Mikilvægt að eiga samtal við börnin um stríðsátök

Eva Bjarnadóttir stýrir innanlandssviði UNICEF á Íslandi.
Eva Bjarnadóttir stýrir innanlandssviði UNICEF á Íslandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heimsfaraldur, hryðjuverk, stríð og aðrar hremmingar sem dynja á heimsbyggðinni geta falið í sér erfið umræðuefni á milli foreldra og barna. Fullorðnir einstaklingar eiga oft sjálfir í vandræðum með að skilja ástandið hverju sinni og börnin því enn frekar. Samtal foreldra og barna um voðaverk og mannvonsku er þó mikilvægt. Það getur verið þung byrði að bera fyrir litlar sálir að heyra um stríð og sprengjuárásir og sjá hrottafengnar myndir af hörmungunum utan úr heimi í fréttatímunum. Sama hvert áhyggjuefni barna er þá er nauðsynlegt að taka samtalið og ræða við þau á þeirra forsendum út frá aldri og þroska.

„Það er allt í lagi að foreldrar hafi ekki alltaf svörin á reiðum höndum. Það má stundum segja; „ég bara veit ekki hvað er að gerast, ég skil ekki hvað er að eiga sér stað,“ segir Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri innanlandsteymis hjá UNICEF. 

„Það er afar mikilvægt að foreldrar hughreysti börn sín á svona tímum. Segi þeim frá því góða og jákvæða sem er að gerast og fræði þau um alla þá hjálp sem þeir stríðshrjáðu eru að fá. Stundum getur líka verið gott að fá börnin til að leggja hönd á plóg, safna framlögum eða slíkt, til dæmis með því að halda tombólu og færa þeim sem þau vilja styðja ágóðann,“ segir Eva. 

Samtökin UNICEF eru leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn víðs vegar um heim. Á vefsíðu UNICEF er hægt að nálgast ýmsar greinar og fræðsluefni sem komið getur foreldrum að gagni þegar börnum þeirra líður eins og þau beri heiminn á herðum sér með tilheyrandi kvíða og vanlíðan. 

„Við sem foreldrar getum ekki lofað börnum okkar að ekkert slæmt muni nokkurn tíma henda þau en verðum að muna að telja þeim trú um að Ísland er friðsæl þjóð og hér ríkir friður núna. Við verðum að telja börnum okkar trú um að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur en skiljanlega hafa þau samkennd með öðrum sem búa ekki við sömu aðstæður og þau. Við þurfum líka að passa að gera ekki lítið úr hugarangri barnanna,“ segir Eva.

Á vefsíðu UNICEF á Íslandi er að finna áhugaverða og gagnlega grein fyrir foreldra sem vilja vanda samtalið um yfirvofandi stríðsátök við börn sín. Smelltu hér ef þú lesa grein UNICEF í heild sinni. 

mbl.is