Íslenskt jóladagatal í Sjónvarpi Símans

Yngsta kynslóðin ætti að geta stytt biðina eftir jólum í desember en íslenskt jóladagatal hefur göngu sína í Sjónvarpi Símans frá 1. desember og að jólum. Í Jóladagatali Hurðaskellis og Skjóðu fara þau systkinin í ævintýralega fjársjóðsleit þar sem þau lenda í ýmsum skemmtilegum ævintýrum.

Jóladagatalið sem er gert í samstarfi við Símann og Samgöngustofu mun ekki aðeins skemmta heldur einnig fræða um mismunandi öryggislegur í umferðinni, á hjólum, snjóþotum, í strætó og fleira. Hurðaskellir og Skjóða þurfa nú að rifja upp allt sem að þau lærðu í umferðarskóla Grýlu.

„Við erum stolt að geta boðið upp á íslenskt jóladagatal, aðgengi að leiknu íslensku efni er ekki aðeins nauðsynlegt heldur alltaf eitt af okkar allra vinsælasta efni. Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu verður ekki aðeins skemmtilegt heldur líka fræðandi, og við hvetjum foreldra og forráðamenn til að horfa með börnum sínum á þættina, ræða boðskapinn með þeim og eiga saman ævintýralega samverustund,“ segir Pálmi Guðmundsson dagskrárstjóri Sjónvarp Símans.

Jóladagatal Hurðaskellis og Skjóðu kemur hefst í Sjónvarpi Símans þann 1. desember. Nýr þáttur kemur inn í Sjónvarp Símans Premium alla morgna fram að jólum en þættirnir verða einnig sýndir í barnadagskrá í Sjónvarpi Símans klukkan 17.30 og aftur klukkan 19:00.

mbl.is