Var ólétt þegar hún missti vinnuna og íbúðina

Viktoría Rós Jóhannsdóttir og sonur hennar Óliver Hrafn Hansen.
Viktoría Rós Jóhannsdóttir og sonur hennar Óliver Hrafn Hansen.

Hin 24 ára gamla Viktoría Rós Jóhannsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Óliver Hrafn Hansen, fyrr á þessu ári. Viktoría ætlaði sér ekki endilega að verða móðir og varð mjög hrædd þegar hún komst að því a hún ætti von á barni. 

Viktoría er einstæð móðir og heldur úti hlaðvarpinu Einstæð. Þar fjallar hún um líf einstæðra foreldra og leggur áherslu á að sýna hversu mismunandi líf einstæðra foreldra getur verið. 

„Ég varð mjög hrædd þegar ég komst að því að ég væri ólétt. Ég var eiginlega ekki alveg að trúa því og varð svo auðvitað mjög smeyk því það voru tveir feður sem komu til greina, þannig að þetta var mjög mikill tilfinningarrússíbani,“ segir Viktoría en hún bíður nú eftir niðurstöðu faðernisprófs til að komast að því hver er faðir Ólivers litla. 

Viktoría segir að hana hafi ekki dreymt um að verða móðir og miklu frekar séð sjálfa sig fyrir sér sem skemmtilegu frænkuna. Hún segir að margt hafi komið henni á óvart þegar hún varð móðir, þá sérstaklega hversu mikið hún elskar litla drenginn sinn. „Þetta er eitt magnaðasta hlutverk í heimi, ég hélt ég gæti aldrei elskað neinn svona mikið og ég held að ég muni aldrei elska neinn jafn mikið og strákinn minn. Hann er stóri heimurinn minn og snéri lífi mínu við,“ segir Viktoría. 

Viktoría elskar engan heitar en son sinn, Óliver Hrafn.
Viktoría elskar engan heitar en son sinn, Óliver Hrafn.

Langar ekki í annað barn

Meðgangan gekk vel, en þó ekki áfallalaust fyrir sig. Þegar hún var ólétt missti hún vinnuna og þar af leiðandi missti hún leiguíbúðina sína. „Þetta gerðist eiginlega allt sömu vikuna og þegar ég komst að því að ég væri ólétt. Ég þakka covid alveg fyrir það,“ segir Viktoría og hlær.

Viktoría fæddi litla drenginn sinn heima hjá móður sinni, þar sem hún ólst upp. „Mig langaði að vera á stað sem mér leið vel og umkringd mínu besta fólki. En ég er alveg föst á því að mig langar samt ekki að eignast annað barn, þó allt hafi gengið vel þá er þetta ógeðslega erfitt og vont,“ segir Viktoría. 

Þegar Viktoría var ólétt ákvað hún að byrja með hlaðvarpsþættina sína Einstæð því hana langaði að vekja athygli á raunveruleika einstæðra foreldra. „Því við erum öll með mismunandi sögur. Ég sjálf er að ganga í gegnum það að fara í faðernispróf og það eru fleiri þarna úti sem hafa gengið í gegnum það sama og eru að ganga í gegnum það. En enginn ræðir þessa hluti því maður verðir dæmdur svo harkalega fyrir það. Maður verður eiginlega stimplaður sem „drusla“,“ segir Viktoría. 

Líf einstæðra foreldra getur verið erfitt.
Líf einstæðra foreldra getur verið erfitt.

Einstæðir foreldrar þurfi að passa upp á heilsu sína

„Markmiðið mitt er bara að sýna hvað allir eru að ganga í gegnum mismunandi hluti. Hvernig fer maður að því að hugsa um sig og svo lítið kríli ofan á allt? Að borga leigu, hita, rafmagn, allskonar reikninga, reyna að vinna sem mest en samt líka eyða tíma með barninu sínu. Þetta er alls ekki auðvelt djobb og hvað þá þegar maður er ein/einn að sjá um allt. Og við getum nú alveg viðurkennt það að borga leigu er ekki ódýrt og sumir eru alls ekki það heppnir að fá föt, vagn, bílstól eða neitt svona gefins frá öðrum því það er heldur ekki ódýrt,“ segir Viktoría. 

Viktoríu finnst mikilvægt að sýna að aðstæður einstæðra foreldrar eru misjafnar en á sama tíma eiga þeir margt sameiginlegt og hafa mörg hver gengið í gegnum það sama. „Þetta er nefnilega svo mismunandi hver hver og einn gengur í gegnum. Sumir eru með frábært bakland, sumir ekki, sumar konur eru ekki með barnsföður. Sumar eru með frábær tengsl við barnsföður. Barnið grætur alltaf og vill láta halda á sér, en kannski annað barn sem getur setið og leikið sér. Þetta er allt svo mismunandi. Að vera ein eða einn að gefa því að borða, vaka á nóttunni því barnið sefur ekki sem væri kannski „auðveldara“ ef það væru tveir foreldrar að skiptast á,“ segir Viktoría. 

Hún segir það mikilvægt fyrir einstæða foreldra að hugsa líka að fá tíma út af fyrir sig og passa upp á sína einu heilsu, því auðvitað reyni það á að hugsa um lítið barn.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið Einstæð á hlaðvarpsvef mbl.is sem og öðrum streymisveitum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert