„Ég hélt að ég yrði aldrei aftur ég sjálf“

Hrefna Líf Ólafsdóttir á tvö börn en meðgöngurnar voru erfiðar.
Hrefna Líf Ólafsdóttir á tvö börn en meðgöngurnar voru erfiðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrefna Líf Ólafsdóttir horfir björtum augum til næsta árs þrátt fyrir að árið 2021 hafi ekki byrjað eins og í draumi. Hrefna, sem er tveggja barna móðir með geðhvörf II, tók þá erfiðu ákvörðun að fara í þungunarrof á 11. viku í byrjun árs 2021. Á meðgöngu getur Hrefna ekki tekið lyf sem halda sjúkdómi hennar í jafnvægi. Þegar hún gekk með yngra barn sitt glímdi hún við alvarlegar sjálfsvígshugsanir sem hún faldi fyrir sínum nánustu.

Hrefna er atorkusöm og jákvæð kona sem vill opna umræðu um feimnismál á borð við geðsjúkdóma og þungunarrof. Í dag er Hrefna á góðum stað, er að vinna í sjálfri sér og tekur lyfin sín eins og hún hvetur alla til þess að gera. Þeim sem upplifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er meðal annars bent á að hjálp­arsími Rauða kross­ins, 1717, er op­inn all­an sól­ar­hring­inn.

Hrefna var 21 árs þegar hún var greind með geðhvörf II. „Þá var ég búin að vera mjög þunglynd. Ég fékk kvíðagreiningu þegar ég var unglingur en það virkaði ekkert,“ segir Hrefna um greininguna. Hún lýsir geðhvörfum II sem vægari en geðhvörfum I en þá á fólk á það til að fara í maníu og þarf jafnvel að komast undir læknishendur. Ef Hrefna tekur ekki lyfin sín getur hún farið í djúpt þunglyndi eins og hefur gerst á meðgöngum hennar. „Þegar ég var ólétt mátti ég ekki taka lyfin sem héldu mér í jafnvægi af því að þau gátu haft áhrif á fóstrið,“ útskýrir Hrefna, sem var á litíum.

Missti þrisvar fóstur eftir fæðingu dóttur sinnar

Hrefna var á Spáni þar sem hún var í námi í dýralækningum þegar hún og sambýlismaður hennar áttu von á sínu fyrsta barni saman. Sonur kom í heiminn í janúar 2017. Þegar hún horfir til baka sér hún að meðgangan gekk ekki jafn vel og hún hélt vegna þess að hún þurfti að hætta á lyfjunum.

„Ég var mjög þunglynd á fyrstu meðgöngunni og gerði mér kannski ekki grein fyrir því,“ segir Hrefna, sem var bæði að glíma við þunglyndi og breytta hormónastarfsemi. „Ég vissi aldrei hvort var hvað og þetta eru náttúrlega bara mjög ýktar sveiflur fram og til baka. Þetta er mjög lýjandi vegna þess að þetta var svo mikið. Ég var í mikilli geðshræringu alla fyrstu meðgönguna og þetta hafði mikil áhrif á skólann. Mér gekk mjög illa og ég endaði í algjörri kulnun á Spáni, þannig að ég kom heim og vildi gera betur,“ segir Hrefna, sem fékk ekki góða heilbrigðisþjónustu á Spáni.

Það gekk ekki auðveldlega að stækka fjölskylduna.
Það gekk ekki auðveldlega að stækka fjölskylduna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að sonurinn kom í heiminn ákváðu foreldrarnir að reyna að stækka fjölskylduna. „Mig langaði í annað barn og missti þrisvar fóstur á tveimur árum áður en ég eignaðist dóttur mína. Það var mikill skellur. Ég hélt að ég myndi kannski ekki eignast annað barn,“ segir Hrefna, sem er með endómetríósu.

Áður en hún varð ólétt að dóttur sinni ákvað Hrefna að koma líkamanum í stand og takast á við matarfíkn með því meðal annars að fara í magaminnkun. Aðeins níu vikum eftir aðgerðina árið 2019 varð hún ólétt á getnaðarvörn. Hrefna var enn að glíma við mikinn næringarskort eftir aðgerðina þar sem fólk getur ekki innbyrt mikið eftir magaminnkun. Hún lét það hins vegar ekki stoppa sig, reyndi eftir bestu getu að borða og næra barnið og var í góðu eftirliti.

Faldi vanlíðan sína

Það að verða ólétt stuttu eftir magaminnkun og að þurfa að hætta á lyfjunum var ekki það eina sem Hrefna glímdi við á meðgöngunni. Óhætt er að segja að áföllin hafi dunið á henni sem gerði það að verkum að hún sökk dýpra og dýpra.

„Ég varð ólétt í júní, júlí. Í ágúst dó hundurinn minn sem ég flutti með mér frá Spáni. Tveimur mánuðum seinna dó pabbi minn úr krabbameini en hann bjó hjá okkur af því hann var svo veikur af krabbameininu. Vikuna þar á eftir seldist íbúðin sem við bjuggum í. Á þessum tíma var þetta áfall ofan á áfall fyrir mig,“ segir Hrefna, sem þurfti líka að hætta í námi í HR þar sem hún hélt engu niðri og ældi í átta mánuði. Á meðgöngunni var hún svo einangruð í ljósi versnandi kórónuveirufaraldurs.

Andleg áföll dundu á Hrefnu Líf þegar hún gekk með …
Andleg áföll dundu á Hrefnu Líf þegar hún gekk með yngra barn sitt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andlega heilsan fór fljótlega að dala en Hrefna reyndi að halda andliti.

„Ég fékk mjög svæsið meðgönguþunglyndi og ljósmóðirin hafði miklar áhyggjur af mér en ég var rosalega dugleg að fela þetta. Ég var búin að ákveða að þegar ég væri búin að fæða barnið mitt þá ætlaði ég að fyrirfara mér,“ segir Hrefna.

Hún segir hrikalegt að hugsa til þess að þetta hafi verið staðan og segir hugsanir sínar á þessum tíma engan veginn lýsa henni sem persónu. Það kemur venjulega fólki á óvart að hún sé með geðhvörf en vegna þess að hún var ekki á lyfjum hugsaði hún þetta með sér.

„Ég sagði engum frá þessu. Það hættulegasta er þegar fólk er búið að ákveða að fyrirfara sér en segir engum fá því. Þá finnur það til svo mikils léttis innra með sér af því að það veit að lífið er að fara að enda og það mun deyja. Það segir ekki neinum frá því af því það vill ekki láta stoppa sig. Oft þegar fólk ætlar að fyrirfara sér leitar það kannski til aðstandenda að hjálp af því í raun vill það ekki deyja. Það vill halda áfram og komast út úr þessu. Vanlíðan mín var svo mikil að ég hélt að ég væri að missa allan árangurinn sem ég hafði náð í sjálfsvinnunni. Ég hélt að ég yrði aldrei aftur ég sjálf. Ég man að ég hugsaði að ég skammaðist mín fyrir að vera andlega veik. Ég vildi ekki bjóða börnunum mínum upp á að eiga mömmu sem væri svona geðveik. Ég hugsaði að maðurinn væri betur settur án mín, hann gæti fengið sér nýja konu og þyrfti ekki að vera með mér, og börnin fengju nýja mömmu.“

Hrefna bauð manninum sínum meðal annars skilnað á meðgöngunni og bauð honum forræði yfir börnunum. Hún sagði að það væri ekki við hæfi að þau ælust upp hjá henni. Hún segist eiga góðan mann sem gaf lítið fyrir orð hennar. Hann sagði að þetta væri ekki hún, þetta væri sjúkdómurinn að tala. Þegar hún væri á lyfjunum væri hún ekki svona.

Eftir að Hrefna fæddi dóttur þeirra í apríl 2020 byrjaði hún ekki strax á lyfjunum. Hún fékk fæðingarþunglyndi og lýsir fyrstu vikum og mánuðum í hálfgerðri móðu. Í dag finnst henni fjarstæðukennt að hugsa til tímans og segist í rauninni vera búin að gleyma hversu mikinn sársauka hún glímdi við. Hún tekur fram að hún hafi átt góða daga inn á milli. Hún er vön því að þunglyndi gangi í bylgjum og það lagist og var það meðal þess sem hélt henni gangandi.

Hrefna Líf átti erfitt með að sækja sér hjálp á …
Hrefna Líf átti erfitt með að sækja sér hjálp á meðgöngu og eftir meðgönguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún vissi að hún gæti fengið hjálpina eftir fæðingu en eins furðulega og það hljómar veitti vanlíðanin henni vellíðan. Í því ástandi ákvað hún að taka ekki lyfin beint eftir fæðingu. Þegar dóttir hennar var orðin fjögurra mánaða náði hún botninum.

„Þá hafði maðurinn minn vakað yfir mér í tvo sólarhringa. Ég hafði verið að tala við vinkonu mína á Facebook um kvöldið og hún hringir í lögregluna og lögreglan hringir í manninn minn. Hann var ótrúlega leiður. Það var þetta kvöld sem ég ætlaði að gera þetta. Hann sagðist ætla að sitja og horfa á mig sofa, í fyrramálið færum við niður á geðdeild,“ segir Hrefna um vendipunktinn. Hún áttaði sig þarna á því að hún væri orðin veikari en hún hélt í ljósi þess að það komst upp um hana. Í kjölfarið byrjaði hún á lyfjunum.

Hrefna segir mikilvægt að taka lyfin samkvæmt læknisráði. Hún reynir líka að lifa reglusömu lífi til að halda sér í jafnvægi. Hún drekkur sjaldan áfengi, hreyfir sig, nærist vel og passar að fá nægan svefn. „Um leið og ég sinni ekki þessum grunnþörfum fer ég að missa tök á jafnvæginu. Þú þarft ekki að berjast við að vera ekki á lyfjum til að sanna þig fyrir einhverjum öðrum. Ef þú fótbrotnar þá ferðu í gifs. Ég hef alltaf náð að halda mér í þessu jafnvægi til þess að ég fari ekki svona rosalega djúpt niður en á meðgöngunni missti ég öll tengsl og ég hélt virkilega að ég væri búin að missa það. Af því að ég hef alltaf náð að stjórna þessu sjálf með því að fara eftir fyrirmælum frá heilbrigðisstarfsfólki eða reyna að gera venjulega hluti sem maður á að gera.“

Erfitt að rjúfa þungunina

Hrefna fékk enn og aftur vindinn í fangið þegar hún varð ólétt á getnaðarvörn í kringum síðustu áramót. Hún segir að aðgerð á borð við magaminnkun eigi það til að auka frjósemi kvenna. Hrefnu var farið að líða vel, komin á lyf og hafði fengið aðstoð inni á Kleppi hjá teymi fyrir konur á meðgöngu og eftir meðgöngu. Hjálpin stóð henni sem betur fer til boða þar sem hún var með áður skilgreindan vanda. Hrefna stóð frammi fyrir því að þurfa að hætta á lyfjunum aftur auk þess sem fjölskyldan var í fjárhagsvanda vegna þess að hún missti vinnuna í kórónuveirufaraldrinum.

„Ég er alveg sjúklega jákvæð og reyni að sjá fyrir endann á hlutunum. Mér leið töluvert betur. Það var ekkert endilega að ég væri föst í fæðingarþunglyndi heldur var ég föst í fjárhagsvanda. Ég hef aldrei á ævinni verið í fjárhagsvanda. Ég hef alltaf bara unnið rosalega mikið og fundist það gaman. Við áttum ekki peninga til þess að eignast annað barn. Ég þurfti aftur að hætta á lyfjunum. Ég var eiginlega komin aftur í sama vítahring. Ég hitti félagsráðgjafa og geðlækni og allir voru á því að ég hefði ekki heilsu til að fæða barn af því að ég var með fjárhagsáhyggjur og aftur hætt á lyfjunum,“ segir Hrefna en að lokum tók hún þá ákvörðun, í samráði við fagfólk, að fara í þungunarrof. 

Það var þungur biti að kyngja fyrir Hrefnu að þurfa rjúfa þungunina vegna þess að hún var með geðhvörf.

„Ég legg mikið upp úr því að taka lyfin. Ég var ánægð með minn árangur. Mér fannst ég komin yfir það að láta geðhvörfin skilgreina mig. Þetta var mikill skellur. Ég var reið út í líkama minn. Ég vissi að ef ég hefði ekki gert það þá hefði ég fyrirfarið mér,“ segir Hrefna um ákvörðunina. 

Það er lítið talað um þungunarrof kvenna sem eiga heilbrigð …
Það er lítið talað um þungunarrof kvenna sem eiga heilbrigð börn og fallega fjölskyldu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður bendir á svo virðist sem þungunarrof hjá konum sem eiga fjölskyldu fyrir sé tabú og Hrefna er sammála. Vegna þess að hún á mann og heilbrigð börn sé gert ráð fyrir að hún eignist barnið. „Peningavandræði geta verið tímabundin. Vandamál tengd andlegri heilsu geta verið tímabundin. Ég hafði bara ekki meiri tíma, ég hafði bara 12 vikur. Ég grét þegar ég var svæfð fyrir aðgerðina. Mig langaði ekki að vera þarna. Ég tala um margt á samfélagsmiðlum sem mér finnst vera tabú og mér finnst rétt að opna umræðu um. En á þessum tíma vildi ég ekki tala um þetta á mínum miðlum. Mér fannst þetta rosalega stór ákvörðun. Ég vildi ekki að einhver annar hefði skoðun á þessu fyrir mig og mína fjölskyldu. Mér fannst þetta nógu erfitt samt. Ég vildi ekki vera að tala um þetta með hormónana á fullu. Ég þurfti aðeins að fá að gera þetta upp. Mér fannst þetta svo leiðinlegt af því ég átti svo fína fjölskyldu.“

Langar ekki á botninn aftur

Eftir því sem sól hækkaði á lofti birti yfir Hrefnu og fjölskyldu. Þau fluttu inn til móður hennar og náðu að greiða niður skuldir. Hún segir lífið mun einfaldara þegar virkilega íþyngjandi vandamál á borð við fjárhagsvandamál eða sambandsörðugleika eru ekki til staðar. „Ef stór vandamál eru tekin út úr jöfnunni er svo miklu auðveldara að kunna að meta daglegu hlutina. Ég er svona gangandi kærleiksbangsi. Ef það kemur eitthvað óheppilegt upp á þá get ég bara unnið úr því, það eru engar ytri aðstæður sem koma í veg fyrir það. Mér fannst mikið lærdómsferli að missa allt sem stóð mér nærri. Allt í einu upplifði ég að ná ekki endum saman, að vilja bara fyrirfara mér og hafa ekki heilsu. Þetta var botninn, mig langar ekki að fara þangað aftur. Ég er þakklát fyrir litlu hlutina í dag. Mér finnst þetta í alvöru hafa kennt mér nægjusemi. Líka hvað ég er ánægð með manninn minn, fjölskylduna mína og mömmu mína.“

Í dag er Hrefna Líf á góðum stað og er …
Í dag er Hrefna Líf á góðum stað og er að byggja upp líf sitt hægt og rólega. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag er Hrefna í endurhæfingu hjá Virk. Hún hefur lært ýmislegt á því en líka fengið staðfestingu á eigin ágæti. Hún til dæmis fór á námskeið fyrir fólk með lágt sjálfsmat hjá Virk og fékk þar staðfestingu á því að einn af kostum hennar er gott sjálfstraust. Í stað þess að vinna í sjálfsmatinu er hún að reyna að hætta að efast um sjálfa sig. 

Hluti af uppbyggingu Hrefnu er að setja sér nokkur lítil og raunhæf markmið í stað þess að setja sér eitt stórt. Í ár bjó hún til hlaðvarpsþætti og í desember tók hún próf í bókaranámi sem gengu vel. Hún horfir björtum augum til næsta árs og eru nokkur mjög spennandi verkefni í bígerð. „Ég er virkilega spennt fyrir 2022. Ég sá ekki fram á að ég væri að fara aftur á vinnumarkaðinn eða myndi ná færni til þess að fylgja hlutunum eftir,“ segir Hrefna, sem finnst hún vera orðin hún sjálf aftur.

Ef einstaklingar upplifa sjálfs­vígs­hugs­an­ir er hjálp­arsími Rauða kross­ins, 1717, op­inn all­an sól­ar­hring­inn. Einnig er net­spjall Rauða kross­ins, 1717.is, opið all­an sól­ar­hring­inn. Píeta-sam­tök­in veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218. Á net­spjalli á Heilsu­vera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkr­un­ar­fræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert