18 ára prinsessa tekur til starfa

Ingrid Alexandra prinsessa er 18 ára í dag.
Ingrid Alexandra prinsessa er 18 ára í dag. Skjáskot/Instagram

Ingrid Alexandra Noregsprinsessa er 18 ára í dag. Prinsessan er komin með sína eigin skrifstofu innan norsku konungshallarinnar og fór í sín fyrstu opinberu verkefni á vegum konungsfjölskyldunnar í gær, 20. janúar. 

Ingrid heimsótti Stórþingið á fimmtudagsmorgun og fékk fræðslu um starfsemi þingsins. Þá heimsótti hún einnig hæsta rétt landsins og fékk fræðslu um dómskerfi Noregs. 

Að lokum heimsótti hún skrifstofu forsætisráðherra og fundaði með Jonas Gahr Støre auk ráðherra í ríkisstjórn hans. Hún fékk svo fræðslu um dagleg störf ríkisstjórnarinnar og ráðherra innan hennar. 

Öllum formlegum afmælishöldum hefur verið frestað vegna faraldursins en halda átti stóran galakvöldverð. 

Ingrid Alexandra prinsessa er önnur í erfðaröðinni að krúnunni en faðir hennar Hákon krónprins fyrstur. Hún verður aðeins önnur konan í sögu konungsríkisins Noregs til að stýra ríkinu en Margrét drottning réði þar ríkjum á árunum 1388 til 1412. Afi hennar Haraldur 5. er konungur Noregs núna, en hann verður 85 ára í febrúar.

mbl.is