Bráðskemmtilegar baðferðir fyrir börnin

Það er ýmislegt hægt að gera til að baðferðirnar verði …
Það er ýmislegt hægt að gera til að baðferðirnar verði skemmtilegri fyrir börnin. Ljósmynd/Pexels/Cottonbro

Börnum líkar misvel að fara í bað. Sum þarf að neyða í bað en stilla þarf baðferðum annarra í hóf. Sum börn glíma við vatnshræðslu á sama tíma og uggi og sporður eru í þann mund að vaxa á önnur börn sem elska að vera í vatni. Börn eru jafn misjöfn og þau eru mörg en allir þurfa að baða sig til að koma í veg fyrir óhreinindi og sýkingahættu. Mælt er með að börn séu böðuð á tveggja til þriggja daga fresti en auðvitað meta foreldrar hvert tilfelli fyrir sig. 

Baðferðir eru hluti af skynjunarferli barna. Að finna fyrir gusugangi og fá að sulla í vatni er skynjun og hin mesta skemmtun. Hér koma nokkrar einfaldar og skemmtilegar hugmyndir að óvenjulegum baðferðum sem hægt er að grípa í þegar tilefni er til. Góða skemmtun!

1. Klakabað Frystið leikföng í klakaformi, eins og leikfangadýr úr plasti, sílikoni eða öðru vatnsheldu efni. Leyfðu barninu að taka klakana með sér í baðið svo það finni og skynji þegar klakarnir bráðna og leikföngin losna úr þeim. Mikilvægt er að fylgjast vel með hitastigi vatnsins í baðinu því ef margir klakar eru settir ofan í lækkar hitastigið frekar hratt.

2. Sjálflýsandi bað Leyfið barninu að taka alls kyns sjálflýsandi dót með sér í baðið og slökkvið ljósin inni á baðherberginu. Það er ævintýraleg upplifun fyrir barnið að vera ofan í baðkarinu með tilheyrandi ljósadýrð.

3. Raksápubað Setjið rakstursfroðu í nokkrar plast- eða sílikonskálar og litið þær í öllum regnbogans litum með matarlit. Bætið við fimm dropum af hverjum lit fyrir sig í hverja skál. Leyfið barninu að mála baðkarið eða flísalagða baðveggi með baðfroðunni eða bera hana á kroppinn. Froðan litar ekki þegar matarlitnum hefur verið blandað vandlega saman við.

4. Slímbað Setjið nokkra pakka af jello-dufti ofan í baðkarið á meðan þið látið vatnið renna í. Það er misjafnt hversu marga pakka af dufti þörf er á að nota en það fer eftir vatnsmagninu á móti. Mikilvægt er að hræra duftið og baðvatnið saman. Slímugt bað vekur mikla kátínu hjá börnunum og ekki skemmir liturinn fyrir.

5. Vatnsblöðrubað Látið renna í bað líkt og venjulega en fyllið vatnsblöðrur af köldu vatni í baðvaskinum á meðan rennur í baðið. Flytjið vatnsblöðrurnar yfir í baðkarið og leyfið barninu að sprengja blöðrurnar ofan í baðinu. Ótrúlega mikil skemmtun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert