„Ég laug að öllum og kannski mest að sjálfri mér“

Sigurborg endurupplifði áfall frá unglingsárunum í sinni fyrstu fæðingu. Hún …
Sigurborg endurupplifði áfall frá unglingsárunum í sinni fyrstu fæðingu. Hún glímdi við mikið fæðingarþunglyndi í kjölfarið en faldi það vel.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, landlagsarkitekt og fyrrverandi borgarfulltrúi Pírata, gerði sér ekki grein fyrir því hversu mikil áhrif fyrri áföll gætu haft á fæðingu. Þegar hún fæddi sinn fyrsta son endurupplifði hún áföllin sem hún hafði orðið fyrir sem unglingur og glímdi við fæðingarþunglyndi í kjölfarið. Sigurborg fékk góða hjálp á Landspítalanum þegar hún gekk með sitt annað barn og náði að vinna úr áföllunum. Hún gengur nú með sitt þriðja barn. 

Sigurborg var formaður skipulags- og samgönguráðs í borginni en lét af störfum í vor vegna veikinda. Í sumar fluttu hún og eiginmaður hennar, Björn Hákon Sveinsson, ásamt sonunum Sveini Jörundi og Frey Völundi, norður til Húsavíkur en Björn Hákon er fæddur þar og uppalinn. 

„Lífið okkar breyttist mest við það að ég hætti í borgarstjórn. Að vera ung kona og stýra einum stærsta og umfangsmesta málaflokknum í borginni, skipulags- og samgöngumálum, er meira en að segja það. Eftir að ég hætti upplifði ég allt í einu að ég hefði tíma til vera til staðar fyrir börnin mín. Ekki bara líkamlega heldur líka andlega. Við spjöllum meira saman, bökum saman og erum mikið úti saman. Við höfum loksins tíma til að vera fjölskylda,“ segir Sigurborg spurð um flutningana. 

Hún segist líka hafa tekið eftir miklum breytingum á manninum sínum og greinilegt að vera hennar í borgarstjórn olli miklu álagi á honum sem þurfti að sjá um heimilið frá A til Ö. „Stundum skreið eldri strákurinn minn upp í rúm til mín á kvöldin og spurði af hverju ég þurfti að vinna svona mikið. Mér fannst alltaf erfitt að svara honum því svarið er ekki einfalt. Við reyndum mikið í meirihlutanum að gera borgarstjórn að fjölskylduvænum vinnustað en það tókst aldrei almennilega. Ég held nefnilega að breytingin sé menningarleg og þurfi að eiga sér stað á stærri skala í samfélaginu. Annars er ég hrædd um að eina fólkið sem treystir sér til að taka þátt í stjórnmálum verði einsleitur hópur miðaldra fólks,“ segir Sigurborg. 

Líf Sigurborgar breyttist mikið þegar hún varð mamma. Hún lýsir því sem hennar stærsta þroskastökki og á einni nóttu fer allt að snúast um líf nýja einstaklingsins. 

Kynferðisofbeldi frá unglingsárunum hafði mikil áhrif

„Samkvæmt læknisskýrslum gekk fyrri fæðingin mjög vel. En það var ekki mín upplifun. Mig grunaði aldrei að fyrri áföll í lífinu gætu haft áhrif á fæðinguna, en það var því miður raunin,“ segir Sigurborg. Hún fæddi Svein Jörund á Akranesi. Fæðingin gekk vel framan af, hríðarnar reglulegar og nokkuð harðar og valdi hún að fá mænudeyfingu. 

„Hún hjálpaði mér gríðarlega mikið og var í raun forsenda þess að ég komst í gegnum þetta allt. En undir lokin var deyfingin farin að minnka mikið og vakthafandi lækni fannst fæðingin ekki ganga nógu hratt. Hann skoðaði mig og komst að því að höfuðið sat fast á lítilli brún í fæðingarveginum og hann losaði um hana,“ segir Sigurborg. Í kjölfarið upplifði hún að höfuðið hefði komið niður með þungu höggi og fann hún hvernig hún missti stjórn á aðstæðum.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir gengur nú með sitt þriðja barn.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir gengur nú með sitt þriðja barn.

„Ég átti að byrja að rembast á sama tíma og ég var viss um að ég myndi látast af þessum gríðarlega sársauka sem ég upplifði. Ég man bara að ég öskraði mig einhvern veginn í gegnum hríðarnar á sama tíma og ég var tryllt af hræðslu. Hrædd við sársaukann og hrædd við að upplifa að ég hefði enga stjórn á því sem var að koma fyrir mig og líkama minn.“

Í þessum aðstæðum helltust yfir hana áföll sem hún hafði upplifað fyrr á lífsleiðinni. „Ég hafði verið í slæmu sambandi þegar ég var 16 ára og upplifði ítrekað að brotið væri á mér kynferðislega. Því upplifði ég fæðinguna sem sambærilegar aðstæður, að verið væri að misþyrma líkama mínum gegn mínum eigin vilja. Ég vissi ekki að þetta gæti gerst, að fæðingin gæti triggerað endurupplifun á verstu stundum lífs míns,“ segir Sigurborg. 

En það var það sem gerðist. Þegar hún fékk son sinn í hendurnar tengdi hún engan vegin við hann. „Mér fannst þetta ekki vera mitt barn og ljósmóðirin hefði alveg eins getað rétt mér folald. Ég skildi ekki að þetta barn hefði verið inni í mér og væri mitt. Þetta hafði djúpstæð áhrif á samband mitt við fyrsta barnið mitt og gerir enn í dag. Í kjölfarið fékk ég alvarlegt fæðingarþunglyndi þar sem hræðilegar hugsanir leituðu á mig alla daga, bæði um að ég gæti skaðað sjálfa mig og barnið mitt.“

Líf fjölskyldunnar breyttist mikið þegar Sigurborg lét af störfum í …
Líf fjölskyldunnar breyttist mikið þegar Sigurborg lét af störfum í borgarstjórn í vor.

Þorði ekki að segja neinum

Sigurborg faldi þessar hugsanir og þorði ekki að segja sálu frá. Hún sagði öllum að hún hefði það gott, það væri yndislegt að vera mamma og að barnið hennar væri dásamlegt. 

„„Móður og barni heilsast vel” var skrifað á alla samfélagsmiðla en mér leið djöfullega. Ég laug að öllum og kannski mest að sjálfri mér. Ég fór meira segja í skimun fyrir fæðingarþunglyndi en þar sem ég sá hvaða svör væru „slæmu svörin“ passaði ég mig að haka ekki við þau. Þó svo að þau ættu best við mig. Allt til að fela það að ég elskaði ekki barnið mitt eins og ég átti að gera. Þetta fylgdi mér í mörg ár og mótaði mikið samband mitt við fyrsta barnið mitt.“

Þegar hún varð ólétt að sínu öðru barni ákvað hún loksins að segja ljósmóðurinni frá fæðingarþunglyndinu. Ljósmóðirin skráði hana strax í FMB teymið (Fæðing - Móðir - Barn) hjá Landspítalanum. „Þar fékk ég loks að tjá mig um allt það sem ég hafði upplifað með fyrra barn, ég fékk ómetanlega fræðslu um félagslegan og líffræðilegan þroska ungbarna á sama tíma og þetta var hópavinna með öðrum mæðrum sem allar höfðu sínar eigin sögu. Þannig deildum við sögum okkar og sársauka með hvor annarri og undraverðir hlutir gerðust samhliða. Við veittum hvor annarri óendanlegan styrk og skilning. Uppfrá þessu hófst mitt bataferli. Þökk sé þessu frábæra teymi.“

Þekkir sjálfa sig betur

Hennar önnur fæðing gekk svo eins og í sögu. Freyr Völundur kom í heiminn á Landspítalanum við Hringbraut hvar hún upplifði mikla ró og fagmennsku. Hún valdi aftur að fá mænudeyfingu þar sem hún vissi að hún átti erfitt með að höndla líkamlegan sársauka. „Ég þekki sjálfa mig betur og maðurinn minn einnig. Þannig var hann líka mjög meðvitaður um hvernig fyrri fæðingin hafði farið og var ótrúlega styðjandi og með allar mínar óskir um fæðinguna á hreinu,“ segir Sigurborg. 

Litli drengurinn kom út í tveimur rembingnum. Eftir fyrri rembinginn kom í ljós að naflastrengurinn var vafinn um hálsinn en það virtist ekki hafa haft nokkur áhrif. Eftir seinni rembinginn var hann kominn í heiminn. „Mér fannst hann undurfagur um leið og ég sá hann. Það fyrsta sem ég hugsaði var: „Mikið sem ég hef saknað þín elsku barn.“ Kannski skrítin hugsun þegar þú ert að hitta barnið þitt í fyrsta skipti en þetta var engu að síður það sem kom fyrst í huga minn. Ég var fljót að ná mér eftir fæðinguna, brjóstagjöfin gekk afskaplega vel og ég upplifði fullkomna tengingu við þetta barn og hef ávallt gert síðan.“

Hún segir að tíminn hafi kennt henni að sem foreldri þarf ekki að elska bæði börnin sín eins. „Því þau eru ekki eins. Ég hef unnið mikið með bæði sálfræðingum og geðlækni í því að rækta tengslin við fyrra barnið mitt og ég finn í dag að ég elska þá báða ólíkt en undurheitt. Og það má. Það má tengjast börnunum sínum á ólíkan hátt.“

Vill vera hlý mamma

Þegar Sigurborg er spurð hvernig mamma hún vill vera segist hún vilja vera hlý og afslöppuð. Hún vill að börnin upplifi að þau geti alltaf leitað til hennar og að hún muni hlusta á þau. „Ekki dæmi þau heldur hlusta og hjálpa. Ég ólst sjálf upp við mömmu sem var alltaf með opin arminn og faðmaði okkur systkinin alla daga. Hún hvíslaði líka alltaf einhverjum fallegum orðum í eyrað á mér sem enginn annar heyrði. Þannig mamma vil ég vera,“ segir Sigurborg. 

Í uppeldinu leitast hún við að ala syni sína upp sem sjálfstæða einstaklinga. „Þegar ég hugsa málið tel ég að frelsi og sjálfstraust séu grundvallaratriði sem ég reyni að innræta börnunum mínum. Það er ákveðin sjálfsbjargarviðleitni sem foreldrar geta ýtt undir. Til dæmis eru öll glös og diskar staðsett þannig að strákarnir okkar geti bjargað sér sjálfir ef þeir eru þyrstir eða svangir. Einnig raða ég í ísskápinn þannig að þeir geti sjálfir náð í matinn. Ég hef heldur aldrei alið þá upp við að skutla þeim eitt né neitt. Þeir eiga sín eigin rafmagnshjól og fara allar sínar leiðir sjálfir hér á Húsavík,“ segir Sigurborg og segir að eldri drengurinn hafi gert það sama í Reykjavík þegar þau bjuggu þar. 

„Ég sé nefnilega að um leið og ég sýni börnunum mínum að ég treysti þeim fara þau að treysta sér sjálf.“

Lítill drengur er væntanlegur í heiminn í byrjun desember.
Lítill drengur er væntanlegur í heiminn í byrjun desember.

Munur að ganga með þriðja barnið

Lítill drengur er væntanlegur í heiminn í byrjun desember á þessu ári. Sigurborg segir að líkamlega finni hún meira fyrir meðgöngunni í þetta skipti. Hún var 24 ára þegar hún gekk með sitt fyrsta barn og nú er hún 37 ára. Hún segir allt öðruvísi og mikið erfiðara.

„Ég er einnig að reyna að vinna mig út úr veikindum á sama tíma og ég er ólétt. Það hefur reynst ansi snúið þar sem margt verður svo miklu erfiðara þegar þú ert ólétt. Ég hef verið með talsverða ógleði, samdrætti og grindargliðnun á þessari þriðju meðgöngu. Ekkert af þessu angraði mig á fyrri tveim meðgöngunum en síðustu mánuði hef ég farið til sjúkraþjálfara í æfingar þrisvar í viku og í sundleikfimi tvisvar í viku. Það hefur hjálpað mér gríðarlega mikið, minnkað almenna verki, aukið styrk og grindargliðnunin er nánast horfin,“ segir Sigurborg en upplifun margra kvenna er að þessir hlutir versni eftir því sem líður á meðgönguna. 

Með þolinmæði og hjálp sjúkraþjálfara hefur Sigurborgu þó tekist að bæta ástandið. „Núna þegar stutt er í fæðingu reyni ég að njóta hverrar mínútu. Það er ekki alltaf auðvelt en ég veit að þetta verður mín síðasta meðganga og því vil ég njóta þess kraftaverks eins vel og ég get. Ég veit að ég mun sakna þess að vera ólétt,“ segir Sigurborg. 

mbl.is