„Hún er skráð faðir víðs vegar í kerfinu“

Sæt fjölskylda. Írena Dís, Fanney og Úlfur Esra.
Sæt fjölskylda. Írena Dís, Fanney og Úlfur Esra. Ljósmynd/Aðsend

Félagsliðarnir og sambýliskonurnar Írena Dís Jóhannesdóttir Tórshamar og Fanney Gunnarsdóttir höfðu þekkst um árabil áður en þær viðurkenndu að þær væru hrifnar hvor af annarri. Í ár eru rúmlega fjögur ár síðan þær opinberuðu ástarsamband sitt fyrir vinum og vandamönnum en árið 2019 ákváðu þær að hefja búskap saman. Hápunktur sambands þeirra var svo fyrir tíu mánuðum þegar sonur þeirra, Úlfur Esra, kom í heiminn.

„Við höfum lengi vitað af hvor annarri en við vorum mikið á skemmtistaðnum Barböru á sínum tíma, sem er skemmtistaður í miðbænum fyrir hinsegin fólk,“ segir Írena. „Barbara var stór hluti af lesbíu samfélaginu á þeim tíma. Þá var ekkert Tinder til eða neitt svoleiðis þannig maður þurfti bara að gjöra svo vel að mæta á staðinn til þess að reyna við stelpur,“ útskýrir hún enn fremur.

„Við kynntumst svo betur í gegnum þáverandi kærustur okkar þegar við vorum um 22 ára aldurinn en þær voru bestu vinkonur. Við vorum því ágætis vinkonur í einhver ár áður en við byrjuðum saman. Samt aldrei þannig að við vorum tvær að hanga saman en okkur þótti hvor önnur rosalega skemmtileg og fundum strax báðar hvað við tengdumst vel og skildum hvor aðra. Það má því segja að við höfðum verið skotnar í hvor annarri í langan tíma án þess kannski að gera okkur grein fyrir því eða þora að viðurkenna það. Árið 2017 vorum við svo báðar á lausu og ákváðum að láta reyna á samband en við bjuggum í sitthvoru lagi fyrstu tvö árin. Svo flutti ég inn til Fanneyjar áður en við keyptum okkur íbúð saman fyrir rúmu ári síðan, en þá var ég orðin ólétt,“ segir Írena.

Fanney og Írena höfðu þekkst lengi vel áður en þær …
Fanney og Írena höfðu þekkst lengi vel áður en þær viðurkenndu að þær væru skotnar hvor í annarri. Ljósmynd/Aðsend

Dagdraumur um móðurhlutverkið

Barneignir í samkynhneigðum samböndum gerast öllu jafna ekki á jafn einfaldan máta og í þeim gagnkynhneigðu. En á bakvið hvers kyns kynhneigð liggur oft á tíðum mjög víðtækt samspil tilfinninga þar sem samskipti, samvera, traust, virðing og kynlíf skipa stóran sess og eru eins konar lím í eðlilegum ástarsamböndum. Írena segist alltaf hafa hugsað um sjálfa sig sem móður, það hafi alla tíð verið eitthvað sem hún hefur þráð. Á Íslandi hefur samkynhneigðum konum verið veitt heimild til að gangast undir tæknifrjóvgun og þeim gert kleift að ganga með og eignast börn. En þá getur verið vandasamt fyrir samkynhneigðar konur að ákveða hvor þeirra eigi að ganga með barnið. 

„Mig hefur alltaf langan í barn síðan ég var sjálf barn. Ég hef eytt miklum tíma í dagdrauma tengdum móðurhlutverkinu í gegnum tíðina. Þeir sem þekkja mig vita hvað ég hef þráð þetta lengi og mikið. Ég er viss um að ég hefði orðið ung móðir ef ég væri ekki samkynhneigð því þetta gerist ekki svo auðveldlega í samkynja samböndum,“ segir Írena.

„Ég hélt alltaf að mig langaði ekki í börn,“ segir Fanney. „Og uppgötvaði í raun að ég hafði enga ákveðna tilfinningu fyrir því að langa að ganga með barn. Ég sá það alls ekki fyrir mér og fannst það ekki vera eitthvað sem væri fyrir mig,“ greinir hún frá. 

„En þegar Fanney fattaði að hún gæti í rauninni eignast barn án þess að ganga með það, þá þráði hún það mikið,“ bætir Írena við. „Þess vegna hentar þetta okkur vel, ég er sjúk í að ganga með börn en Fanney ekki, þá þarf ekkert að ræða þetta neitt frekar í rauninni. Við vissum að það væri hægt að gera þetta þannig að egg úr Fanneyju væri frjóvgað og svo sett upp hjá mér. Það var aldrei spurning hjá okkur að gera þetta á annan hátt, við vildum gera þetta svona,“ segir Írena. 

Gleðitíðindin opinberuð.
Gleðitíðindin opinberuð. Ljósmynd/Aðsend

Líffræðilega er litli Úlfur Esra genatengdur Fanneyju þó svo að Írena hafi gengið með hann og komið honum í heiminn. Sættust þær báðar á þessa tæknifrjóvgunar aðferð strax í upphafi enda sé mikilvægt að samkynhneigðar mæður sem deila móðurhlutverkinu geti báðar upplifað sig einhvers verðugar í því samhengi.

„Við byrjuðum í meðferð í mars 2020. Keyptum sæði frá Danmörku og ég fór hormónameðferð og svo í eggheimtu,“ segir Fanney. „Við fengum sex góða fósturvísa sem við létum geyma í frystu og ætluðum að láta á þetta reyna eftir giftingu en það stóð til að gifta okkur í júní 2020.“

„Okkur varð svo ljóst að við þyrftum að afbóka giftinguna útaf ástandinu í heiminum og tókum þá ákvörðun um að bæta okkur það upp með því að láta reyna á þetta fyrr en áætlað var að eignast barn,“ segir Írena. „Það gekk brösulega fyrst hjá mér að fá egglos og því þurfti ég líka að fara í hormónameðferð en ég hafði loksins egglos í byrjun júlí 2020 og þá gátum við látið setja fósturvísi upp hjá mér,“ segir hún.

„Við bjuggumst við að þurfa að reyna í nokkur skipti en svo virtist ekki vera þar sem Írena varð ólétt strax við fyrstu tilraun,“ segir Fanney. 

Skráð faðir í kerfinu

Litla kraftaverkið, Úlfur Esra, kom í heiminn sex vikum fyrir tímann þann 10. febrúar á þessu ári. Segja þær Írena og Fanney að starfsfólk spítalans hafi reynst sér ótrúlega vel en Úlfur þurfti að dvelja á vökudeild um nokkurt skeið. 

„Mér finnst svo óendanlega fallegt að hafa getað gengið með barn sem er genatengt Fanneyju og fá að gefa því brjóst og allt þetta. Mér þykir svo vænt um að Fanney hafi getað komið með sín gen inn í fjölskylduna,“ segir Írena þakklát. “Við fengum rosalega gott viðmót á spítalanum og á vökudeildinni sem tvær mömmur að eignast sitt fyrsta barn saman. Þar voru flestir, ef ekki bara allir, að reyna að gera sitt besta í að breyta gömlum viðhorfum,“ segir Írena en þær hafa þó lent á einhverjum veggjum í kerfinu sökum þess að vera samkynhneigðar konur í barneignarferli. 

„Fanney fékk til dæmis ekkert frá Fæðingarorlofssjóði fyrstu mánuðina vegna þess að við þurftum að sanna það að hún væri einnig móðir barnsins. Okkur datt ekki í hug að það væri eitthvað sem við þyrftum að gera en svo virtist vera. Fanney er líka skráð sem faðir víðs vegar í kerfinu,“ segir hún jafnframt.

Þær segja að fjölskylduform þeirra, sem tvær mæður að ala upp lítinn dreng saman, ætti að vera jafn eðlilegt og hvert annað fjölskylduform. Í huga þeirra snýst þetta ekki um kynhneigð hvers og eins eða hvernig elskendur para sig saman heldur þurfi kerfið að laða sig að breyttum viðhorfum og gildum sem áður hefur verið ríghaldið í. 

„Þetta verður bara algengara og algengara með tímanum. Við erum ekki eina samkynhneigða parið,“ segir Írena.

Óléttubumban fer Írenu einstaklega vel.
Óléttubumban fer Írenu einstaklega vel. Ljósmynd/Aðsend/Helgi Tórshamar

Upplýsing mikilvæg í uppeldinu

„Við munum reyna að gera okkar besta í að fræða son okkar um annars konar fjölskyldumynstur en það sem hann kemur til með að alast upp við. Það á til dæmis ekki að vera neitt tabú í hans huga að það séu til pabbar,“ bendir Írena á. „Við munum útskýra fyrir honum að fjölskylduform eru jafn misjöfn og þau eru mörg og að sum börn eigi mömmu og pabba, sumir eiga bara mömmu eða pabba, og enn aðrir eiga tvo pabba eða tvær mömmur. Svo ekki sé minnst á stjúpforeldra og svona líka,“ segir Írena. 

Þegar þær Írena og Fanney eru spurðar út í leik- og grunnskólagöngu Úlfs Esra og þá daga sem eru frábrugðnir hefðbundnum skóladögum og tengjast annað hvort mæðrum eða feðrum segjast þær ekki hafa áhyggjur af þeim dögum. Tíðkast hefur til fjölda ára að börn á leik- og grunnskólaaldri bjóði feðrum sínum til dæmis í skólann á Bóndadaginn og svo eru aðrir dagar tileinkaðir mæðrum, eins og Konudagurinn. Þessar hefðir setja þær ekki fyrir sig.

 „Við vissum svo sem ekki að þetta tíðkaðist en eins og áður sagði þá komum við til með að útskýra þetta allt fyrir syni okkar. Það kæmi okkur ekki á óvart að fleiri börn í leikskólanum muni eiga samkynhneigða foreldra. Svo eigum við samkynhneigðar vinkonur sem eiga börn á hans aldri og vonumst við eftir því að hann muni aldrei upplifa sig einan á báti. Svo eru til bækur sem útskýra þessar ólíku fjölskyldu samsetningar, eins og til dæmis bókin Vertu þú, eftir hjónin Ingileif og Maríu og hana eigum við eftir að lesa og jafnvel gefa leikskólanum eintak ef þurfa þykir og ef hún verður ekki þá og þegar til þar,“ segir Írena.

Úlfur Esra fæddist sex vikum fyrir tímann, en mannalegur er …
Úlfur Esra fæddist sex vikum fyrir tímann, en mannalegur er hann. Ljósmynd/Aðsend

„Kannski væri bara betra að hafa foreldra-daga í stað þess að kyngera þá eitthvað frekar. Það eru jú líka margir sem eiga bara mömmu þó að hún sé ekki samkynhneigð. Við höfum mikinn skilning fyrir þessu öllu saman en samt sem áður eru margar úreltar hefðir í gangi í samfélaginu okkar og oft eru þær ekki byggðar á fordómum heldur fáfræði,“ segir Írena jafnframt. „Við höfum til dæmis fengið spurningar frá fólki um það hvernig pabbi hans Úlfs Esra líti út þegar fólk er raunverulega að reyna að spyrja út í sæðisgjafann. Fólk notar orðið pabbi vegna þess að það kann ekki annað, það hefur alltaf tíðkast en fólk er fljótt að átta sig á því þegar við leiðréttum það.“

Skoðanir og hugmyndir þeirra á aðferðum barnauppeldis eru af sama meiði. Vilja þær meina að mikill munur sé á uppeldisaðferðum foreldra á milli kynja. Það sé tímaskekkja sem foreldrum væri hollt að líta til.

„Karlmennsku ímyndin er enn til staðar og hefur litað uppeldi drengja til langs tíma litið. Sömuleiðis er það enn svolítið þannig að stelpur eigi að vera svo stilltar og prúðar. En auðvitað hefur þetta verið að breytast hægt og bítandi. Þetta með litina, eins og bleikur litur er alltaf ætlaður stelpum og blár strákum. Við höfum aldrei skilið hvers vegna strákar megi ekki leika sér með dúkkur, til dæmis, eða stelpur með bíla. Strákar munu líka eignast börn og stelpur koma til með að keyra bíl í framtíðinni. Eða alla vega langflestir,“ segja þær Írena og Fanney að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert