Orð páfa um barneignir vöktu reiði

Frans páfi heilsar barni með glaðværum hætti.
Frans páfi heilsar barni með glaðværum hætti. AFP

Frans páfi vakti mikla athygli á dögunum í ræðu sinni í Vatíkaninu fyrir að kalla fólk sem ætti gæludýr í stað barna eigingjarnt. Orð hans vöktu mikla úlfúð og sitt sýnist hverjum um þessa afstöðu hans.

Páfinn vildi hvetja fólk meðal annars til þess að íhuga ættleiðingu ef það gæti ekki átt börn af einhverjum ástæðum. 

„Hversu mörg börn eru að bíða eftir því að einhver komi og annist þau?“ spurði páfinn sem taldi barnleysið gera fólk verra.

Margir virðast vera á öðru máli og benda á að gæludýr séu mannbætandi. 

„Maður lærir um lífið með því að eignast gæludýr. Maður lærir um skilyrðislausa ást, missi og sorg. Lífið verður ríkara á svo margan hátt og maður verður betri þegn samfélagsins í kjölfarið,“ ritar blaðamaður Independent. 

„Það eru fjölmargar ástæður fyrir því að fólk á ekki börn. Ýmist af líffræðilegum ástæðum, fjárhagslegum eða vegna umhverfissjónarmiða.“

Aðrir virðast skilja afstöðu páfans og benda á að fæðingartíðni margra þjóða sé í sögulegu lágmarki.

„Áhugi okkar á hundum hefur aukist í sambærilegu hlutfalli og fæðingartíðnin hefur lækkað. Hundum á heimilum Breta hefur fjölgað þrefalt síðan árið 1965 og er fjöldi þeirra bara örlítið lægri en fjöldi barna á heimilum undir 16 ára aldri,“ segir í umfjöllun The Week.

Blaðamaður The Washington Post sagðist skilja hvert páfinn væri að fara með orðum sínum. 

„Ég skil af hverju orð hans vöktu mikla reiði gæludýraeigenda og barnlausra einstaklinga,“ sagði Kathleen Parker hjá The Washington Post. „En ég skil líka hvað hann er að meina. Við virðumst vera mjög upptekin af þessum litlu loðnu dýrum okkar og það má velta fyrir sér hver áhrifin verða á samfélagið í heild til lengri tíma litið.

Það er mikill skortur á ungu vinnuafli og það mun koma illa niður á löndum í framtíðinni. Nú þegar sjáum við afleiðingar lágrar fæðingartíðni. Munurinn á Frans páfa og öðrum umhverfisverndarsinnum er að þeir vilja bjarga jörðinni frá fólki en hann vill bjarga jörðinni fyrir fólkið,“ segir Parker.

Orð páfans um barnlaust fólk hafa vakið mikla athygli og …
Orð páfans um barnlaust fólk hafa vakið mikla athygli og sitt sýnist hverjum. Eru þau til marks um gamaldags viðhorf kirkjunnar eða eiga þau við rök að styðjast í ljósi lágrar fæðingartíðni? AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert