Dönsk þríburabumba vekur athygli

Danski áhrifavaldurinn Michella Meier-Morsi gengur undir nafninu filippaophelia á Instagram.
Danski áhrifavaldurinn Michella Meier-Morsi gengur undir nafninu filippaophelia á Instagram. Skjáskot/Instagram

Danski áhrifavaldurinn Michella Meier-Morsi eignaðist þríbura á dögunum eftir 35 vikna og fjögurra daga meðgöngu. Michellu og eiginmanni hennar, Mark Morsi, fæddust þrír heilbrigðir drengir en hjónin eiga þriggja ára tvíburadætur fyrir. Myndskeið sem Michella birti á Instagram í liðinni viku hefur farið um eins og eldur í sinu. Þar sýnir hún óléttubumbuna en það er með ólíkindum að þrjú lítil börn hafi getað rúmast þar allan þennan tíma. 

Michella hefur verið iðin við að leyfa aðdáendum sínum að fylgjast með fjölskyldulífinu og þríburameðgöngunni undanfarið en þau hjónin fengu utanaðkomandi aðstoð við getnaðinn. Tæknifrjóvganir og aðrar frjósemisaðgerðir auka líkurnar á fjölburaþungunum eins og í tveimur tilfellum Michellu og Marks.

Michella hefur talað opinskátt um frjósemisvanda sem þau hjónin hafa staðið frammi fyrir og komið til dyranna eins og hún er klædd. Vinsældir Michellu hafa aukist gríðarlega síðustu misseri og kunna aðdáendur hennar vel að meta heiðarleikann og eignlægnina í fari hennar.

Þríburarnir voru vel á sig komnir þegar þeir komu í …
Þríburarnir voru vel á sig komnir þegar þeir komu í heiminn. Tíu puttar og tíu tær - það er ekki hægt að biðja um meira. Skjáskot/Instagram

„Við erum orðin sjö manna fjölskylda,“ skrifaði Michella á Instagram. „Ég er geðveikt hrædd. Það er svo óraunverulegt að eignast þrjú börn í einu og það er eins og hugsanir mínar ráði ekki við þá tilhugsun,“ sagði Michella í miklu tilfinningarússi. 

„Okkur hafa fæðst þrír dásamlegir drengir og þeir hafa staðið sig svo vel, alveg til fyrirmyndar,“ sagði Michella jafnframt. „Á sama tíma á ég mjög langt í land,“ sagði hún en Michella sagði þessa fæðingu jafnframt hafa verið mun erfiðari og sársaukafyllri en þá síðustu, þegar hún fæddi tvíburana. 

„Ég er kvalin af verkjum og skurðurinn lítur mun verr út en hinn. Ég á mjög erfitt með að standa upp og fara á klósettið. Ekki alveg nógu gott. En nú ætla ég að hætta að röfla því ég er svo þakklát og hamingjusöm.“

Ástand þríburadrengjanna var gott þegar þeir komu í heiminn en þeir vógu 2.278, 2.626 og 2.775 grömm, eða 9-11 marka nýburar. Michella sagðist hafa roðnað þegar hún heyrði af fæðingarþyngdinni. Óléttubumban laug ekki til um neitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert