„Fullkomið tækifæri til að halda Liverpool-veislu“

Mikael Hjaltason fermist frá Njarðvíkurkirkju sunnudaginn 20. mars. Liverpool-þema verður í veislunni enda æfir fermingardrengurinn knattspyrnu og er gallharður stuðningsmaður rauða hersins. 

Mikael býr með fjölskyldu sinni í Innri-Njarðvík þar sem hann gengur í Akurskóla. Hann er næstyngstur í fjögurra systkina hópi og eru þau Ásta Kristbjörg Bjarnadóttir og Hjalti Þór Þórólfsson því ekki að undirbúa fyrstu fermingu heimilisins. Ásta segir börnin tvö sem þegar eru fermd hafa fengið að ráða litaþema í sínum veislum, en Mikael hafi ákveðið að taka þetta alla leið.

„Hann var strax alveg ákveðinn í að velja Liverpool-þema, enda mikill stuðningsmaður liðsins og áhugamaður um fótbolta, en hann æfir sjálfur með 4. flokki í Njarðvík þar sem hann er markmaður og stefnir hátt,“ segir Ásta og bætir því við að Mikael sé mikil félagsvera og sitji bæði í nemendaráði skólans og ungliðaráði Reykjanesbæjar.

Veislan í sal Sálarrannsóknarfélagsins

Veislan verður haldin í sal Sálarrannsóknarfélags Suðurnesja þar sem boðið verður upp á ýmsa smárétti að ósk Mikaels.

„Við verðum með alls konar smárétti sem honum þykja góðir, eins og kjúklingaspjót, vorrúllur, tartalettur, heita rétti og tertur. Ég mun að mestu sjá um veisluna sjálf með góðri og dyggri aðstoð fjölskyldu og vina, en mun þó kaupa eitthvað tilbúið svo við getum notið dagsins betur og verðum ekki á haus í undirbúningi. Við ákváðum að hafa veisluna degi fyrr og erum þá fyrst og fremst að hugsa til ættingja okkar sem eru að koma utan af landi og þurfa að keyra um langan veg,“ segir Ásta sem vonast til að sóttvarnaafléttingar nái fram að ganga og staðan bjóði upp á stóra veislu.

Facebookhópar hjálplegir

Ásta segir þau hjónin vera töluvert seinni í allri skipulagningu í þetta skipti en í fyrri fermingum og helgist það helst af ástandi faraldursins. „Undirbúningurinn hefur tekið nokkurn tíma þar sem við höfum spáð og spekúlerað hvernig best sé að græja og gera hlutina. Mér finnst gaman að skoða og fá hugmyndir og ég get alveg gleymt mér við það í tölvunni eða símanum. Ég hef nýtt mér facebooksíðurnar Fermingarundirbúningur og hugmyndir og Fermingarvörur og þjónusta. Á þeim er að finna allt milli himins og jarðar, fullt af flottum hugmyndum og svo er fólk bæði jákvætt að svara spurningum og duglegt að deila myndum, sem hjálpar helling við hugmyndasköpun. Á þessum síðum er svo einnig verið að selja og gefa skraut og hefur það sennilega hjálpað mörgum. Þá virðist töluvert um að fólk sé að selja fermingarfatnað, sem oft er aðeins notaður í örfá skipti. Ég ætla að kaupa föt á Mikael sem hann getur vonandi notað eftir ferminguna. Ég hef verið dugleg að skoða netsíður ýmissa fyrirtækja og verslana og það er svo þægilegt hve auðvelt er bæði að skoða og versla á netinu,“ segir Ásta.

Mikael er ákveðinn ungur maður sem veit hvað hann vill. „Ég hef alltaf ætlað að fermast á svona venjubundinn hátt og skoðaði ekki aðra möguleika. Ég er kristinn og skráður í þjóðkirkjuna svo í raun kom ekkert annað til greina, en systkini mín og foreldrar hafa einnig fermst í kirkjunni svo ég hugsaði ekki mikið út í annað. Mér finnst fermingarfræðslan erfið þar sem ég á svo erfitt með að einbeita mér og við erum svo mörg saman í fræðslunni. Mér finnst lærdómur hennar helst vera í því að sjá tilganginn og hvað Guð gerir. Við erum líka að fjalla um kærleika og það að bera virðingu fyrir öðrum, sem veitir ekki af í dag. Svo fórum við í fermingarferðalag í Vatnaskóg sem var svakalega skemmtilegt.“

Fullkomið tækifæri til að halda Liverpool-veislu

Mikael segir að sig hafi alltaf langað að halda veislu eða afmæli með Liverpool-þema. „Þegar ég var svo farinn að mæta í messur og gera mér almennilega grein fyrir því að það yrði veisla fékk ég hugmyndina um að þetta væri fullkomið tækifæri til að halda Liverpool-veislu,“ segir Mikael og Ásta bætir við: „Við ætlum að reyna að taka þetta alla leið, eða eins langt og við getum. Við erum búin að ákveða þrjá meginliti fyrir veisluna; rauðan, svartan og hvítan, allt litir sem nokkuð auðvelt er að nálgast í skrauti og öðru. Við leituðum hugmynda á netinu og spurðumst fyrir á fermingarsíðunum. Við höfum skoðað skraut á innlendum netsíðum en ekki haft mörg tækifæri til þess að fara saman og skoða. Í dag er hægt að fá

Liverpool-gestabók, fermingarkerti, boðskort og tertur, þannig að við ættum að geta gert nokkuð góða og flotta fermingarveislu. Við stefnum á að vera með myndasýningu í veislunni og Mikael mun einnig segja okkur orð. Hann hefði sjálfur viljað fá Friðrik Dór til að koma í veisluna þar sem hann er mikill aðdáandi,“ segir Ásta kímin.

Þakklátur foreldrum sínum

Mikael segir það hafa komið sér á óvart hve mikill undirbúningur er fyrir stóra daginn. „Mamma var farin að huga að sal fyrir veisluna fyrir ári og ég vissi ekki að hve mörgu þarf að huga til þess að gera flotta veislu, en það fer mikill tími og peningur í þetta,“ segir Mikael og bætir því við að hann hafi tekið mikinn þátt í hugmyndavinnunni. „Mér finnst mjög gaman að vinna í þessu og hef ég verið að skoða hugmyndir um þemað og slíkt með mömmu. Hún sér svo að mestu undirbúninginn en ég mun svo hjálpa til þegar við förum að græja veisluna þegar nær dregur.“

Það stendur ekki á svari hjá Mikael þegar hann er spurður hverju hann langi að klæðast á fermingardaginn: „Mig langar helst að fermast í Liverpool-búningi, ég á rauðar Liverpool-buxur, en ég fæ nú sennilega ekki leyfi fyrir því,“ segir Mikael og hlær. „Ég á eftir að fara og finna mér föt en held að ég muni velja einhverjar töff en sparilegar buxur, ásamt skyrtu og jakka. Svo langar mig að vera í Nike Air Force-skóm, eða eitthvað slíkt. Við vinirnir verðum ekkert endilega eins klæddir, þó líklega flestir í svipuðum skóm, en við verðum allir mjög flottir,“ segir Mikael sem er með puttann á púlsinum þegar kemur að fermingartískunni. „Ég held að hún sé alls konar og ekkert eitt rétt. Ég held samt að það sé „in“ að vera í íþróttaskóm við sparifötin, enda bæði þægilegt og flott.“

Langar í miða á Liverpool-leik í fermingargjöf

Mikael er fullur tilhlökkunar fyrir fermingunni og öllu því sem henni tengist. „Ég hlakka mest til að fá að fermast og er þakklátur fyrir allt það sem foreldrar mínir eru að gera fyrir mig varðandi veisluna og að gera daginn flottan. Ég hlakka til að halda veislu fyrir fólkið mitt, en auðvitað er ég líka spenntur að fá gjafir, ég væri að ljúga ef ég segði það ekki,“ segir Mikael, en heitasta óskin er þó að fá miða á leik með Liverpool í fermingargjöf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert