Með samviskubit yfir að vera vinnandi móðir

Leighton Meester.
Leighton Meester. AFP

Leikkonan Leighton Meester segist alltaf vera með samviskubit yfir að fara frá börnum sínum í vinnuna. Hún segir samviskubitið ekkert minnka, þrátt fyrir að eldra barn hennar og leikarans Adam Brody sé orðið 6 ára. 

„Það virðist ekkert skána. Ég hélt kannski að það myndi gera það, en það gerir það ekki. Og núna er ég búin að eignast tvö börn. Þannig þetta er eiginlega tvöfalt samviskubit,“ sagði leikkonan í viðtali við ET.

Meester og Brody eiga saman dótturina Arlo sem er sex ára og son sem þau eignuðust árið 2020 en hafa ekki opinberað nafnið á. 

„Að fá að vinna er algjör gjöf, því ég vil vera hérna, ég skemmti mér vel,“ sagði Meester og bætti við að samfélagið gæfi foreldrum ekki tækifæri til að líða vel með að vinna úti. 

Meester segist sjálf hafa upplifað mjög blendnar tilfinningar þegar hún var við tökur á sinni nýjustu kvikmynd, The Weekend Away, í Króatíu. 

„Öll fjölskyldan kom með mér og eyddi fyrstu tveimur vikunum með mér. Ef þau hefðu ekki komið hefði ég algjörlega misst það. Dóttir mín, sem er eldri, fór með eiginmanninum mínum heim, því hann er að vinna í Bandaríkjunum. Ég var svo frá þeim báðum í mánuð, sem var miklu lengra en ég hafði nokkurn tíman verið frá þeim. Mér fannst það mjög erfitt,“ sagði Meester. 

mbl.is