Dóttirin með en engin Megan

Machine Gun Kelly ásamt dóttur sinni á American Music Awards …
Machine Gun Kelly ásamt dóttur sinni á American Music Awards verðlaunahátíðinni sem fram fór síðastliðið sunnudagskvöld. AFP

Athygli vakti um liðna helgi að tónlistarmaðurinn Machine Gun Kelly mætti með tólf ára dóttur sinni, Casie Colson Baker, á rauða dregilinn á Bandarísku tónlistarverðlaununum en ekki kærustunni, ofurfyrirsætunni Megan Fox.

Machine Gun Kelly og Megan Fox hafa verið límd saman upp á síðkastið og því vakti það furðu að hún skyldi ekki slást í för með feðginunum. Fréttamiðillinn People greindi frá. Virðist það nokkuð vinsælt meðal stjarnanna að taka börnin með á viðburði þessa dagana.

Bandarísku tónlistarverðlaunin voru afhent í Los Angeles um liðna helgi. Rapparinn virtist skemmta sér vel með dóttur sinni en þau grínuðust og göntuðust á milli þess sem þau stilltu sér upp fyrir ljósmyndarana á svæðinu. Feðginin voru klædd í stíl en Casie var í grófum svörtum síðkjól og leyfði náttúrulega krulluðu hárinu að njóta sín. Pabbinn klæddist svartri skyrtu sem var þakin perlum og göddum og öðru skrauti með rokkaralegu ívafi, en Machine Gun Kelly hreppti titilinn „besti rokkari ársins“ á verðlaunahátíðinni.

Machine Gun Kelly, réttu nafni Colson Baker, á dótturina Casie með fyrrverandi kærustu sinni, Emmu Cannon. Þegar þau kynntust voru þau á táningsaldri en hann var aðeins 18 ára þegar Casie kom í heiminn. 

mbl.is