Sækir hughreystingu í börnin fjögur

Kanye West.
Kanye West. AFP

Fjöllistamaðurinn Kanye West segir að hann sæki festu og hughreystingu í börn sín. West stendur nú í skilnaði við eiginkonu sína og móðir barna sinna, Kim Kardashian, en þau eiga fjögur börn saman. 

„Ég sæki mína hughreystingu í að hitta börnin mín, og festu í að vera með góða rútínu,“ sagði West í viðtali við Jason Lee. Hann segir að það hafi verið ástæðan fyrir því að hann keypti húsið á móti Kardsahian og ætli að búa þar. 

„Þess vegna keypti ég húsið á annað borð. Vinna, rappið, fjölmiðlar, ekkert af þessu er að fara halda mér frá börnunum mínum,“ sagði West. 

Þau Kardashian eiga saman North sem er átta ára, Saint sem er sex ára, Chicago sem er fjögurra ára og Psalm sem er tveggja ára. 

„Ég vil að allir viti þetta: Ekki rugla í mér, ekki rugla í börnunum mínum, það er engin öryggisgæsla að fara koma upp á milli mín og barna minna, og þið eru ekki að fara gaslýsa mig,“ sagði West. 

„Börnin mín verða bókstaflega í göngufjarlægð. Ég fíflast ekki þegar kemur að krökkunum. Í gegnum þennan skilnað.. þeir geta farið í þætti og gert grín. Þeir geta sagt brandara í fjölmiðlum. Þeir geta lekið sögum um hverjar ég er að hitta. Þeir geta komið í veg fyrir samstarf og allt það, en ég segi það hreint út: Ekki rugla í börnunum mínum,“ sagði West. 

Kardashian sótti um skilnað við West í febrúar á síðasta árið, sex árum eftir að þau gengu í hjónaband. Þau hafa bæði farið fram á að deila forræði yfir börnunum. 

Kanye West og Kim Kardashian eiga fjögur börn saman.
Kanye West og Kim Kardashian eiga fjögur börn saman.
mbl.is