Þreyttar mæður hittust til að öskra

Þreyttar mæður söfnuðust saman til þess að öskra.
Þreyttar mæður söfnuðust saman til þess að öskra. Ljósmynd/Pexels

Um tuttugu þreyttar mæður í Boston í Bandaríkjunum komu saman eitt kvöld fyrr í mánuðinum til þess að öskra saman. Skildu þær börn sín og heimili eftir og hittust á fótboltavelli þar sem þær öskruðu og öskruðu. 

Konurnar stóðu í hring undir flóðlýsingu vallarins í um 20 mínútur og köstuðu frá sér öllu því sem hvílt hefur á herðum þeirra undanfarna mánuði og ár. 

„Það var svo gott að geta sleppt sér alveg í fyrsta skipti,“ sagði Sarah Harmon, sálfræðingur, jógakennari og móðir sem skipulagði viðburðinn, í viðtali við New York Times

Harmon hélt fyrsta öskurfundinn á síðasta ári eftir að skjólstæðingar hennar höfðu stungið upp á því. Skjólstæðingar hennar eru margar mæður, líkt og hún, sem hafa gengið í gegnum krefjandi tímabil í faraldrinum. 

Harmon sjálf sagði að börnin hennar, 3 og 5 ára, væru að gera hana geðveika í faraldrinum. 

Faraldurinn hefur tekið sérstaklega mikið á barnafjölskyldur. Foreldrar hafa þurft að halda börnum sínum heima stóran hluta faraldursins. Margar spurningar hafa brunnið á foreldrum, bæði um hvað gerist ef börn smita og af hverju börn undir fimm ára aldri mega ekki fá bóluefni að svo stöddu. 

En eitt kvöld, hinn 13. janúar, lögðu þessar mæður allt til hliðar, til þess einfaldlega að öskra frá sér bugunina. „Það er svo magnað hversu léttum manni líður eftir að maður gerir þetta. Ég svaf betur,“ sagði Harmon. 

Öskurstundin var í fimm hlutum. Fyrsta stundin var venjuleg öskur, sú næsta með blótsyrðum, þriðja blönduð og allt leyfilegt. Í fjórðu umferð var öskrað fyrir allar þær mæður sem voru of uppteknar til að koma og öskra. Í fimmtu umferð var keppni hver gat öskrað lengst. Jessica Buckley vann þann titil þegar hún öskraði í rúma hálfa mínútu. 

„Ég hefði örugglega getað haldið áfram að öskra. Þetta er búið að vera verulega erfiður tími,“ sagði hin 36 ára gamla tveggja barna móðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert