Í stríði við stjúpmóður barna sinna

Katie Price lætur stjúpmóður barna sinna hafa það óþvegið á …
Katie Price lætur stjúpmóður barna sinna hafa það óþvegið á Instagram. Skjáskot/Instagram

Breska glamúrfyrirsætan Katie Price hefur átt í deilum við stjúpmóður barna sinna síðustu misseri. Heldur hún því fram að stjúpmóðirin, barnalæknirinn Emily MacDonagh, sé eitrið sem einkennir samskipti foreldranna. Fréttamiðillinn The Sun greindi frá.

Fyrirsætan Katie Price og söngvarinn Peter Andre voru gift á árunum 2005-2009 og eiga saman börnin Junior 16 ára og Princess 14 ára. Samskipti Price og Andres sem varða uppeldið á börnunum hafa verið dræm og gengið illa síðustu ár. Það segir Price að miklu leyti vera núverandi eiginkonu Andres að kenna.

„Nú hef ég þagað of lengi. Ég er búin að fá nóg af fólki sem reynir að selja sögur af mér og börnunum mínum og sérstaklega hef ég fengið nóg af þessari svokölluðu stjúpmóður barna minna,“ sagði Price í áhrifaríkri færslu sem hún birti á Instagram í vikunni. Færslunni hefur verið eytt en hún kom í kjölfar annarrar sem stjúpmóðirin hafði deilt á sínum samfélagsmiðlum. Þar mælti hún með smáforritinu We Are 360 sem aðstoðar þá sem glíma við andlega kvilla.

„Hversu ógeðslegt er það að hún hefur notað myndir af börnum mínum til þess að græða peninga. Svo hylur hún andlit sinna barna,“ skrifaði Price í reiðikasti. „Hún segist vera læknir en hefur greinilega ekki hugmynd um andlega heilsu. Hún var sú sem kom í veg fyrir að dóttir mín kæmi að heimsækja mig í meðferðina þegar hana langaði að hitta mömmu sína.“

Price lagði dr. Emily línurnar, sem hefur ákveðið að eyða ekki púðri í að svara þessum ásökunum enn sem komið er. 

„Emily, þú ert ekki og munt aldrei verða foreldri minna barna svo farðu bara að hugsa um þín eigin málefni. Þú ert ekki öll þar sem þú ert séð.“ 

mbl.is