þeim síðan á að þau ættu líka von á stelpu. 

Clooney-hjónin gengu í hjónaband í september 2014 á Ítalíu. Tvíburarnir Alexander og Ella komu í heiminn í júní 2017. 

mbl.is