Hjálpaði að verða ólétt aftur

Ásdís Hjálmsdóttir eignaðist soninn Erik Hjálm með eiginmanni sínum John …
Ásdís Hjálmsdóttir eignaðist soninn Erik Hjálm með eiginmanni sínum John Annerud í fyrra. Ljósmynd/Þórdís Reynis

Ásdís Hjálms­dótt­ir, marg­fald­ur Íslands­meist­ari í spjót­kasti og þre­fald­ur ólymp­íufari, eignaðist sitt fyrsta barn í fyrra með eiginmanni sínum John Annerud. Hún lagði spjótið á hilluna til þess að stofna fjölskyldu en fyrsta meðganga hennar endaði á 12. viku.

Ásdís segir að áfallið hafi verið mikið en í dag gætu þau John ekki verið hamingjusamari með soninn Erik Hjálm sem kom í heiminn fyrir fimm mánuðum. 

„Þeir eru búnir að vera rosalega krefjandi en samt yndislegir. Maður er búinn að heyra þetta allt áður og þetta hljómar eins og algjörar klisjur þangað til maður upplifir það sjálfur,“ segir Ásdís um fyrstu mánuðina í móðurhlutverkinu. Hún segir þau mjög heppin með Erik Hjálm sem sefur yfirleitt vel. Að undanförnu hefur hann verið að taka tennur og það hefur reynt á. „Þetta er búið að taka á á hátt sem maður hefði aldrei getað undirbúið sig fyrir. Svo er þetta líka ótrúlega yndislegt og gefandi. Hjartað stækkar milljónfalt við að fylgjast með honum vaxa.“

Fór á æfingu kvöldið fyrir fæðingu

Sem afreksíþróttakona þekkti Ásdís ekki annað en að vera í toppformi og segist hún hafa búið sig vel andlega undir breytingar á líkamanum. „Þú hefur enga hugmynd um hvað kemur fyrir líkamann á meðgöngu. Þú veist að líkaminn er að fara breytast en þú veist ekkert hvernig. Allt mitt líf hef ég verið í toppformi og æft mjög mikið og er vön að sjá líkamann í einhverri mynd. Ég bjó mig undir það andlega að það myndi breytast. Ég var auðvitað að fara að stækka en ég vissi ekki hvernig. Ég ætlaði að fara inn í þetta meira af forvitni en nokkuð annað, ætlaði að sjá hvað líkami minn gæti gert. Mér fannst til dæmis rosalega gaman að fylgjast með bumbunni stækka, mér fannst það alveg magnað,“ segir Ásdís. Hún stendur núna frammi fyrir þeirri áskorun að halda í þyngdina en hún segir son sinn vera að drekka sig upp til agna. Það er grínast með að rassinn á henni endi í kinnunum á syninum. 

Ásdís segir móðurhlutverkið yndislegt en um leið krefjandi.
Ásdís segir móðurhlutverkið yndislegt en um leið krefjandi. Ljósmynd/Þórdís Reynis

Hvernig var að upplifa fæðinguna?

„Það var alveg magnað. Það var nokkuð sem ég og maðurinn vorum búin að búa okkur mjög vel undir. Þar kom upp afreksíþróttakonan í mér. Það var gert andlegt leikplan, allt ákveðið. Þegar maður veit að maður er að fara að takast á við sársauka sem maður hefur ekki upplifað áður og veit að þetta getur verið erfitt og jafnvel upplifað einhverja panik þá vildi ég vera tilbúin með hvernig ég ætlaði að takast á við það. Það gekk mjög vel.

Fæðingin gekk ofboðslega hratt og vel fyrir sig. Öll meðgangan og fæðingin gekk algjörlega eins og í sögu. Ég tók síðustu æfinguna nokkrum klukkutímum áður en ég fékk hríðir. Ég var að lyfta á mánudagskvöldi. Svo fór ég að fá smá verki eins og túrverki þegar við sátum hérna og horfðum á bíómynd eftir æfingu. Ég var búin að vera að fá svona verki í tvær, þrjár vikur á undan og við héldum alltaf að eitthvað væri að fara að gerast en svo gerðist ekki neitt. Þetta var orðið pínu eins og úlfur, úlfur. Ég spáði ekkert meira í það og fer svo bara að sofa og þá vakna ég með hríðir klukkan tvö um nóttina. Þá er ég strax bara með tvær mínútur á milli verkja. Þetta gerðist mjög hratt. Ég vakna klukkan tvö um nóttina og hann fæddist klukkan fjögur um daginn.“

Keppti síðasta mánuðinn ólétt

Eins og Ásdís segir þá gekk allt upp á meðgöngunni og í fæðingunni. Hún var líka fljót að jafna sig eftir fæðinguna. Þetta var hins vegar ekki fyrsta meðganga Ásdísar. Stuttu áður en hún varð ólétt að Erik Hjálmi missti hún fóstur á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar.

„Við vorum að búin ákveða að fara beint út í barneignir þegar ég væri hætt að keppa af því að maður var ekki að verða neitt yngri. Maður veit ekki hvað maður hefur langan tíma. Það var ástæðan fyrir því að ég gaf mér ekki ár í viðbót til þess að keppa á Ólympíuleikunum. Þó svo að ég hafi kannski getað orðið ólétt þá langar okkur í fleiri en eitt barn og þá er enn styttri tími. Það getur tekið tekið heilt ár að verða ólétt,“ segir Ásdís.

Það leit samt ekki út fyrir að hún þyrfti að hafa áhyggjur þar hún varð ólétt strax sumarið 2020. „Ég keppti síðasta mánuðinn ólétt. Svo lendi ég í því þegar ég er komin 12 vikur að dulið fósturlát kemur í ljós. Þá hafði fóstrið hætt að þroskast á sjöttu viku, um það leyti sem hjartað byrjar að slá. Þá var eitthvað að, líkaminn fattaði ekki að þetta hefði gerst og losaði sig ekki við fóstrið. Ég vissi ekki af þessu. Ég var með mestu óléttueinkennin eftir þetta. Mér var hrikalega flökurt og meira segja maginn stækkaði. Það var rosalega mikið sjokk,“ segir Ásdís. Hún þurfti hjálp við að losa sig við fóstrið og þakkar fyrir að það hafi þó bara verið sex vikna en ekki 12 vikna.

Ásdís lagði spjótið á hilluna til þess að stofna fjölskyldu.
Ásdís lagði spjótið á hilluna til þess að stofna fjölskyldu. Ljósmynd/Þórdís Reynis

Heppin að verða ólétt fljótt aftur

Ásdís segist ekki hafa áttað sig á því hversu algeng fósturlát eru og segir fáa tala um þau. Þegar hún sagði frá voru margir í kringum hana sem höfðu gengið í gegnum svipaða reynslu sem kom henni á óvart.

„Þetta var rosalega erfitt fyrir okkur og sérstaklega af því að ég var búin að hugsa fyrir fram að ég vildi ekki bíða af því ég vissi ekki hvað ég hefði langan tíma. Þarna var ég að verða 36 ára. Maður hefur alltaf heyrt að þetta geti gerst og það sé ekkert öruggt fyrstu 12 vikurnar en ég gerði mér enga grein fyrir því hversu ótrúlega algengt þetta er,“ segir Ásdís. Margar spurningar vöknuðu hjá henni eftir fósturlátið. Spurningar eins og hvort hún væri orðin of gömul, hvort þau hefðu beðið of lengi með barneignir eða hvort eitthvað væri að hjá þeim.

„Ég varð ólétt mjög fljótt og varð svo fljótt ólétt aftur. Við vorum mjög heppin með það. Það hefði verið ennþá erfiðara ef við hefðum verið búin að reyna í hálft ár og svo misst fóstur og þurft síðan að reyna aftur í hálft ár. Þetta gerðist allt mjög hratt, sem hjálpaði mér andlega með þetta ferli. Það gerði það aðeins auðveldara. Það sem við hugguðum okkur við er að þetta átti ekkert að gerast. Þetta gerðist það snemma að þetta hefði aldrei orðið heilbrigt barn. Þetta var ekki meðganga sem hefði getað gefið okkur barn eins sorglegt og það var og sérstaklega af því maður var kannski búinn að byggja væntingar og vonir. Fyrst á eftir fann ég að eina sem hjálpaði mér í þessari sorg var að verða ólétt aftur. Um leið og ég varð ólétt aftur var miklu auðveldara að takast á við þetta.“

Ásdís var stressuð fyrst þegar hún varð ólétt að Erik …
Ásdís var stressuð fyrst þegar hún varð ólétt að Erik Hjálmi. Ljósmynd/Þórdís Reynis

Ásdís segir að hún hafi verið mjög stressuð fyrstu 12 vikurnar á næstu meðgöngu og ekki bætti úr skák að fylgjan lá ofan á leghálsinum þannig að það blæddi mikið. „Þegar ég var komin sex vikur fór að fossblæða. Það var nákvæmlega eins og þegar ég var að missa fóstrið,“ segir Ásdís. Þau John héldu að þau væru að missa fóstur aftur en svo gerðist ekkert. Þau fóru upp á bráðamóttöku og þá sást hjartsláttur. Þetta gerðist fjórum, fimm sinnum og í hvert skipti varð auðveldara að takast á við blæðingarnar þótt þeim hafi fylgt ónotalegar tilfinningar. „Þetta var ekki til þess að hjálpa okkur eftir að hafa lent í þessu. Þetta var rosalega erfitt. Ég held að það sé mjög algengt á meðgöngu eftir fósturlát að maður sé rosalega stressaður. Í hvert skipti sem við fórum í sónar var mikill léttir að sjá að allt væri í lagi.“

Það er heldur betur allt í lagi með Erik Hjálm og segir Ásdís son sinn mjög sprækan lítinn strák. Hún er ekki í fullu fæðingarorlofi enda segir hún erfitt að taka fæðingarorlof sem sjálfstætt starfandi. Ásdís er með sitt eigið fyrirtæki þar sem hún heldur fyrirlestra og hjálpar íþróttafólki með andlega þjálfun. „Ég er búin að átta mig á því á þessum stutta tíma að það er ekki jafn auðvelt að plana þegar maður er með börn,“ segir Ásdís spennt fyrir árinu 2022 með litlu fjölskyldunni sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert