Ákveðnari og þrautseigari eftir að hún varð móðir

Hildur Karen Jóhannsdóttir ákvað að sérhæfa sig í þjálfun kvenna …
Hildur Karen Jóhannsdóttir ákvað að sérhæfa sig í þjálfun kvenna á meðgöngu og mæðra þegar hún var ólétt að sínu fyrsta barni. Hún kennir nú mömmutíma í nýrri líkamsræktarstöð, Afreki, sem staðsett er í Skógarhlíð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hildur Karen Jóhannsdóttir trúir því varla hversu margt breyttist þegar hún var móðir. Hún og unnusti hennar Snorri Sigurðsson eignuðust sitt fyrsta barn, dótturina Emilíu Dagbjörtu, á síðasta ári. Hildur er þjálfari í líkamsræktarstöðinni Afreki og heldur þar utan um Afreksmömmuhóp sem er hugsað fyrir mæður og konur á meðgöngu.

Hildur hefur stundað íþróttir frá því hún man eftir sér og alltaf verið með mikla hreyfiþörf. Hún var í djassballett í 8 ár, handbolta í 15 ár og undanfarin ár hefur hún einbeitt sér að crossfit og er crossfit level 1 þjálfari. 

„Ég var mjög dugleg að æfa á meðgöngunni eftir fyrstu 15 vikurnar og fram að svona viku 34. Ég mætti á æfingu dagsins og skalaði æfingarnar eftir mínum þörfum sem hentaði mér vel. Svo var ég bara dugleg að taka eitthvað sjálf annað hvort heima eða upp í stöð. Mér fannst líka geggjað að fara út að labba með gott hlaðvarp í eyrunum,“ segir Hildur Karen í viðtali við mbl.is. 

Fyrstu 15 vikurnar einkenndust af mikilli ógleði en þó ekki miklum uppköstum. „Vikurnar eftir það voru yndislegar síðan þegar leið svolítið á meðgönguna, líklegast á svona 28.-30. viku var ég farin að finna svolítið til í grindinni og hálsinum og svaf illa enda farin að vakna á tveggja tíma fresti til að pissa á nóttunni. Ég var í svolítilli afneitun um að mér liði illa í líkamanum og reyndi að fara þetta á jákvæðninni sem getur stundum verið gott en það er líka í lagi að leyfa sér að líða illa og vera svolítið góður við sjálfan sig og þora að biðja um hjálp,“ segir Hildur. 

Hildur hreyfði sig mikið þegar hún gekk með dóttur sína, …
Hildur hreyfði sig mikið þegar hún gekk með dóttur sína, Emilíu Dagbjörtu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hreyfingin hjálpaði og létti lund

„Ég reyndi að halda áfram að vera dugleg að æfa þar sem hreyfingin gerði mikið fyrir mig og hjálpaði mér að líða betur. Það er síðan á 36.viku sem ég fæ skyndilega mjög mikinn bjúg og var komin með of háan blóðþrýsting, höfuðverk, verk í hægri rifbeinunum, ásamt því að sjá eins og litlar stjörnur eða blossa. Þessi einkenni komu ca. 5 dögum áður en ég missti síðan vatnið heima í sófanum,“ segir Hildur. Litla stúlkan þeirra kom svo í heiminn í bráðakeisara eftir 36 vikna og tveggja daga meðgöngu. 

Spurð hvað hafi breyst eftir að hún varð mamma segir Hildur að hún hafi fullorðnast hratt á skömmum tíma. 

„Ég er yngsta barn í minni fjölskyldu og hafði því alltaf verið “litla barnið” en allt í einu var ég orðin mamma og bar ábyrgð á þessu litla fallega lífi sem við Snorri sköpuðum. Það eru eiginlega engin orð sem lýsa þessari tilfinningu þegar við fengum Emilíu okkar í hendurnar. Hún hefur gefið mér svo ótrúlega margt. Eins mikill rússíbani af tilfinningum og móðurhlutverkið er þá er ég ekki frá því að við mæður búum yfir einhvers konar krafti. Ég er miklu ákveðnari, þrautseigari og sterkari andlega en ég var áður en ég átti Emilíu og ég á henni það að þakka,“ segir Hildur. 

Hildur segir ekki erfitt að finna tíma til þess að hreyfingu eftir að hún varð móðir. Hún þurfi vissulega að skipuleggja daginn sinn í kringum þarfir barnsins en að hún hafi látið hlutina ganga upp. 

„Ég viðurkenni það alveg að ég nenni kannski ekki alltaf að æfa en ég veit að tilfinningin eftir á verður svo góð og mér mun líða betur andlega og líkamlega. Vissulega er auðvelt fyrir mig að segja þetta verandi með eitt barn og með gott bakland. Það er eflaust mun meira krefjandi þegar um fleiri börn er að ræða og fyrir þær sem hafa ekki gott bakland. Mér finnst skipta ótrúlega miklu máli að mæður gefi sér tíma fyrir sjálfa sig. Þó það sé ekki nema 5 mínútna göngutúr, bara aðeins að komast út úr húsi og fá að gera eitthvað fyrir sig sjálfa og fá smá útrás. Ég held að hreyfing sé það allra besta sem við mæður getum gert fyrir okkur,“ segir Hildur. 

Hvað er það besta við að verða mamma?

„Þessi skilyrðislausa ást sem maður ber til barnsins síns. Það er ekkert í líkingu við hana,“ segir Hildur. 

Hreyfingin skipti Hildi miklu máli á meðgöngunni og gerir enn.
Hreyfingin skipti Hildi miklu máli á meðgöngunni og gerir enn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvað að læra um þjálfun kvenna á meðgöngu þegar hún var ólétt

Á meðgöngunni upplifði Hildur sig svolítið týnda þegar kom að því hvernig hún „mætti“ æfa. Því ákvað hún að skrá sig í nám til þess að sérhæfa sig í þjálfun kvenna á meðgöngu og eftir fæðingu. „Ég lærði heilmikið af náminu og langaði til að miðla minni þekkingu áfram til annarra kvenna í sömu stöðu og ég. Ég hef brennandi áhuga á þjálfun og vinkona mín, Freyja Mist [Ólafsdóttir], ein af stofnendum Afreks, var svo sæt að mæla með mér við hina eigendurna og eftir það fór boltinn að rúlla og Afreksmömmur urðu til,“ segir Hildur. 

Á námskeiðinu leggur hún mikla áherslu á að styrkja „core-ið“ og sérstök áhersla lögð á innsta lag kviðvöðvanna, grindarbotninn, mjaðmir og rassvöðva. Æfingarnar eru fjölbreyttar og samanstanda af þol- og styrktaræfingum. 

Hildur segir kostinn við mömmunámskeið að þangað geti konur komið og æft með öðrum konum sem eru að ganga í svipaða lífsreynslu og þær. „Það myndast skemmtileg stemming og það er svo gaman að deila sinni reynslu með öðrum og fá að heyra hvernig reynsla annarra er. Það er einnig mikill og mikilvægur kostur að æfa undir leiðsögn þjálfara sem býður upp á sérhæfðar æfingar fyrir þennan hóp og að sjálfsögðu að geta tekið krílin með sér á æfingu.“

Æfingarnar eru ekki bara fyrir konur sem hafa stundað líkamsrækt áður og eru í góðu formi heldur öllum sem eru með fulla hreyfigetu. Hún passar því upp á að æfingarnar henti bæði þeim sem eru langt komið og þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref. „Allar meðgöngur og fæðingar eru mismunandi og batinn sömuleiðis, því finnst mér mikilvægt að mömmunámskeið bjóði upp á æfingar í samræmi við líkamlega getu hverrar og einnar hverju sinni,“ segir Hildur.

Hildur segir kostinn við mömmunámskeið vera að konur geti komið …
Hildur segir kostinn við mömmunámskeið vera að konur geti komið og æft með öðrum sem hafa gengið í gegnum svipaða lífsreynslu og þær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Líkamsstaðan skiptir öllu

Spurð hvaða mistök séu algeng hjá konum á meðgöngu eða nýbökuðum mæðrum þegar kemur að líkamsrækt segir Hildur að mistökin séu yfirleitt ekki gerð á æfingu, heldur fyrir utan æfingasalinn. 

„Það sem ég held að við klikkum flestar á er að viðhalda góðri líkamsstöðu í dagsdaglegu lífi. Það er auðvelt að mæta í ræktina og ætla að vera með góða líkamsstöðu í klukkutíma á meðan við æfum en svo þegar heim er komið þá eigum við það margar til að beita okkur vitlaust. Sérstaklega í tengslum við umönnun barnsins eða barnanna okkar. Líkamleg vellíðan byrjar á líkamsstöðunni okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert