Ekki tilbúin að verða drottning

Katrín Amalía prinsessa er ekki tilbúin að taka við krúnunni …
Katrín Amalía prinsessa er ekki tilbúin að taka við krúnunni af föður sínum Vilhjálmi Alexander konungi Hollands. Skjáskot/Instagram

Katrín Amalía Hollandsprinsessa segir í nýrri ævisögu að hún sé ekki tilbúin að taka við krúnunni af föður sínum. Katrín Amalía verður 18 ára í desember og þrátt fyrir að hafa leikið sér með kórónu móður sinnar frá því hún var barn vill hún ekki taka við hollensku krúnunni strax. 

Ævisagan sem skrifuð var af Claudiu de Breij með leyfi konungsfjölskyldunnar fjallar um elstu dóttur Vilhjálms Alexanders Hollandskonungs og kom út í Hollandi í vikunni. Þar má finna fjölda mynda úr lífi konungsfjölskyldunnar sem aldrei hafa birst áður. 

„Ég sagði pabba mínum að halda áfram að borða hollt og hreyfa sig mikið,“ sagði Katrín Amalía. „Ég elska kórónur. Sýndu mér kórónu og ég veit hvaðan hún er. Ég þekki allar kórónur í Evrópu. Ég lék mér stundum að kórónum mömmu minnar. Þær voru alltaf á snyrtiborðinu hennar og ég setti þær á höfuð mitt,“ sagði Katrín Amalía. Móðir hennar er Maxima drottning. 

Katrín Amalía prinsessa árið 2013.
Katrín Amalía prinsessa árið 2013. MICHEL PORRO

Hefð er fyrir því í Hollandi að gefin sé út ævisaga fyrir 18 ára afmæli ríkisarftaka. Sambærilegar bækur hafa verið gefnar út um föður hennar og langömmu hennar Beatrix prinsessu. 

Prinsessan vakti athygli í fjölmiðlum fyrr á þessu ári þegar hún sendi forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, handskrifað bréf þar sem hún baðst undan launagreiðslum þar til hún tæki formlega upp störf fyrir konungsfjölskylduna. 

„Mér þætti mjög óþægilegt að þiggja laun á meðan ég er ekki að vinna fyrir þeim, þegar aðrir nemendur hafa það mun verra en ég, sérstaklega í heimsfaraldrinum,“ skrifaði prinsessan til forsætisráðherrans. Hún mun hefja háskólanám á næsta ári en hún ákvað að taka sér eitt ár í pásu frá skóla eftir að hún lauk framhaldsskólagöngu sinni. 

Foreldar Katrínar Amalíu eru Maxima drottning og Vilhjálmur Alexander Hollandskonungur.
Foreldar Katrínar Amalíu eru Maxima drottning og Vilhjálmur Alexander Hollandskonungur. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert