Johnson orðinn sjö barna faðir

Boris og Carrie Johnson eignuðust stúlku í dag.
Boris og Carrie Johnson eignuðust stúlku í dag. AFP

Carrie Johnson, eiginkona Boris Johnsons forsætisráðherra Bretlands, fæddi litla stúlku nú í morgun. Er Johnson því orðinn sjö barna faðir. Er þetta þeirra annað barn saman en þau eignuðust soninn Wilfred í apríl á síðasta ári. 

Hjónin gengu inn á spítala í miðborg London klukkan 7:40 að staðartíma í morgun, um tveimur klukkustundum eftir að öryggisverðir komu á spítalann til að tryggja vettvang. Þau tilkynntu fæðingu dóttur sinnar nú fyrir stuttu og sögðu móður og barni heilsast vel. Þau þökkuðu starfsmönnum NHS fyrir góða þjónustu.

Öll spjót standa nú á forsætisráðherranum breska vegna meintrar jólaveislu sem haldin var í Downingstræti 10 fyrir síðustu jól. Á jólaveislan að hafa farið fram hinn 18. desember þar sem fleiri en 50 manns komu saman. Á sama tíma voru strangar samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldursins. 

Hefur Allegra Stratton, þáverandi talsmaður Johnsons, sagt af sér vegna myndbands þar sem hún gerir grín að jólaveislunni.

Johnson viðurkenndi í fyrsta skipti, fyrr á þessu ári, að hann ætti vissulega sex börn. Börn­in Lara, Milo, Cassio og Theodore á hann með fyrr­ver­andi eig­in­konu sinni Mar­inu Wheeler. Hann á einnig dótturina Stephanie, en hana átti hann utan hjónabands þegar hann hélt fram hjá eiginkonu sinni árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert