„Ég vissi alltaf að ég ætlaði að eign­ast barn“

Mæðgurnar Silja Ívarsdóttir og Alexandra Halla Siljudóttir.
Mæðgurnar Silja Ívarsdóttir og Alexandra Halla Siljudóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Silja Ívarsdóttir hefur aldrei átt mann og ætlar sér aldrei að eignast mann. Hana langaði hins vegar alltaf að eignast barn og draumurinn varð að veruleika þegar dóttir hennar, Alexandra Halla Siljudóttir, kom í heiminn í september. 

„Ég hef ekki alltaf vitað að ég vildi ekki maka. Ég varð fyrir miklu kynferðisofbeldi þegar ég var yngri en var alltaf með þetta opið og reyndi að hitta gaura. Staðan var bara þannig að ég frestaði stefnumótum í margar vikur og mánuði með öllum fáránlegustu afsökunum. Ef ég mætti þá var það alltaf eina stefnumótið því ég byrjaði áfram með lygar til að mæta ekki á það næsta. Ég var því alltaf að reyna að vera að mér fannst venjuleg en mér leið ekki vel þannig og var orðin þreytt á að pína mig. Fyrir þremur árum fór ég að tala opinskátt um að ég ætlaði mér ekki í samband. Ég viðurkenni að stundum myndi ég vilja vakna samkynhneigð og búa bara með konu en það er ekki eitthvað sem þú ákveður. Ég fékk sjaldan spurningar um af hverju ég ætti ekki maka. Fólk var örugglega bara vant því að ég mætti aldrei með neinn í veislur og svona eins og til dæmis systkini mín gerðu. Flestir samþykkja það að ég vilji ekki eiga mann en ég fæ alveg reglulega að heyra: „Þú átt eftir að finna hinn eina sanna.“

Silja fékk jákvæð viðbrögð þegar hún ákvað að eignast barn.
Silja fékk jákvæð viðbrögð þegar hún ákvað að eignast barn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var tilbúin

Silja lét nokkra vita þegar hún tók ákvörðun um að eignast barn og segir að hún hafi fengið mikinn stuðning og jákvæð viðbrögð. Þegar hún varð svo ólétt og tilkynnti að hún ætti von á barni komin 12 vikur á leið fékk hún enn fleiri jákvæð viðbrögð. „Ég fékk fullt af skilaboðum frá fólki sem hrósaði mér fyrir að gera þetta ein. Ástæðan fyrir þessum viðbrögðum er líklegast að fólk sá að ég var tilbúin. Ég efast um að þau hefðu brugðist svona við fyrir mörgum árum þegar ég var bara alls ekki tilbúin sjálf.“

Kom einhver tímapunktur sem þú hugsaðir með þér að nú væri kominn tími til að eignast barn?

„Ég vissi alltaf að ég ætlaði að eignast barn og var í rauninni alltaf að bíða eftir tilfinningunni nú er ég tilbúin. Þegar hún kom hafði ég strax samband við Livio og fékk tíma. Ég býst við að þessi tilfinning hafi ekki komið fyrr því að ég vildi hafa aðstæðurnar fyrir barnið eins fullkomnar og hægt var. Ég fann því að ég vildi klára námið mitt sem viðurkenndur bókari og vinna aðeins áður. Ég kláraði námið 2020 og byrjaði að vinna í NTV-skólanum þar sem ég var í náminu og fór í meðferðina í janúar 2021.“

Silja varð ólétt eftir fyrstu tæknisæðinguna.
Silja varð ólétt eftir fyrstu tæknisæðinguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferlið gekk eins og í draumi

Það getur verið hálfgerður frumskógur að leita að rétta sæðisgjafanum. „Þegar ég var búin að setja mínar óskir inn í leitina þá voru þeir bara tíu. Þegar maður eignast barn einn þá reynir maður að velja gjafa sem er sem líkastur manni sjálfum. Einnig vildi ég hafa hann opinn því það er í eðli okkar að vilja vita hvaðan við komum. Alexandra getur fengið allar upplýsingar um „pabba“ sinn þegar hún verður 18 ára. Ég veit mjög mikið um hann og fékk fullt af barnamyndum og allt um hann og hans fjölskyldu en það er ekki alveg það sama. Það var líka annað sem mig langaði gjarnan að gjafinn hefði og það var hljóðfæraleikur. Börn sem hafa áhuga og geta leitað í hljóðfæri hafa svo margt,“ segir Silja um valið á sæðisgjafanum.

Silja segir að ferlið hafi gengið eins og í draumi. „Ég hafði heyrt margar reynslusögur um hvað þetta væri erfitt og væri að mistakast trekk í trekk. Ég grét oft þegar ég las sumar reynslusögurnar. Ég pantaði því þrjá skammta í þeirri von um að það myndi duga. Ég varð ólétt eftir fyrstu tæknisæðinguna mína og á því tvo skammta í geymslu. Það sem ég held að hafi hjálpað er að ég gerði bara ekki ráð fyrir að þetta gæti tekist í fyrstu tilraun og var því sultuslök. Stress er mjög eðlilegt en hefur rosalega slæm áhrif á þetta ferli.“

Varð ástfangin í fyrsta sinn þegar dóttirn fæddist

Hvernig hefur lífið breyst síðan þú varðst móðir?

„Það hefur allt breyst. Hér áður gerði ég það sem ég vildi, þegar ég vildi, ef ég vildi. Ég skaust inn í búð að kaupa mjólk og það tók enga stund. Ég þurfti bara að hugsa um mig og gat tekið ákvarðanir með engum fyrirvara. Nú er allt breytt. Nú er ég með Alexöndru með mér og maður stekkur ekkert lengur. Ég þarf að ákveða hluti fyrir fram og reikna út hvenær hún sefur og taka það inn í myndina. Ég var reyndar óvenjufljót að venjast þessu og finnst þetta bara oftast lítið mál núna. Stærsta breytingin var tvennt. Ég vissi ekki að það væri hægt að elska svona rosalega mikið. Ég hef aldrei verið ástfangin og því ekki upplifað ástartilfinningu fyrr en Alexandra fæddist. Ég horfi á þessa litlu veru og elska hana svo mikið að mig verkjar næstum. Hún er það æðislegasta sem til er í heiminum og ég myndi vaða eld og brennistein fyrir hana. Annað sem kom mér smá á óvart og það var kvíði. Ég er alltaf hrædd um að ég sé að gera eitthvað rangt eða að hún hætti að anda í svefni eða sé of kalt eða heitt. Ég var reyndar búin að heyra um þetta en trúði þessu ekki alveg fyrr en ég átti Alexöndru. Hún sefur til dæmis mjög stutt í einu á nóttunni og vaknar oft til að drekka. Eitt sinn svaf hún í fimm tíma en ég var vöknuð eftir þrjá tíma og hékk yfir vöggunni næstu tvo tímana að tékka hvort hún andaði. Það sama var með þegar hún svaf úti í vagni. Fyrstu tvo mánuðina var ég svo hrædd um að hún myndi deyja að ég tók hana bara inn eftir að hafa kannski tékkað á henni á minnst fimm mínútna fresti.“

Móðurhlutverkið er erfitt en dásamlegt.
Móðurhlutverkið er erfitt en dásamlegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Var það alltaf fyrsta val að ganga með barnið sjálf og eiga það ein?

„Ég vissi alltaf að ég ætlaði að eiga barnið ein og ganga með það sjálf, fyrir utan stutt panik í gegnum árin þar sem ég hélt að þetta yrði allt of erfitt ein og ég yrði að eiga með vin eða eitthvað en það leið alltaf hjá mjög fljótlega,“ segir Silja.

Lífið er dásamlegt

Þrátt fyrir að Silja sé eina foreldrið er hún alls ekki ein með dóttur sína. Hún á stóra fjölskyldu og er móðir hennar hennar helsti stuðningsaðili. Hún kemur og passar og kíkir mikið í heimsókn. Einnig býr stúpmóðir Silju í næstu götu og hjálpar hvenær sem er. „Pabbi minn dó þegar ég var 11 ára en stjúpmamma mín fór aldrei frá mér og er ég henni ævinlega þakklát fyrir það. Þegar pabbi deyr þá er stjúpmamma mín ein með systur mínar, þá fimm og þriggja ára, og ólétt að bróður mínum. Það var ekki auðvelt ástand þótt hún hafi leyst það vel,“ segir Silja sem þarf ekki hafa áhyggjur af því að verða allt í einu ein og sjá um dóttur sína án allrar aðstoðar sem hún var áður vön.

Silja segir fjölmarga kosti í því að eiga barn ein þó svo að stundum geti það reynt á. „Ég fæ til dæmis að taka allar ákvarðanir tengdar henni ein og ég elska það. Ég þekki svo ekkert annað en að vera ein og vissi alltaf að þannig myndi það verða. Ég er vön að vakna alltaf með henni á nóttunni og ganga um með hana ef hún er óróleg og sjá um allt. Ég viðurkenni samt alveg að þetta er stundum erfitt. Alexandra er ákveðið barn sem vill ekki sofa hvar sem er eða hvenær sem er og drekkur mjög oft á nóttunni. En ég er bara svo þakklát að henni líður vel og er heilbrigð, brosmild og glöð lítil stelpa. Þetta er svo allt bara tímabil og áður en ég veit af verðum við farnar að sofa miklu betur. Það væri allt öðruvísi ef ég ætti hana með maka og svo myndi hann falla frá eða við skilja því þá væri ég búin að hafa hjálp á móti mér tímabundið og gera ráð fyrir henni. Mamma er samt dugleg að koma og passa þegar ég þarf að sinna erindum og hefur prófað að fara með hana í heimsóknir svo Alexandra venjist líka öðru fólki. Ég vil gera allt til að hún verði ekki mannafæla en út af Covid höfum við verið mikið bara tvær að dúllast,“ segir Silja.

„Lífið mitt er dásamlegt. Ég elska að vakna með stelpunni minni á hverjum degi og að vera með henni. Ég sé hana vaxa og dafna og breytast og þroskast og það er það besta í heimi, hún er best í heimi. Líf mitt snýst um hana og það er frábært,“ segir Silja sem sér ekki sólina fyrir dóttur sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert