Gafst ekki upp á föðurhlutverkinu

Björn Grétar Baldursson er tveggja barna faðir.
Björn Grétar Baldursson er tveggja barna faðir.

Björn Grétar Baldursson, flugumferðarstjóri og fjölskyldufaðir, gafst ekki upp þegar á móti blés í föðurhlutverkinu fyrstu árin. Hann hefur unnið markvisst að því að eiga gott samband við börnin sín Jökul Loga og Iðunni Blæ. Með hjálp konu sinnar, Jennýjar Láru Arnórsdóttur, og fagfólks hefur hann tekið meiri ábyrgð í fjölskyldulífinu. Björn heldur úti vinsælli instagramsíðu sem heitir Pabbalífið þar sem hann gerir föðurhlutverkið sýnilegra á samfélagsmiðlum. 

„Mig langaði alltaf í börn en ég held að ég hafi í fyrstu ekki verið tilbúinn í það. 24 ára gamall vissi ég í raun ekki hvað ég var að fara út í. Hugmyndir um fjölskyldulíf voru takmarkaðar þótt ég ætti æðislegar fyrirmyndir sem eru foreldrar mínir. Mitt hlutverk var að vinna og sjá fyrir fjölskyldunni. Þegar kom að því að kynna sér uppeldisaðferðir, gleymdu því að ég nennti því,“ segir Börn. 

Birni fannst eins og að eldra barnið hans þyrfti ekkert á föður sínum að halda þegar hann var ungbarn. Björn taldi að hann kæmi bara inn í myndina seinna meir. 

„Það tók mig smá tíma að átta mig á hvert mitt hlutverk var í raun og veru. Það er ekki fyrr en við förum á námskeið hjá Kristínu Maríellu um uppeldið með virðingu þar sem hjólin fara að snúast. Þegar Jenný er svo ólétt að Iðunni fer ég aðeins að skoða mitt hugarfar og fer að fylgja instagramreikningum á borð við Karlmennskan og Kviknar, byrja að lesa og hlusta. Það er óhætt að segja að eftir að ég eignaðist Iðunni tók lífið næsta stökk. Ég fór að átta mig á ábyrgðinni sem fylgir því að eiga barn fyrir utan þá lágmarksábyrgð að halda því á lífi. Að skipuleggja innkaup, sjá til þess að föt séu hrein og allt sé í lagi,“ segir Björn. 

„Að vera faðir felur í sér að vera til staðar, alltaf. Geta hlaupið í öll störf. Að vera kennari, ræstitæknir, kokkur, hjúkrunarfræðingur og margt fleira. Í raun þarf maður að vera allt það sem móðirin er því við erum jú liðsfélagar.“

Fyrsta skrefið var að hlusta

Björn segir aldrei of seint að breyta og bæta sig. Hann var í námi þegar frumburður hans kom í heiminn og segir að þegar hann fór loksins í fæðingarorlof hafi hann ekki strax myndað tengsl við son sinn. 

„Ég tók ekki fæðingarorlof strax heldur var ég að klára námið í flugumferðarstjórn sem var mjög krefjandi. Námið tók alla mína athygli og tók Jenný þá mestu ábyrgðina og álagið af fyrsta árinu. Þegar ég svo loksins tók fæðingarorlof var Jökull orðinn 16 mánaða og upplifði ég aldrei þessa tilfinningu „vá ég er pabbi“. Þetta var næstum því bara barn sem ég var að passa. Vegna álags og stress átti ég líka mjög erfitt með tilfinningar mínar.

Ég varð oft reiður og þráðurinn í mér var stuttur. Mér mér fannst sonur minn aldrei hlusta eða var sjálfur erfiður í skapinu. Auðvitað átti hann erfitt með tilfinningar sínar, hann var tveggja og þriggja ára, ég var 24 og 25 og réð ekki við mínar. Ég fór að forðast að vera heima, finna allar afsakanir til að fara út í bjór með vinum. Þessi nýja ábyrgð og skyldur fannst mér vera of mikið og í raun fannst mér þetta bara ekki jafn skemmtilegt og ég hélt að þetta yrði. Botninum var náð þegar Jenný settist niður og sagði að hún væri komin með nóg og gaf mér leið út. Ég þurfti bara að segja af eða á. Ég tók mér smá tíma í þetta en ákvað að gefast ekki upp.

Breytingarnar komu ekki strax en vinnan byrjaði. Fyrsta skrefið mitt var að hætta að já-a allt af mér og virkilega hlusta. Við fórum á námskeið eins og ég minntist á hjá Kristínu Maríellu og þá fóru hjólin að snúast. Ég studdist við og las mér til á Kviknar sem hún Andrea Eyland heldur utan um á Instagram og Karlmennskan sem Þorsteinn V. Einarsson heldur utan um. Þegar Iðunn fæddist tók ég allt fæðingarorlofið mitt strax. Að vera til staðar frá byrjun var mikill munur. Ég skildi þá loksins þessa tengingu sem ég hafði heyrt um. Enda á ég eina litla pabbastelpu.

RIE eða respectful parenting bjargaði mínu sambandi við son minn. Hann fór úr því að vilja aldrei tala við mig þegar eitthvað var að í að sækja í að vera með mér. Ég sjálfur fann breytingu á mér og ég fór að njóta þess að vera með börnum. Ég var í raun ekki lengur hræddur við mótlæti. Gott dæmi er þegar son minn langaði til að kaupa sér nammi í Nettó fyrir ári. Hann var búinn að eiga erfiðan dag, mikið að gerast og svo þegar hann fékk þetta nei við að kaupa nammi gjörsamlega brotnaði hann niður og fór að hágráta. Venjulega hefði ég farið í hnút og dregið hann út úr búðinni en þarna settist ég niður með honum og leyfði honum að klára að gráta. Um leið og hann róaðist fékk hann knús. Hann vissi að hann gæti látið þessar tilfinningar frá sér í kringum mig því hann treysti á að ég hjálpaði honum í gegnum þessa erfiðu stund.“

Öðruvísi skemmtilegt að eiga tvö börn

Hvað hefur þér fundist mest krefjandi við að vera faðir?

„Að vinna í sjálfum mér. Að skoða mig og af hverju ég verð pirraður yfir ákveðinni hegðun. Líka að átta mig á allri þeirri aukaábyrgð sem ég vissi ekki af, þriðju vaktinni. Að vera foreldri yfirhöfuð er mjög krefjandi. Að ala upp börn, sjá um heimilið, vinna, vera maki, vera ættingi, vinur, sonur, dóttir sem og finna tíma að vera maður sjálfur, tíma fyrir sig einan.“

Er meira mál að eiga tvö börn en eitt? 

„Já það munar helling að vera með fleiri en eitt barn. Og reynslan kom að góðum notum. Við vissum til dæmis betur við hverju mátti búast þegar við komum upp á fæðingardeild. Við vorum með föt og dót tilbúið. Við vorum sammála um uppeldisaðferðir. Allt varð auðvitað erfiðara en við höfum oft rætt þetta að þótt hlutirnir séu meira krefjandi en að vera með eitt barn þá er þetta bara öðruvísi skemmtilegt. Jökull var til dæmis farinn að sofa í sínu rúmi. Vegna þess hversu erfitt hann átti með að sofa einn vorum við búin að skiptast á að sofa inni hjá honum í þrjú ár en um leið og Iðunn mætti erum við aftur komin á byrjunarreit þar.“

Feður upplifa föðurhlutverkið á ýmsa vegu

Björn er duglegur að sýna frá fjölskyldulífinu á instagramreikningi sínum Pabbalífinu. Hann vill gera föðurhlutverkið sýnilegra. „Það er algengara hjá mæðrum að halda úti svona reikningi. Oftar hafa mæður meiri áhuga á uppeldi sem og samfélagið gerir í raun þá kröfu á þær að þær hafi áhuga á því. Ég vil breyta því, opna umræðuna og vonandi vera smá innblástur fyrir feður sem upplifa sig smá fasta. Það er vel hægt að breyta hugsunum og skoðunum. Mér finnst mikilvægt að sýna fram á að það að vera pabbi er líka sá sem tekur þátt á heimilinu og uppeldinu. Einnig sýna frá því hvernig breytt hugarfar hefur hjálpað mér að verða betri faðir sem og maki. Því öll þessi breyting, hvernig ég vildi verða betri faðir, breytti einnig sambandi okkar Jennýjar til hins betra,“ segir Björn. 

Finnur þú fyrir því að hlutverk feðra í uppeldi sé að breytast? 

„Ég finn fyrir því að þetta er að breytast hægt og rólega en þetta er að breytast. Ég heyri meira um að feður séu viljugri að taka fæðingarorlof og opnari fyrir því að leita sér sjálfir að upplýsingum um uppeldi frekar en að bíða eftir að konan komi og segi þeim hvað þeir eiga að gera. Ég heyri líka að feður séu að óska eftir meiri fróðleik. Um fæðingu, umönnun og hvert þeirra hlutverk er annað en að vera bara sá sem vinnur og kemur inn með peningana.“

Fannst þér sjálfsagt að taka þér fæðingarorlof?

„Mér finnst það en ég veit líka að það er ekki svo sjálfsagt fyrir alla. Ég stend bara svo vel að geta fengið hámarksfæðingarorlof núna en ég gat það ekki fyrst. Ég fékk þá bara fæðingarstyrk, sem er hvergi nægilegur til að geta gert fólki kleift að vera heima hjá sér og sjá um nýfædd börn. Í raun er þessi fæðingarstyrkur alveg til skammar. Ég vildi að það væri sjálfsagt að fólk gæti eignast börn og farið í fæðingarorlof án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig það nær endum saman.“

Ertu með góð ráð fyrir nýbakaða eða verðandi feður?

„Lesið, sækið námskeið og talið við aðra feður. Samfélagið gerir þá kröfu á ykkur að vera einhver stoð fjölskyldunnar og þið megið aldrei láta neitt á ykkur fá. Það er ekki satt. Feður upplifa þetta hlutverk á marga vegu og er lykilatriði að geta rætt þetta við aðra feður sem mögulega eru að fara í gegnum það sama. Einnig, ef þú átt erfitt með eitthvað, finnst eitthvað krefjandi og upplifir þig eins og þú ert ekki ná tökum yfir einhverju, biddu þá um spjall við konuna þína, hlustaðu á hvað hún hefur að segja. Ef þér finnst það ekki hjálpa þá er líka mjög hollt og gott að fá aðstoð frá sérfræðingi,“ segir hann. 

Björn tekur fram að hann hefði örugglega aldrei náð á þann stað sem hann er í dag án Jennýjar sinnar. „Hún hefur verið ótrúleg og hjálpað mér að verða sá faðir sem ég vildi alltaf vera,“ segir Björn að lokum. 

mbl.is