„Hættið að spyrja mig hvort ég sé ólétt“

Chrissy Teigen er í tæknifrjóvgunarferli.
Chrissy Teigen er í tæknifrjóvgunarferli. Ljósmynd/VALERIE MACON

Fyrirsætan Chrissy Teigen og söngvarinn John Legend ætla að freista þess enn einu sinni að reyna að eignast fleiri börn. Hjónin eru í miðju tæknifrjóvgunarferli þessa dagana en fyrir tæplega ári síðan misstu þau fóstur. Sá missir hafði mikil og djúpstæð áhrif á þau.

„Hæ. Ég vildi láta ykkur vita að ég er á kafi í annarri tæknifrjóvgunarlotu til að reyna að bjarga eins mörgum eggjum og ég mögulega get. Vonandi náum við að búa til sterka og heilbrigða fósturvísa,“ sagði Teigen á Instagram um liðna helgi. Eggheimtuferlið virðist ganga vel og uppsetning fósturvísis í góðum farvegi ef marka má sögu hennar á samskiptamiðlinum, Page Six greindi frá.

Teigen sýndi frá hormónaörvandi sprautum sem hún hefur þurft að stinga í kvið sinn síðustu daga til að auka framleiðslu á eggjum. „Þetta lætur mér líða eins og lækni eða efnafræðingi,“ sagði Teigen og hvatti aðdáendur sína til að spyrja sig ekki nánar út í þungun að svo stöddu.

„Ég bið ykkur af auðmýkt að hætta að spyrja hvort ég sé ólétt því. Ég veit að þið meinið vel með þessum spurningum en akkúrat núna er ég andstæðan við það að vera ólétt!“ sagði hún og lofaði þess í stað að upplýsa aðdáendur sína um ferlið og gang mála hverju sinni. 

Það er óskandi að draumur hjónanna um að eignast fleiri börn verði nú að veruleika. Fyrir eiga þau Teigen og Legend tvö börn, Lunu Simone, fimm ára, og Miles Theodore, þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert