Fékk fréttirnar af tvíburunum í myndsímtali

Andrea Gestsdóttir og Jónas Már Torfason á skírnardag dætra sinna, …
Andrea Gestsdóttir og Jónas Már Torfason á skírnardag dætra sinna, Ölmu Jóhönnu og Vigdísar Sölku.

Lögfræðingurinn Jónas Már Torfason og sambýliskona hans, læknaneminn Andrea Gestsdóttir eignuðust tvíburadætur fyrr á þessu ári. Líf þeirra hefur eðlilega breyst mjög mikið eftir fæðingu dætranna og segir Jónas að það sé augljóst að enginn komi óbreyttur út úr því að eignast börn. 

Jónas og Andrea og dæturnar Alma Jóhanna og Vigdís Salka búa nú í Danmörku. Þar leggur Andrea stund á læknisfræði og Jónas hefur störf í banka- og fjármögnunarteymi dönsku lögmannsstofunnar Plesner eftir áramót. 

„Við Andrea komumst að því að við ættum von á barni stuttu eftir að hún flaug út til Danmerkur, en fyrir fæðingu barna okkar höfðum við verið í fjarbúð meira eða minna allt okkar samband. Ég var sum sé á Íslandi og hún í Danmörku. Andrea fór í snemmsónar stuttu eftir að hafa fengið jákvætt þungunarpróf og ég fékk að vera með í myndsímtali,“ segir Jónas í viðtali við barnavef mbl.is. 

„Það var í raun ekki fyrr en í lok sónarsins sem ljósmóðirin sýndi okkur alla myndina og sagði okkur að börnin yrðu tvö.

„Andrea varð orðlaus við tíðindin, ein en með mig í símanum. Ég fór hins vegar að skellihlæja, nývaknaður inni í herbergi. Okkur er tíðrætt um þetta augnablik, en hjúkrunarfræðingurinn talaði ensku og sagði í sömu andrá og hún færði til sónarsprotann: „There is just one thing… It looks like they are two!“.“

Faraldurinn lán í óláni

Fyrstu þrjá mánuði meðgöngunnar var Andrea svo í Danmörku en Jónas heima á Íslandi að skrifa lokaritgerð og ljúka áföngum í meistaranámi. „Raunar er það lán í óláni fyrir okkur að þetta gerist allt í miðjum heimsfaraldri. Fyrir vikið var hún komin algjörlega í fjarkennslu þarna um haustið 2020 og gat því komið heim til Íslands nokkuð snemma. Andrea er alveg óstöðvandi, tók þarna tvöfalda önn til að seinka ekki skóla, ólétt með tvíburum og kom sér að í verknámi eftir áramót. Ég var á sama tíma að klára skólann og fór svo að vinna í janúar,“ segir Jónas. 

Á meðgöngunni reyndi hann að tileinka sér það að vera í stuðningshlutverki. Hann tók því að sér fleiri heimilisverk, helstu þrif, matseld og reyndi að lina verki eins og hægt var. „Ég held það geri manni gott að átta sig á að maður er ekki í aðalhlutverki í meðgöngunni og hlutverk manns er bara að auðvelda makanum lífið eftir bestu getu.“

„Matarlystin hjá henni fór öll í skrúfuna eins og vill gerast, svo það var líka í mínum verkahring að elda það sem óskað var eftir, t.d. plokkfisk með bernaisesósu, og sleppa því sem mátti alls ekki fara í matinn, t.d. reykt paprika, sem reyndar má enn þá ekki nota í matseldina.“

Hann segir það hafa verið dásamlegan tíma fyrir hann að fá að fylgjast með Andreu takast á við þetta verkefni og standa sig jafn vel og hún gerði. Hann saknar þess þó að geta strokið kúluna og fundið dætur sínar sparka. 

Jónas segir að lífið hafi breyst mikið eftir að hann …
Jónas segir að lífið hafi breyst mikið eftir að hann varð tvíburapabbi.

Flýttu sér í heiminn

Alma Jóhanna og Vigdís Salka fæddust eftir tæplega 31 vikna meðgöngu og komu því nokkrum vikum fyrir tíman sé miðað við tvíburameðgöngu. Litla fjölskyldan þurfti því að dvelja á vökudeildinni í um mánuð. 

Fæðingin bar nokkuð brátt að en fyrir tilviljun hafði Jónas hætt fyrr í vinnunni þann dag og ákveðið með sjálfum sér að fara pakka í spítalatösku eftir að hann kom heim. Andrea hafði verið með verki um daginn og ákvað að kíkja niður á deild til að kanna orsakir verkjanna.

„Við vorum róleg yfir þessu öllu saman svo ég fór bara að elda, ólétta konan hafði pantað indverskt að borða. Eitthvað leið tíminn og þegar ég er í miðjum klíðum að steikja naan-brauð hringir Andrea og segir að ég eigi að koma niður á spítala, teikn væru fyrir því að mögulega væri komið að þessu. Hún hafði hins vegar tekið bílinn svo tengdamóðir mín kom og sótti mig og nýútbúna tösku fyrir fæðingardeildina. Ég var sennilega kominn upp á fæðingardeild eitthvað um klukkan 21 um kvöld, lyktandi eins og kokkur á indverskum veitingastað,“ segir Jónas. 

Læknar reyndu að tefja fæðinguna eins og hægt var en um klukkan þrjú um nóttina missti Andrea legvatnið og þá var ákveðið að stúlkurnar yrðu teknar með keisaraskurði um morguninn. Þær komur svo heilar á húfi laust fyrir klukkan sjö um morguninn. 

„Að vera á hliðarlínunni við keisaraskurð er sennilega allt annað en að vera á hliðarlínunni við hefðbundna fæðingu. Ég var þarna kominn inn á skurðstofu í allt of þröngum skurðstofufötum. Það var mjög vel passað upp á okkur af starfsfólki spítalans. Enn sem áður leit ég svo á að þarna var ég í stoðhlutverki. Ég reyndi að einbeita mér að Andreu og passa upp á að henni liði sem best,“ segir Jónas. 

„Við höfðum rætt það fyrirfram að ég ætti að fara með stelpunum og Andrea yrði eftir inn á skurðstofu þar til gert hefði verið að henni. Ég fylgdi þeim inn á vökudeild og gekk úr skugga um að allt væri með felldu. Tók nokkrar myndir af stelpunum og hitti Andreu svo þar sem hún var að jafna sig inn á vöknun og var snarlega sendur að sækja þykknisdjús fyrir þyrsta og nýbakaða móður.“

Jónas og Andrea vörðu um mánuði á vökudeildinni með dætrum …
Jónas og Andrea vörðu um mánuði á vökudeildinni með dætrum sínum.

Þakklátur ef tími gefst til að taka til

Jónas tók tvo mánuði í fæðingarorlof eftir fæðingu tvíburanna. Fyrri mánuðinn voru þau á vökudeildinni og þann seinni voru þau komin heim. „Eftir að við komum heim var ég í fæðingarorlofi í mánuð þar til ég fór aftur að vinna, en þar sem ég hafði tekið mér leyfi frá störfum um haustið til að klára námið átti ég ekki rétt á meiru en fæðingarstyrk námsmanna, þrátt fyrir að hafa verið í rúmlega 100 prósent vinnu meira eða minna allt mitt nám. Með íbúðarlán til að borga af er fæðingarstyrkurinn einfaldlega ekki nóg,“ segir Jónas. 

Í september tók hann sér svo aftur fæðingarorlof og verður fram að áramótum þegar hann hefur störf á lögmannsstofunni í Kaupmannahöfn. „Það verða væntanlega mikil viðbrigði fyrir mig og stelpurnar, að fara frá því að vera saman alla daga í að sjást kannski bara á morgnanna, en ég er að hefja störf á krefjandi vinnustað sem er í Kaupmannahöfn, svo ofan á langa vinnudaga bætist ferðalagið á milli Óðinsvéa og Kaupmannahafnar.“

Spurður hvort föðurhlutverkið hafi breytt honum segir hann alveg ljóst að enginn komi óbreyttur út úr því að eignast börn. Skyndilega sé hann farinn að lifa fyrir einhvern annan og allar ákvarðanir litist af því hvað er best fyrir börnin. 

„Óumflýjanlega verður maður agaðri og reynir að nýta tímann sem gefst í eitthvað gagnlegt – maður er þakklátur í marga daga ef tími gefst til að taka almennilega til í íbúðinni. Eins hellist yfir mann sérkennilega blanda af tilhlökkun og áhyggjum fyrir framtíðinni. Það er bæði ótrúlega gaman og gefandi að sjá börnin sín þroskast og dafna en á sama tíma finnst manni tíminn líða allt, allt of hratt.“

Alma Jóhanna og Vigdís Salka flýttu sér heiminn.
Alma Jóhanna og Vigdís Salka flýttu sér heiminn.

Grínast með að dæturnar verði ráðherrar framtíðarinnar

Jónas segir að það sem hafi komið honum mest á óvart sé hversu ástin fyrir börnunum er sterk. „Maður hefur heyrt fólk tala um skilyrðislausa ást og ég hafði aldrei almennilega trúað því að tilfinningarnar væru raunverulega svona sterkar. En svo gerist þetta og maður er sjálfur alveg heltekinn, allt í einu eru komnar þarna tvær litlar lífverur sem taka allan manns huga og hjarta,“ segir Jónas. 

Þær Alma Jóhanna og Vigdís Salka eiga sterkar fyrirmyndir í sínu næsta umhverfi en amma þeirra, og móðir Jónasar er Dr. Alma Möller landlæknir. Spurður að því hvað hann langi helst til að kenna dætrum sínum í framtíðinni segist Jónas fyrst og fremst vilja ala upp einstaklinga sem verða hamingjusamir og bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. „Þó svo að maður grínist um að þetta séu framtíðarráðherrar er raunin sú að mér gæti ekki verið meira sama hvað þær taka sér fyrir hendi svo lengi sem þær eru hamingjusamar,“ segir Jónas.

mbl.is