„Kraftaverk að taka á móti ömmubarninu sjálf“

Margrét Elísabet Knútsdóttir, ljósmóðir, tók nýverið á móti fyrsta barnabarninu …
Margrét Elísabet Knútsdóttir, ljósmóðir, tók nýverið á móti fyrsta barnabarninu sínu sem hún segir engu öðru líkt.

„Að vera ljósmóðir er auðvitað bara best í heimi. Sem betur fer er þetta gleðilegt ferli í flestum tilfellum en auðvitað, eins og gengur og gerist í lífinu, þá geta komið upp erfiðar aðstæður. Það eru forréttindi að fá að starfa við það sem maður hefur brennandi áhuga á. Sem er í mínu starfi, sem ljósmóðir, í raun allt sem kemur að því að undirbúa foreldra að taka á móti nýjum einstaklingi inn í lífið,“ segir Margrét Elísabet Knútsdóttir, ljósmóðir, sem starfar á Ljósmæðravakt Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja. Margrét veit fátt skemmtilegra en að vera ljósmóðir, þar sem hún sinnir foreldrum frá upphafi meðgöngunnar, í fæðingu og eftir að barnið er fætt, þá í heimaþjónustu.

Hún á þrjú börn sjálf og tók nýverið á móti fyrsta barnabarni sínu, sem var einstök reynsla að hennar sögn. „Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt áður og verð að segja að ég kyssi ekki öll börn sem ég tek á móti, þó mitt barnabarn hafi fengið innilegt faðmlag og koss frá ömmu þegar það fæddist.“

Fagnar brátt tuttugu ára starfsafmæli

„Ég hlakka til þess að fara í vinnuna á hverjum degi. Það er líka svo gaman að vinna með ungu fólki í dag, þau eru mjög dugleg að undirbúa sig og lesa sér til um meðgönguna og fæðinguna. Ungt fólk fylgist með ferlinu á samfélagsmiðlum og í alls konar forritum, sem eru bæði fræðandi og skemmtileg, svona oftast nær,“ segir Margrét sem fagnar á þessu ári tuttugu árum frá því hún hóf störf sem ljósmóðir fyrst.  

Margrét kyssir ekki öll börn sem hún tekur á móti, …
Margrét kyssir ekki öll börn sem hún tekur á móti, þó fyrsta barnabarnið hafi fengið innilegt faðmlag og koss frá ömmu sinni, sem tók einnig á móti því.

Það hefur lengi verið fylgst með formi og þyngd móður á meðgöngu og stundum hefur því verið haldið fram að konur í góðu formi eigi auðveldara með að fæða barn en aðrar. Þessu er Margrét ekki endilega sammála. Hún mælir með að setja athyglina á andlegan undirbúning, en að sjálfsögðu er alltaf gott að reyna sitt besta að halda sig við heilbrigt og gott mataræði. Það á við um báða foreldra. 

„Ég hef kennt meðgöngujóga í 12 ár hérna í Reykjanesbæ og við ljósmæðurnar höfum tekið eftir því að þær konur sem ekki eru hræddar við fæðinguna, þær sem ná að stjórna önduninni og treysta því að líkaminn leiði þær áfram, þær eiga oftar en ekki betri upplifun. En til gamans þá má geta þess að við á HSS erum með flestar vatnsfæðingar á Norðurlöndum en fæðingar í vatni þykja oft og tíðum mjög afslappaðar og notalegar fæðingar.“

Margrét vissi ung að árum að hún vildi vera ljósmóðir og ákvað því að skrá sig í hjúkrun þegar hún valdi sér háskólanám. Fyrsta árið í hjúkrun var reyndar þannig að á hana runnu tvær grímur. 

„Ég ætlaði að hætta eftir fyrsta árið, en fékk undanþágu til að fá að fara í verknám á fæðingardeild svo ég myndi ekki hætta. Það varð til þess að ég ákvað að halda áfram þessi fjögur ár sem hjúkrunin er og síðan bætti ég við mig ljósmóðurfræðunum. Þegar maður velur sér fag í dag, þá er oftar en ekki, lítið að marka fyrsta árið. Það krefst því ákveðinnar þrautseigju að komast í gegnum fyrsta hlutann, viðkomandi námsmaður eflist við það að klára fyrsta árið og framhaldið verður oft auðveldara, þar sem sérhæfingin kemur oftast seinna í náminu.“

Heilsusamlegt að líða vel í starfi

Að fylgja hjartanu og að starfa við eitthvað sem er skemmtilegt, er heilsusamlegt að mati Margrétar. 

„Þetta með að líða vel í starfi er mikilvægt því þú átt eftir að starfa við fagið um ókomna tíð. Það er líka svo gaman að fá að vera til staðar fyrir fólk sem er að fara að eignast barn. Ég mæli með því fyrir alla að anda, treysta og slaka, það er svona það fyrsta sem mér dettur alltaf í hug. Það virkar mjög vel í fæðingum og líka þegar þú ert komin með lítla barnið í fangið. Eins er samvinna foreldra mikilvæg og hvet ég alla foreldra til að hjálpa hvort öðru eins vel og þau geta og að standa saman í fæðingarferlinu og eftir fæðingu barnsins. Það er mikilvægt að sofa þegar litla barnið sefur og að kunna að segja já takk, við þeirri aðstoð sem býðst hverju sinni svo ekki sé minnst á mikilvægi þess að slökkva á símanum, þegar nýbakað foreldri leggur sig með barninu.“

Að kunna að segja nei, er ekki síður mikilvægt að mati Margrétar.

„Við þurfum að kunna að segja nei, sérstaklega eftir erfiðar nætur. Fyrirvarinn á slíkum nóttum er oft skammur og því þurfa þeir sem standa foreldrunum næst að kunna að vera sveigjanlegir og að sýna skilning þegar heimsóknir frestast tímabundið.“ 

Margrét er spennt fyrir hverjum degi í starfinu sínu sem …
Margrét er spennt fyrir hverjum degi í starfinu sínu sem ljósmóðir. Hún segir það góða tilfinningu, enda hefur hún starfað sem ljósmóðir í tuttugu ár.

Það að vera ljósmóðir er þess eðlis að maður tekur eftir öllum kraftaverkunum í lífinu. Bæði stórum og smáum. 

„Það er ekkert gefið í þessu lífi og því tel ég lykilinn að lífshamingjunni vera að njóta liðandi stundar. Hversdagsleikinn er það sem við söknum mest, þegar áföllin á okkur dynja. Það er bara svo svakalega mikið til í því, að lífið er hér og nú. Erfiðleikar lífsins eru oftar en ekki þær óvæntu og erfiðu áskoranir sem maður stendur andspænis þegar veikindi eða andlát verða, því er svo mikilvægt að taka eftir kraftaverkunum í lífinu, sama í hvaða formi þau koma til okkar og ég líkt og aðrir hef séð kraftaverk koma inn líf fólks á erfiðum tímum. Það er auðmýkjandi og fallegt að upplifa.“

Áttu góð heilsuráð að deila með lesendum mbl.is?

„Ég held að bestu heilsuráðin séu að hlæja og hafa gaman. Að vera úti í fallegu náttúrunni okkar. Fagna margbreytileikanum á öllum sviðum lífsins og vera þakklát.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert