Fann fyrir kvíða og vanlíðan í nýju hlutverki

Sonja Björk Jónsdóttir á soninn Erik Óliver sem er eins …
Sonja Björk Jónsdóttir á soninn Erik Óliver sem er eins og hálfs árs. Ljósmynd/Aðsend

Sonja Björk Jónsdóttir, íþróttafræðingur og einkaþjálfari hjá Reebok Fitness, eignaðist soninn Erik Óliver með kærasta sínum Jónmundi Grétarssyni leikara fyrir einu og hálfu ári. Sonja segir móðurhlutverkið hafi verið krefjandi og enginn dans á rósum en á sama tíma ótrúlega gefandi. 

„Eftir að Erik Óliver fæddist fór tíminn að líða alveg ótrúlega hratt. Ég tók eftir því hvað mér fór að finnast tíminn dýrmætur þar sem hver mánuður hefur í för með sér svo miklar breytingar á þroska barnsins. Maður sjálfur breytist kannski ekkert svo mikið í hverjum mánuði en með barni sem er að vaxa verða áhrif tímans svo skýr,“ segir Sonja Björk um fyrsta eina og hálfa árið í móðurhlutverkinu. 

Kenndi sjálfri sér um svefnleysi sonar síns

Sonja Björk segist hafa fundið mikið fyrir andlega álaginu sem fylgir því að fá nýjan einstakling inn í líf sitt. Hún segir þurfa huga að allskonar hlutum sem tengjast barninu og hugsa um barnið allan sólarhringinn. „Fyrir manneskju eins og mig sem er alltaf að reyna að skipuleggja sig var heilinn á fullu og svefnleysið gerði það verkefni svolítið erfiðara og meira krefjandi með tilheyrandi minnisleysi,“ segir Sonja Björk. 

„Drengurinn okkar svaf illa frá fyrsta degi og hefur síðasta eina og hálfa árið svolítið litast af því. Fyrst um sinn var ég mikið að berjast við að reyna laga svefninn hans og láta hann passa inn í allskonar fyrirfram ákveðna staðla sem olli mér miklum kvíða og mér fannst ég alveg ótrúlega léleg í þessu nýja hlutverki. Það hlyti bara að vera eitthvað að mér fyrst að ég gæti ekki látið barnið mitt sofa. Þegar það var búið að útiloka fæðuofnæmi og fleiri kvilla ákvað ég að sætta mig bara við stöðuna og þá létti mikið á andlega álaginu. Allan þennan tíma var samt mjög sterk tilfinning hjá mér að það væri eitthvað að angra barnið þegar hann svæfi og ég fékk svo loks staðfest eftir að hafa hitt talmeinafræðing að Erik Óliver væri með stíft aftara tungu- og varaband sem gæti verið að hafa áhrif á hann.

En þrátt fyrir mikla þreytu þá stendur upp úr breytingin á því hversu sterkt maður getur upplifað allskonar tilfinningar tengt þessum nýja einstaklingi. Gleðin sem fylgir einu litlu brosi, þegar hann nær að fullkomna nýjan hæfileika eða sorgin og stingurinn í hjartað þegar hann meiðir sig eða grætur sárt.“

Sonja Björk, Jónmundur og Erik Óliver.
Sonja Björk, Jónmundur og Erik Óliver. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú ættir von á barni?

„Tilfinningarnar voru blendnar þegar ég komst að því að ég ætti von á barni. Ég sjálf var meira en tilbúin í þetta nýja hlutverk en Jónmundur hafði enga löngun í að verða faðir svo það var ekki í plönunum hjá okkur. Ég upplifði mikla spennu en á sama tíma kvíða og sorg yfir því að fréttirnar myndu líklega vera ákveðið áfall fyrir hann. En áhyggjurnar voru óþarfar og þegar við vorum búin að ná að meðtaka þetta vorum við bæði spennt fyrir þessu nýja upphafi og eiga þeir feðgar dásamlegt samband og eyða miklum tíma saman meðan mamma er að vinna.“

Leið best á golfvellinum

„Meðgangan gekk vonum framar. Ég fékk lítil sem engin einkenni fyrir utan seinni parts þreytu sem sótti á mig fyrsta þriðjunginn. Ég var heppin að geta haldið áfram að hreyfa mig alla meðgönguna og það var í rauninni ekkert sem lét mér líða eins og ég væri ólétt nema stækkandi kúlan framan á mér,“ segir Sonja Björk um meðgönguna. 

Íþróttir eru stór hluti af lífi Sonju Bjarkar. Hún ákvað að halda áfram að hreyfa sig eins og hún var vön á meðan hún gat en passaði að hlusta vel á líkamann. 

„Ég var á þessum tíma að vinna mikið með HIIT og hringþjálfun og hélt því áfram en aðlagaði æfingarnar eftir því sem leið á meðgönguna og lækkaði ákefðina. Æfingarnar breyttust svo að vísu svolítið þar sem fyrsta bylgja covid skall á þegar ég var gengin um 20 vikur og þá fóru æfingarnar bara fram heima í stofu. Það var svona hápunktur dagsins hjá okkur í þessu fyrsta samkomubanni. Ég fór svolítið út að skokka en hætti því fljótlega í kringum 20 vikur af því ég þoldi ekki tilfinninguna að finnast ég vera alveg í spreng.

Á sumrin er ég svo mikið í golfinu og mér fannst æðislegt að vera út á golfvelli og þegar ég hugsa til baka þá leið mér eiginlega langbest þar. Það var eitthvað við það að vera úti og að vera gangandi sem mér fannst gera rosalega gott fyrir líkamann. Síðasta þriðjunginn var ég mestmegnis bara að nýta golfið sem hreyfingu og náði að spila alveg fram á síðustu viku.“

Feðgarnir eru hinu mestu mátar.
Feðgarnir eru hinu mestu mátar. Ljósmynd/Aðsend

Drengurinn kom þegar heimferðarsettið kom

„Ég var búin að ákveða það að barnið myndi fæðast fyrir tímann þar sem ég var sjálf fyrirburi og báðir synir systur minnar einnig. Ég hafði heldur engar áhyggjur af þessari fæðingu þar sem fæðingar í minni fjölskyldu höfðu yfirleitt gengið mjög hratt fyrir sig,“ segir Sonja Björk þegar hún lýsir fæðingunni. 

„Mamma hafði sent mér heimferðasett í pósti undir lok meðgöngunnar en pakkinn týndist í póstinum. Ég var mjög pirruð yfir því og ætlaði nú ekki að fara fæða þetta barn og vera ekki með heimferðasettið klárt. Svo var það um morguninn 28. ágúst þegar ég var gengin 39 vikur að ég fékk loksins skilaboð um það að ég ætti pakka á pósthúsinu. Ég bruna strax að sækja pakkann og ég man að ég hugsaði út í það á leiðinni að ég væri með svona vægan verk í maganum sem var frekar viðvarandi.

Eftir það fór ég að hitta bumbuhópinn minn í hádegismat og ég fór labbandi þar sem ég var orðin óþolinmóð og fyrst heimferðasettið var mætt mátti þetta bara fara að gerast. Síðan leið dagurinn og það var svo ekki fyrr en eftir kvöldmat að verkirnir fóru að aukast. Ég fékk fljótlega mikla samdrætti og með frekar stuttum tíma á milli. Eftir að hafa talað við ljósmæðurnar á fæðingardeildinni reyndi ég að fara að sofa en það var hægara sagt en gert þar sem ég var aðallega svo stressuð að vera heima þar sem það var svona normið í minni fjölskyldu að börn fæddust bara nokkrum klukkustunum eftir fyrsta verk. Jónmundur minn var ekkert að átta sig á þessu stressi í mér þar sem hann var á leiðinni í golfmót um morguninn eftir og vildi reyna að sofa eitthvað fyrir það. Hann er nú yfirleitt ekki að stressa sig á hlutunum en ég þurfti að útskýra fyrir honum að hann væri ekki á leiðinni í golfmót í fyrramálið fæðingin væri farin af stað.

Þegar ég var alveg orðin buguð úr áhyggjum að barnið myndi örugglega fæðast á stofugólfinu heima fórum við upp á deild. Þegar þangað var komið fór að hægjast á öllu ferlinu og lítið gerðist. Eftir einhvern tíma var mér svo gefið smá morfín til þess að reyna að ná að hvílast. Við það duttu hríðarnar alveg niður og fór ég þá í nálastungu til þess að reyna koma hríðunum aftur af stað sem virkaði vel.

Ljósmóðirin spyr mig svo hvort að ég hafi enga þörf fyrir að rembast sem ég fann ekki en hún sagði að ég mætti prófa og þá helltist yfir þessi þörf til að rembast. Þannig var það alla fæðinguna, rembingsþörfin kom ekki sjálfkrafa heldur þurfti ég að framkalla hana í hverri hríð. Að lokum tók rembingurinn tvo tíma og korter. Ég var alveg búin með alla mína orku og var alveg handviss um að ljósmóðirin væri bara að ljúga að mér þegar hún sagði að þetta væri allt að gerast. Þá hafði drengurinn verið skorðaður aðeins skakkt með höfuðið sem gerði það að verkum að það hægðist á öllu ferlinu. En hann fæddist 29. ágúst um 14 tímum eftir að við komum upp á deild.“

Svefnleysið sagði til sín

„Ég man að mér leið eins og ég væri bara ótrúlega sterk og hraust fyrstu dagana eftir fæðinguna sem kom mér svo á óvart. En það hefur líklega verið af því að ég var svo heppin að ná að hreyfa mig alveg fram á síðasta dag. Ég byrjaði á því að fara í göngutúra og gera grindarbotnsæfingar fljótlega eftir fæðinguna og prufaði mig svo áfram með rólegar heimaæfingar eftir um mánuð. Það voru þó aðallega einfaldar styrktaræfingar og teygjur fyrir mjaðmasvæðið þar sem ég fann fyrir svolitlum stífleika í mjóbaki og mjöðmum eftir fæðinguna,“ segir hún. 

„Ég fann það svo fljótt þegar ég ætlaði að fara taka æfingarnar aðeins fastari tökum að það var sama hversu lítið ég ætlaði að taka á því að líkaminn minn höndlaði það bara ekki vegna svefnleysis. Það var því í rauninni ekki ástandið á líkamanum sem mér fannst aftra mér heldur skorturinn á hvíld. Fljótlega fann ég að ég hafði ekki til orkuna til að æfa og ég fann að líkaminn minn var ekki að ná neinni endurheimt. Það tók smá á andlega að geta ekki hreyft mig eins og ég vildi en ég tók þá ákvörðun að halda mig bara við göngutúrana meðan ástandið væri svona. Ég hafði upplifað svipað ástand áður þegar ég hafði komist í svokallað ofþjálfun sem olli miklu svefnleysi og það tók mig langan tíma að vinna mig til baka úr því og ég vissi að það væri ekki þess virði að ofgera mér á þessum tímapunkti. Líkaminn minn var komin í mikið streituástand, ásamt því að vera með barn á brjósti, sem gerði það að verkum að líkaminn braut sig niður og ég missti mikinn vöðvamassa og þyngd þó svo ég reyndi að borða vel og mikið þá dugði það ekki til. Það var því frekar krefjandi að komast aftur af stað og ég myndi segja að ég hafi verið að komast svona almennilega af stað um ári eftir fæðinguna.“

Sonju Björk leið vel á golfvellinum sumarið sem Erik Óliver …
Sonju Björk leið vel á golfvellinum sumarið sem Erik Óliver kom í heiminn. Ljósmynd/Aðsend

Foreldrar þekkja barnið sitt best

Hvað hefur komið þér á óvart í móðurhlutverkinu?

„Öll tímabilin sem maður þarf að komast í gegnum fyrsta árið. Hvað mér fannst ég oft vera bara á byrjunarreit. Alltaf þegar ég held ég sé búin að ná tökum á öllu þroskast blessað barnið og nýjar áskoranir taka við.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum mæðrum?

„Gefðu þér tíma í að kynnast barninu þínu og finnið út hvað hentar ykkur sem fjölskyldu. Það hafa allir sínar skoðanir á hvernig er best að gera hlutina út frá sinni eigin reynslu en það þekkir enginn barnið þitt betur en þú. Það er líka ótrúlega kvíðavaldandi að reyna stjórna öllu sem ekki endilega er hægt að stjórna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert