Húmor getur verið hluti af uppeldinu

Friðrik Valur Hákonarson.
Friðrik Valur Hákonarson. mbl.is/Unnur Karen

Friðrik Valur Hákonarson uppistandari notar húmor í uppeldi dóttur sinnar. Hann segir uppeldi og það sem maður upplifir yfir ævina hafa meiri áhrif en staðirnir sem maður býr á.

„Þegar ég komst að því að barnsmóðir mín væri ólétt varð ég strax glaður og byrjaði að hugsa hvernig faðir ég ætlaði að verða. Ég hef verið að þroskast með barninu mínu og gerði mér grein fyrir því að ég gæti ekki tekið ákvarðanir um hvernig faðir ég vildi vera einungis út frá mér.

Tilfinningar dóttur minnar skipta líka máli. Ég hef vissulega getað stungið upp á hlutum og reynt að vekja áhuga hennar á þeim, en hún er sín eigin manneskja. Svo þarf líka að gera hlutina í samræmi við hvað móðirin vill. Nokkuð sem ég spáði ekki mikið í á meðgöngunni. Svo það var áhugavert hvað ég var sjálfhverfur á sínum tíma.“

Var sjálfselskur á sinn eigin tíma

Varðstu með-ófrískur?

„Nei, ég get ekki sagt að ég hafi verið það. Ég var sjálfselskur á minn eigin tíma, eyddi miklum tíma bara að djamma og ekki nægum tíma með barnsmóður minni eins og ég hefði viljað að ég hefði gert þá þegar ég hugsa um þetta í dag.“

Hvernig upplifðir þú fæðinguna?

„Fæðingin var svolítið mögnuð og tilfinningaþrungin. Ég man að ég var spenntur, hræddur og óstyrkur og fann fyrir samúð með móðurinni. Að hún væri að ganga í gegnum eitthvað sem væri eflaust mjög sársaukafullt að upplifa. Ég man að á tímapunkti þegar dóttir mín var á leiðinni inn í heiminn fór ég að gráta. Ég er mjög þakklátur að barnsmóðir mín leyfði mér að vera hluti af þessari upplifun.“

Húmor einkennir heimilislífið

Friðrik Valur segir húmor einkenna heimilislífið og að dóttir hans sé á ákveðnum aldri þar sem ein tegund brandara eigi sérstaklega upp á pallborðið.

„Ég átti erfitt með að eignast vini en á mjög ungum aldri tók ég eftir því að þegar mér tókst að segja brandara sem ég hafði heyrt eða lesið og aðrir krakkar hlógu þá byrjaði vinátta að myndast. Ætli sé ekki best að segja að maður sé í stöðugri framþróun með að læra mannleg samskipti, þá eru brandarar og það að fá fólk til að hlæja mín leið til að tengjast fólki númer eitt, tvö og þrjú.“

Friðrik Valur notar húmor í uppeldi dóttur sinnar.

„Ég nota húmor til að létta andrúmsloftið. Það er hægt til að koma börnum úr fýlu og í betra skap. Svo hermir hún stundum eftir mér og gerir hvað hún getur til að koma mér í betra skap. Svo húmor er öflugt fyrirbæri, eins breytilegur og hann er á milli manneskja. Ég myndi allavega mæla með að prófa að nota meiri húmor í uppeldi. Það gerir heimilið eflaust skemmtilegra.“

Fólk er misfyndið

Hvernig getur fólk þróað húmor sinn fyrir framan áhorfendur?

„Meðal annars á mánudögum á Frederiksen Ale House Hafnarstræti 5 í uppistandi. Ég hvet fólk sem langar að prófa slíkt til að mæta á mánudögum og skrá sig. Það eru nokkur ár síðan það voru „open mic“-uppistandskvöld á íslensku hér í Reykjavík og fannst okkur Lovísu Láru Halldórsdóttur samstarfskonu minni og uppistandara ásamt fleirum mikilvægt að vera með grínkvöld á íslensku.

Það er nóg af góðum grínistum í landinu og vonandi með þessum kvöldum fáum við enn fleiri sem vilja spreyta sig á uppistandi.“

Geta allir fundið húmorinn í sér eða er fólk einfaldlega misskemmtilegt?

„Fólk er misfyndið og sumt fólk hagar sér í kringum brandara og tilraun til að fá hlátur og gleði frá fólki eins og orðin muni eyðileggja lífsgæði fólks. Svo í stuttu máli má segja að fólk sé mjög misskemmtilegt.“

Eðlilegt að þinn húmor hitti ekki í mark alls staðar

Er til tíska í bröndurum?

„Já og nei. Það koma svona bylgjur þar sem allir eru að tala um einhvern einn hlut eða manneskju eða fleira og „markaðurinn“ byrjar að yfirfyllast af bröndurum um þetta málefni þar til fólk verður leitt á því.

Fyndinn og vel skrifaður brandari þarf stundum bara að hitta á rétta fólkið sem hefur húmor fyrir honum.“

Er ólíkur húmor í gangi á mismunandi stöðum á landinu?

„Já, stundum. Ég er þó með kenningu um húmor og hún er sú að húmor litast meira af uppeldi og lífsupplifunum en stöðunum sem við erum á hverju sinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »