Höfum við ekkert lært?

Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með …
Hulda Björk Svansdóttir er móðir Ægis Þórs sem er með Duchenne-vöðvarýrnunarsjúkdóminn.

„Það er ýmislegt sem fer í gegnum hugann þegar manni verður hugsað til ástandsins í heiminum og þá sérstaklega í Úkraínu. Hvað er það sem skiptir mestu máli í lífinu? Ég hugsa að flestir myndu segja að fjölskylda og vinir séu það mikilvægasta sem við eigum. Mesta ríkidæmið sem maður á og það sem gefur manni mesta hamingju í lífinu er einmitt ástvinir okkar er það ekki? Við getum ekki keypt neitt sem veitir okkur hamingju þannig að allir heimsins peningar og völd er ekki það sem við þurfum. Það að við getum notið lífsins með ástvinum okkar í öryggi og friði er dýrmætara en allt,“ seg­ir Hulda Björk Svans­dótt­ir móðir Ægis Þórs í sín­um nýj­asta pistli

Þetta stríðsástand fær mann til að hugsa hvað það er sem skiptir máli og hversu heppin við erum að búa á Íslandi þar sem ríkir friður og öryggi. Ég man eftir sem lítil stelpa þegar ég heyrði fyrst um stríð. Mér fannst þetta algerlega óskiljanlegt og bara svo heimskulegt að einhver vildi fara í stríð. Ég man svo sterkt að hvað ég var í miklu uppnámi yfir því að það skyldi vera til stríð og sagði meira að segja við mömmu að það ætti bara að reka þessa kalla sem væru forsetar og vildu fara í stríð, þeir væru bara vitlausir. Ég spurði mömmu af hverju allir gætu ekki verið vinir svo það væri ekki til neitt stríð. Börnin hafa oft vit fyrir fullorðna fólkinu og kannski við ættum að fara að hlusta meira á þau. Ægir sagði einmitt við mig um daginn þegar hann sá fréttir um stríðið : lærðum við ekkert á stríðunum sem eru búin að vera í heiminum? Hann hefur verið að spyrja út í fyrri heimstyrjaldirnar og veit hvers konar hörmungar það voru fyrir heiminn og því spurði hann að þessu og skiljanlega. Þetta er hárrétt hjá honum, höfum við ekkert lært?

Heimurinn þarf meiri ást og samkennd ekki hatur og stríð, það er svo margt annað sem við ættum að frekar að vera að gera eins og gera heiminn okkar betri saman. Nú þegar ég er orðin fullorðin og fylgist með heimsatburðum þá líður mér alveg eins og þegar ég var litla stelpan sem skildi ekki af hverju það þyrfti að vera til stríð. Þetta er mér algerlega óskiljanlegt, hvernig getur fólk verið svona vont við hvert annað?

Stríð bitnar alltaf á þeim saklausu og mér er hugsað til allra þeirra sem þjást núna til dæmis allra fötluðu og langveiku barnanna í Úkraínu sem fá ekki lyfin sín eða þá meðferð sem þau þurfa núna. Þetta ástand bitnar meira að segja á rússneskum börnum hér á Íslandi sem verða nú fyrir einelti fyrir það eitt að vera rússnesk. Hvar er kærleikurinn í heiminum?

Maður er ósköp vanmáttugur í þessu ástandi en það sem ég held að maður getir gert er að reyna að vera jákvæður, að vera góð manneskja og koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan. Með því að gera þetta meðvitað þá fer maður að smita út frá sér og þannig dreifist kærleikurinn áfram og þið getið ímyndað ykkur hversu kraftmikið þetta verður því fleiri sem gera þetta.

Ég veit þetta er mikil einföldun á málinu því margir í heiminum eiga við geðræn vandamál að stríða og eru ófærir um að gera þetta en ef að hinir sem geta fara að leita innra með sér, finna kærleikann og setja hann út í heiminn geta góðir hlutir gerst því eins og við vitum verður lítill neisti að stóru báli. Kannski náum við að útrýma stríðum þegar við minnum hvort annað á hvað skiptir máli og hvað er okkur kært. Mig langar að biðja ykkur sem lesið þessar hugrenningar mínar að senda allan ykkar kærleika til Úkraínu og út í heiminn almennt. Eyðum allri neikvæðni, setjum kærleika í hjartað okkar og vonandi leiðtoga heimsins í leiðinni og spyrjum : Höfum við ekkert lært? Getum við öll verið vinir?

mbl.is