Óumbeðin uppeldisráð trekk í trekk

Khloe Kardashian.
Khloe Kardashian. Tímaritið Health

Raunveruleikastjarnan Khloé Kardashian segist fá fjöldann allan af óumbeðnum uppeldisráðum í hvert skipti sem hún birtir myndir eða myndskeið af þriggja ára dóttur sinni á samfélagsmiðlum. Þessi afskiptasemi í netverjum er farin að fara svolítið í taugarnar á henni.

Kardashian á dótturina True með körfuknattleiksmanninum Tristan Thompson en þau slitu samvistum fyrr á árinu. 

„Ég hef lært að það skiptir engu máli hverju ég deili; fólk mun alltaf finna eitthvað til að setja út á og segja klikkaða hluti,“ sagði Kardashian samkvæmt frétt frá People. „Ég man eitt skipti þegar ég deildi myndbandi af henni borða vínber og allir voru að segja mér að skera vínberin í tvennt svo að barnið myndi ekki kafna. Þau voru skorin í tvennt einmitt af því að ég vil ekki að barnið mitt kafni,“ sagði hún jafnframt. 

Segist hún reyna að halda því sem varðar True eins skýru og einföldu og hún getur en samt sem áður finna netverjar sig knúna til þess að gagnrýna hana og uppeldisaðferðir hennar. „Ég vil ekki þessa neikvæðu orku á barnið mitt  látið hana bara í friði,“ sagði Kardashian, sem er orðin hundleið á þessum aðfinnslum.

mbl.is